Hyundai Kona EV: Betri með hverju árinu sem líður!

TEGUND: Hyundai Kona EV

Árgerð: 2022

Orkugjafi:

Rafmagn

Hyundai Kona EV hefur notið vinsælda á rafbílamarkaðinum um árabil. Hann hefur verið talinn með þeim betri í sínum flokki hvað varðar verð og drægni...

Afar góðir aksturseiginleikar, afl og innrétting
Stór miðjustokkur
147
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Hyundai Kona EV: Betri með hverju árinu sem líður!

Fyrsti bíllinn sem ég reynsluók og fjallaði um hér á Bílabloggi var Hyundai Kona EV árgerð 2019. Það er skemmst frá því að segja að ég var mjög hrifinn af bílnum og hef alltaf verið.

Hyundai Kona EV hefur notið vinsælda á rafbílamarkaðinum um árabil. Hann hefur verið talinn með þeim betri í sínum flokki hvað varðar verð og drægni. Það sem meira er; hann fæst í fjölda útfærslna og meðal annnars sem tvinnbíll.

Smart útlit á nýjum Kona EV.

Þægilegur akstur

Hyundai Kona EV er snaggaralegur, lipur og þægilegur bíll. Hann lætur vel að stjórn og fer vel með mann í akstri. Stýrið er létt og þægilegt, sætin halda vel við og eru vel hönnuð.

Plássið er þokkalegt þrátt fyrir stóran miðjustokkinn. Innréttingin er falleg og bíllinn afar bjartur.

Hyundai Kona EV er afar þægilegur akstursbíll.
Hagkvæmur Hyundai Kona hefur notið vinsælda á rafbílamarkaðnum undanfarin ár.

BL býður Hyundai Kona EV í þremur útfærslum. Um er að ræða Comfort, Style og Premium. Comfort bílinn er boðinn með 39 kWst. rafhlöðu en Style og Premium bílarnir koma með 64 kWst. rafhlöðu. Hyundai Kona EV er framhjóladrifinn, skilar 204 hestöflum og togið er um 395 Nm.

Verðið er frá rúmum fimm milljónum og upp í rúmar sex.

LED aðalljós.

Vel búin grunntýpa

Grunntýpan er afar vel búin. Það er sammerkt með Hyundai bílum að grunnbúnaðurinn er yfirleitt til fyrirmyndar. Bíllinn er vel búinn loftpúðum og  þar má nefna gardínu-, hliðar- og hnéloftpúða sem auka öryggi ökumanns og farþega til muna.

Mælaborðs- og margmiðlunarskjár eru á 10,25 tommur að stærð.

Comfort bíllinn er sú gerð sem hefur verið hvað vinsælust en hann er afar vel búinn. Í honum er meðal annars akreinastýring, sjálfvirk neyðarhemlun, LED aðalljós, upphituð aftursæti, þráðlaus farsímahleðsla, lyklalaust aðgengi, skynvæddur hraðastillir og blindhornaviðvörun – allt eiginleikar sem eru í boði í best búnu gerðum bíla í dag.

Miðjustokkurinn er flottur en helst til of breiður.

Það stenst sem sagt er

Fyrir marga er það stórt skref að fara yfir í rafmagnsbíl. Það er kannski ekki eins mikið mál og margir halda. Þess má geta að samkvæmt erlendum bílagagnrýnendum fær Hyundai Kona afar góðar umsagnir varðandi drægni. Þar er einnig talað um að upplýsingar frá framleiðanda standist að flestu leyti.

Við erum jú, oftast að tala um drægni skv. WLTP prófunarstaðlinum en samkvæmt honum á Hyundai Kona EV að komast um 484 km. á hleðslunni.

17 tommu felgur.

Á vetrum er áætlað að Hyundai Kona EV komist um 335 km á hleðslunni (EV database). Þá erum við að miða við íslenskt vetrarveður og blandaðan akstur. Í borgarakstri hefur bíllinn mælst í því sem næst hámarksdrægni en þá er miðað við milt verður og ef til vill týpískt íslenskt sumar.

Það eru þó dæmi þess að bíllinn hafi farið mun lengra en uppgefin drægni segir til um – bæði hér á landi og erlendis.

Fallegur framendinn hefur verið uppfærður.

Hversu lengi að hlaða?

Kemst hann til Akureyrar á einni hleðslu? Þetta er sú spurning sem hvað oftast heyrist þegar menn vilja ræða drægni. Hægt er að hlaða Hyundai Kona EV í heimahleðslustöð á um 7,5 klst. Þá er miðað við að bílinn taki við um 10,5 kw á klukkustund.

Kona getur tekið við 100 kw í hraðhleðslustöð og þá tekur um 55 mínútur að hlaða frá 0-80% af rafhlöðunni.

Hyundai Kona getur tekið við allt að 100 kW í hraðhleðslu.
Rafmótorinn gefur um 204 hestöfl.

Við mælum með að þið skoðið myndbandsbloggið okkar hér með greininni. Farangursrýmið er þokkalegt þó ekki sé það stórt. Um er að ræða 332 lítra en hægt er að fella niður sæti og þá eykst flutningsplássið upp í rúma 1.100 lítra. Dráttargetan er um 300 kg. en talsvert margir framleiðendur nefna ekki dráttargetuna enda eykst rafmagnsnotkun óhóflega við slíkan akstur.

Hiti er bæði í fram- og aftursætum.

Góð akstursupplifun

Við ókum bílnum talsvert enda höfðum við hann yfir páskana í reynsluakstri. Í lengri ferðum reyndist aksturinn afar þægilegur og bíllinn fór afar vel með mann. Þú situr frekar hátt í bílnum og sjónlínan er góð. Stinn fjöðrun gerir bílinn stöðugan en samt er fjöðrun ekki stíf.

Hyundai Kona leggst ekki í beygjurnar og lætur mjög vel að stjórn. Ekki var bíllinn síðri í borgarakstrinum, lipur og léttur.

Bíllinn er afar huggulegur að innan.

Mælaborðið sýnir á skýran hátt allar nauðsynlegar upplýsingar og birtist manni á 10,25 tommu stafrænum skjá. Þá er miðjuskjárinn skýr og liggjandi lögun hans gerir að verkum að hann trónir ekki upp úr mælaborðinu og skyggir á útsýni framrúðu.

Leðursæti eru valkostur.

Það eina sem undirrituðum fannst er að miðjustokkurinn, þó flottur sé, er aðeins klossaður. Það þýðir að fótapláss fyrir ökumann og farþega frammí verður þrengra. Ef framsæti eru í öftustu stöðu fyrir er frekar lítið fótapláss aftur í.

Hentar fjölbreyttum hópi

Hyundai Kona EV er hagkvæmur og vel heppnaður rafbíll sem hentar öllum aldurshópum, hvort sem er fjölskyldufólki eða eldri borgurum sem vilja ferðast á umhverfisvænan máta. Drægnin og nýting rafhleðslunnar hefur komið mjög vel út hjá Hyundai Kona EV.

Í Premium bílnum er Krell hljóðkerfi.

Helstu tölur:

Verð frá 5.290.000 kr. Reynsluakstursbíll af Style gerð á 6.090.000 kr.(apríl 2022).

Rafhlaða: 64 kWh.

Dráttargeta: 300 kg.

Drægni: 484 km.

0-100 km á klst. 7,9 sek.

Farangursgeymsla: 332 lítrar.

CO2: 0 g/km.

Þyngd: 1.760 kg.

L/B/H: 4.180/1.800 /1.570 mm.

Myndataka og myndvinnsla: Dawid Galinski.

Klipping myndbands: Dagur Jóhannsson.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar