Hátíðarstemning á frumsýningu á nýjum Hyundai Ioniq 9

164
DEILINGAR
1.5k
SMELLIR

Skrapp á bílasýningu í dag hjá Hyundai á Íslandi í Kauptúni. Verið var að frumsýna splunkunýjan IONIQ 9, stóran rafdrifinn fjölskyldubíl sem er heldur betur augnayndi. Minnir helst á Chevrolet Suburban nema hann situr lægra. Þessi bíll á eftir að vekja athygli, innanrými er með eindæmum og tæknin ræður ríkjum.

Nýi Hyundai IONIQ 9 er öflug viðbót inn á íslenskan markað fyrir rafknúna fjölskyldubíla og það sést strax þegar maður skoðar hann nánar.

Þetta er þriggja sætaraða rafjeppi sem hannaður er frá grunni sem rafbíll, með miklu rými, langri drægni og áherslu á rafræna tækni og þægindi. Hyundai Ísland kynnir bílinn sem fjölskylduvæna flaggskipið í Ioniq-línunni og það er augljóst af stærð, innanrými og búnaði.

Farangursrýmið er til dæmis sérlega stórt miðað við sjö manna rafbíl: 338 lítrar eru í boði þegar allar þrjár sætaraðir eru notaðar, en felli maður öll sæti niður stækkar rýmið í rúmlega 2.400 lítra.

Þetta setur bílinn í beinan samanburð við stærstu bensín- og dísiljeppa á markaðnum, en án þess að fórna sætaplássi.

Drægnin er einnig umtalsverð. Í evrópskri WLTP mælingu nær Long-Range útfærslan allt að 605 kílómetrum á einni hleðslu, ef um er að ræða 19 tommu felgur á fjórhjóladrifnu útgáfunni.

Bíllinn byggir á 800 volta rafkerfi sem styður allt að 350 kW hraðhleðslu og getur þannig hlaðist úr 10 prósentum í 80 prósent á um hálftíma við réttar aðstæður. Þetta skiptir máli á Íslandi þar sem vegalengdir geta verið langar og hleðsluaðstaða misjöfn eftir landshlutum, þó innviðir til 800 V hleðslu séu víða að taka við sér.

Hyundai á Íslandi býður bílinn í þremur útgáfum, Limited, Calligraphy og Performance. Tveir fyrrnefndu eru 313 hestöfl en Performance bíllinn er 435 hestöfl. Allir bílar eru með fjórhjóladrifi. Rafhlaðan er 110 kWh. Verð er frá 12.890.000 upp í 14.490.000 kr.

Tæknivæðingin í innanrýminu skipar stóran sess. Stafræn stjórnkerfi, samfelldir skjáir, rafstýrt sætakerfi og V2L-virkni gera bílnum kleift að sjá rafknúnum útbúnaði fyrir orku, hvort sem það eru raftæki, verkfæri eða ferðavagnar.

Þá eru öryggiskerfi eins og Highway Driving Assist 2 og Remote Smart Parking Assist staðalbúnaður. Dráttargeta er um 2.500 kg.

Allt í allt virkar IONIQ 9 eins og bíll sem gæti hentað íslenskum fjölskyldum sem þurfa mikið rými, vilja bíl með háþróaða tækni og treysta á langa drægni.

Hann sameinar stærðarflokk sem hingað til hefur einkennst af eldsneytisknúnum jeppum með kostum rafbíls – og lítur út fyrir að ætla að vekja verðskuldaða athygli því margir börðu bílinn augum í Kauptúni í dag.

Við hjá Bílablogg.is erum búin að tryggja okkur reynsluakstur innan skamms. Ítarlega umfjöllun í máli og myndum og myndbandsblogg.

Myndir: Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar