Góðar gangbrautir auka öryggi gangandi vegafarenda
Spánverjar virða mjög vel gangbrautir og rétt gangandi vegfarenda
Það er oft gott að bera saman umferðarmenningu ólíkra landa og svæða. Svo hagar til hér á Spáni sem blaðamaður bílabloggs dvelur þessa dagana að hann er staddur í litlum strandbæ þar sem búa um 35.000 manns. Hér eru engin háhýsi, engir stöðumælar og nóg af bílastæðum.
Virða gangbrautir og rétt gangandi vegfarenda
Umferðin gengur mjög vel, Spánverjar eru liprir í umferðinni á þessu svæði, fylgja nokkuð vel öllum reglum og þá sérstaklega varðandi hámarkshraða. En það sem vekur mesta athygli gestsins er hve vel menn virða rétt gangandi vegfarenda og þá sérstaklega gangbrautir.

Gangbrautir hér um slóðir eru vel merktar, mikið af þeim og oft með stuttu millibili. Ef gangandi vegfarendur koma hér að gangbraut og gera sig líklega til að fara yfir, þá stöðvast umferðin á augabragði og hleypir þeim gangandi yfir.
Skiptir hér engu máli hvor verið er að tala um umferðina í þessum litla strandbæ, eða í stærri bæjum á borð við Alicante, Benidorm eða Calpe, á öllum þessum stöðum virða menn gangbrautir vel, þótt stærri bæirnir séu vissulega með hefðbundin umferðarljós, líkt og við þekkjum þótt þau séu ekki notuð í strandbænum okkar.
Þarf að bæta merkingar hér á landi
Þetta er nokkuð sem við á Íslandi getum vel tekið upp, en þá þarf líka að standa betur að merkingum á umferðarmannvirkjum, en ekki slugsa við merkingar á gangbrautum líkt og fram hefur komið í fréttum, og sjá mátti á mbl.is á laugardag þar sem sýndar voru ófrágengnar merkingar á gangbraut í Hlíðahverfi, aðeins hafði verið lokið merkingu við helmingi þriggja gangbrauta, og þær aðeins merktar að hálfu.

Umræður um þessa grein