Jeep kynnir “First Edition” af Wrangler 4xe tengitvinnbíl í Evrópu
- Jeep® Wrangler Rubicon PHEV útgáfa kemur í salinn hjá Ísband í apríl
Hér heima á Íslandi hefur Ísband verið að kynna tengitvinnútgáfu af Jeep Compass 4xe og Jeep Renegade 4xe, en núna var Jeep einnig að kynna tengitvinnútgáfuna af Jeep Wrangler 4xe.
Ísband er einmitt að tilkynna á sinni vefsíðu að þeir muni fá Jeep® Wrangler Rubicon PHEV, sem er væntanlegur í apríl 2021 á verði frá 9.490.000 kr, en þessi „fyrsta útgáfa verður dýrari, mun til dæmis kosta um 76.000 evrur í Þýskalandi (um 11,9 milljónir ISK).
Í byrjun aðeins í Evrópu
Jeep var að kynna „fyrstu útgáfu“ eða „First Edition“ af tengitvinngerð Wrangler 4xe, sem mun koma á markað í Evrópu snemma árs 2021.
Þó ekki hafi verið tilkynnt um að bíllinn verði líka fáanlegur í Ameríku, þá búast erlendar bílavefsíður við því að það muni einnig gerast á næstunni.
Fyrsta útgáfan vel búin
Eins og venjulega er „fyrsta útgáfan“ byggð á venjulegum 4xe með rausnarlegum lista yfir staðalbúnað og handfylli af sértækum hlutum í útliti. Byggður á 80 ára afmælisútgáfunni, fær bíllinn alla möguleika aukabúnaðar sem er í boði eru á 4xe, þ.mt hituð framsæti og fjölmörg atriði rafrænnar aðstoðar ökumanns. Kaupendur fá einnig skipulagsbúnað í farangursrými, hlíf yfir bílinn, framlengda fimm ára ábyrgð og aðild að Jeep Wave vildaráætluninni. Jeep leggur líka til hleðslutæki og kapal til að tengjast opinberum hleðslustöðvum.

Svartur, „Granite Crystal“ og „Bright White“ eru einu valkostirnir í litaframboði fyrir fyrstu útgáfuna.
Jeep bendir á að þetta séu þeir þrír litir sem evrópskir viðskiptavinir kjósa. LED-framljós, Granít Crystal áhersluatriði, 18 tommu felgur og hörð hlíf fyrir varadekkið er einnig að finna á listanum yfir staðalbúnað. Að innan býður frumsýningargerðin upp á 8,4 tommu snertiskjá með leiðsögukerfi, snjallsímatengingu og upplýsingaskjá í mælaborðinu.

Engar breytingar á vélbúnaði
Jeep gerði engar vélrænar breytingar á fyrstu útgáfunni, þannig að hún er knúin áfram af bensín-rafmagnstengdri tvinnaflrás sem samanstendur af 2,0 lítra turbó fjögurra strokka vél og rafmótor sem er samþættur átta gíra sjálfskiptingarinnar. Heildarafköst kerfisins eru 375 hestöfl og togið er 637 Nm.

Mikilvægt er að rafeindatæknin (þar með talin 17 kílówattstunda litíumjónarafhlaða) er að fullu varin fyrir utanaðkomandi áhrifum. Eins og Wrangler, sem ekki er tengitvinnbíll, er 4xe fær um að keyra í gegnum allt að 76 cm djúpt vatn.

Kemur á almennan markað í Evrópu í sumar
Evrópskir ökumenn sem vilja skoða náttúruna í Wrangler 4xe „fyrstu útgáfu“ þurfa að skrá áhuga sinn á sérstaka vefsíðu fyrir miðjan mars. Þeim verður þá gefinn kostur á að kaupa jeppann þegar sala hefst fyrir sumarið 2021. Enn liggja ekki fyrir upplýsingar um hve margir bílar af „fyrstu útgáfu“ verði smíðaðir.
Jeep mun setja fyrstu útgáfuna á markað í Frakklandi, Þýskalandi, Ítalíu og Sviss. Aðrir markaðir munu fylgja. Vefsíðan Autoblog leitaði til fyrirtækisins til að vita hvort Ameríka er einn af þeim en það verður ljóst síðar.