Hleðslustöðvar Tesla fyrir alla?
Tesla opnaði nýlega eina af Supercharger stöðvum sínum í Hollandi fyrir aðrar rafbílagerðir en Tesla. Hingað til er ekki annað að sjá en það hafi gengið mjög vel.
Tesla opnaði einnig á hleðslu fyrir Teslur frá Þýskalandi og Belgíu á þessari einu stöð.
Þó svo að Tesla muni líklega halda áfram með þetta frumkvöðlaverkefni í Hollandi er Noregur næsta land sem Tesla vill opna á hleðslu fyrir aðrar gerðir rafbíla. Norski fréttamiðillinn Bilbransje24 birti upplýsingar sem fulltrúi Tesla ræddi við samgönguráðuneyti Noregs.
Þar sagði: „Við erum nú að rannsaka aðra markaði fyrir hugsanlega útvíkkun verkefnisins [opnun hleðslustöðva]. Við viljum því gjarnan koma á fundi með ykkur og upplýsa ykkur frekar um áætlanir okkar […].

Gæti orðið í sumar
Ekki hefur komið fram hvenær Tesla ætli í breytingar á hleðslustöðvanetinu í Noregi en fyrri heimildir herma að það gæti orðið fyrir september 2022, án þess að þeir hjá Tesla staðfestu það. Hinsvegar staðfestu þeir að verið væri að skoða útvíkkun á notkun hleðslustöðvanetsins.
Miðillinn Electrek hermir að þegar sé búið að velja tvær hraðhleðslustöðvar í Noregi sem verða partur af verkefninu.
Grundvöllur styrkja
Hvatakerfið í Noregi stendur aðeins þeim opið sem byggja hleðslustöðvar sem eru opnar öllum gerðum ökutækja.
Það má því ætla að Tesla vilji nýta þann hvata og má leiða að því getur að allt verkefnið (opnun hleðslustöðva Tesla) sé akkúrat tilefni þess að geta fengið styrki eins og aðrir til uppsetningar og byggingar hleðslustöðva.

Hvatar til uppbyggingar hleðslunets eru þó enn meiri í Bandaríkjnum þar sem búið er að koma á fót 7,5 milljarða dollara sjóði til uppbyggingar á hleðslustöðvaneti.
Ef Tesla ætlar þá leið að bjóða fleiri gerðum en þeirra eigin að nota hleðslustöðvanet sitt er samt einn galli á gjöf Njarðar: Aðrar gerðir rafbíla þurfa millistykki til að geta hlaðið á Tesla Supercharger-stöð þannig að það gerir málið eilítið flóknara – og dýrara.
Byggt á grein á insideevs.com



