Uppfinning hjólsins

Fyrir u.þ.b. 5500 árum eða 3500 árum fyrir okkar tímatal er talið að hjólið hafi verið fundið upp. Ein tilgáta er að menningarhópur sem kallast af fræðimönnum Cucuteni–Trypillia sem bjó á landssvæði sem spannaði yfir hluta Úkraínu og Rúmeníu eigi heiðurinn af því. Það eru aðrar tilgátur til en við ætlum ekki að fjalla um það hér enda virðist ekki vera hægt að negla niður hvar hjólið var fundið upp.

Þessi uppfinning og það að mannkynið skyldi læra að kveikja eld eru fjarlægur grunnur að því að hægt er að framleiða bíla og brunahreyfla.

Uppfinningin þykir hafa komið seint fram í mannkynssögunni en skýringin er líklega sú að það þurfti málmverkfæri til að skera út fyrstu hjólin en þau voru ekki til fyrir bronsöld. Áðurnefndur menningarhópur réð yfir verkfærunum og hafði aðgang að nógu gildum trjám til að geta skorið út heil hjól úr þeim. Þannig að Fred Flintstone fann ekki upp hjólið, það er á hreinu.

Það er ekki nóg að finna upp hjólið, þú þarft að finna upp öxulinn (ásinn) og vagninn eða kerruna á sama tíma! Það virðist hafa verið tilfellið en eftir að uppfinningin kom fram breyddist tæknin út eins og eldur í sinu sem gerir fræðimönnum erfitt fyrir að komast að því hvar hjólið var raunverulega fundið upp.

Fyrstu vagnarnir voru mjóir því þá var hægt að hafa öxlana grennri en sverir öxlar hafa meiri núningsmótstöðu. Oftast voru þetta tveggja hjóla vagnar en það hafa fundist fjögurra hjóla vagnar. Þeir voru yfirleitt dregnir áfram af uxum eða hestum.

Líklega hafa fyrstu vegirnir verið slóðar eftir dýr eða reiðslóðar þannig að fyrstu vagnarnir ferðuðust þá bókstaflega um troðnar slóðir.

Seinna komu fram stríðskerrur og kerrur ætlaðar til kappaksturs (já kappaksturinn var fundinn upp í fornöld). Þær voru gjarnan með hjólum með teinum eða pílárum (spoked wheel) með málmgjörð utan um hjólið. Greinilega fyrstu sportfelgurnar. En með auknum hraða þá fóru málin bókstaflega að hitna.

Það verður efnið í næstu grein.

Sett inn
15/9/2020
í flokknum:
Tækni

Fleiri fréttir úr flokknum:

Tækni

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.