Nokkuð ber á því, þegar rýnt er í gömul dagblöð, að fólk hafi hlegið að „kjánunum“ sem tóku bifreiðinni fagnandi þegar hún mætti til landsins í upphafi síðustu aldar. Frásagnir blaðanna, sem undirrituð hefur í huga, bera það með sér að ófarir ökumanna (einkum erlendis) hafi þótt skemmtiefni hið mesta.

Í sögunum megi glögglega sjá að vélfákurinn sé hlægilegt fyrirbæri sem aldrei muni leysa þarfasta þjóninn af hólmi. Þetta er algengt þegar nýjungar rugla allt heila „systemið“ - sjáið bara veraldarvefinn! Þeir voru nú nokkrir sem töldu hann bara „bólu“. En sú bóla virðist ætla að sitja sem fastast, sýnist manni.

Nema hvað! Þetta er bílablogg - ekki heimspekiblogg. Áfram með smjörið! „On with the butter“ eins og maðurinn sagði.

Baula og bifreiðarnar

Þetta breyttist fljótt og blaðamenn hættu innan fárra ára að birta frásagnir af umferðaróhöppum í sama dálki og brandarana. Auðvitað snarhættu menn að hafa slíkt í flimtingum um leið og bifreiðar urðu hluti af íslenskum veruleika. Og ekki bara bifreiðar heldur þau óhöpp sem af akstri og tækjum geta hlotist.

Auðvitað var margt klaufalegt - og er enn!

Dagblaðið Sunnlendingur var gefið út nokkuð óreglulega á Eyrarbakka snemma á síðustu öld. Í 38. tölublaði frá árinu 1911, sem skoða má hér er saga frá Bandaríkjunum. Hún birtist á sömu síðu og brandarar en umfjöllunarefnið er klaufdýr og klaufalegir bifreiðaeigendur:

„Tveir menn óku nýlega, hver á sinni bifreið milli Valley og Lechville í Bandaríkjunum, og fóru hart. Alt í einu tóku þeir eftir baulu einni á miðri brautinni, og hvernig sem þeir hringdu og blésu á bifreiðunum, rótaði baula sér ekki hið minnsta. Árekstur hlaut að verða, því hraðinn á bifreiðunum var mikill og þær hver á eftir annarri. Endaði það með því, að bifreiðarnar rákust á bauluna og alt lá í einni kös á veginum. Þótt undarlegt megi virðast, var það baulan sem bezt slapp, eftir litla stund brölti hún á fætur og hristi sig alla, labbaði síðan í hægðum sínum á braut, leit þó við og við til baka og hristi hausinn fyrirlitlega. Bifreiðarnar aftur á móti voru allar brotnar og bramlaðar, og eigendurnir barðir eins og fínasti harðfiskur.“

Já, hefði baula getað hlegið hefði hún eflaust gert það.

Þá höfðu bílar sjálfstæðan vilja

Ekki leið á löngu þar til þessi tæki fóru að gera mönnum illar glennur hér á landi. Böðluðust eftir stígum, slóðum og vegum, rymjandi og réðust stundum á það sem fyrir varð. Skondið er að sjá hvernig bíllinn var persónugerður og „hann“ gerði hitt og þetta. Ekki ökumaðurinn!

Eftirfarandi er tekið úr blaðinu Höfuðstaðurinn og árið er 1916:

„Bifreið varð fyrir því áfalli í gær að mölbrjóta annað framhjólið, er hún vildi beygja við af Laugaveginum upp á Frakkastíg, lenti hjólið í rennuna og brotnaði þar. Meira slys varð ekki að, sem betur fór. Annars þarf gætni mikla, þar sem stöðugt fjölgar bifreiðum á götunum hér að, ekki verði árekstur eða annað slys.“

Fjölskyldumynd? Neibb! Auðvitað var kjörið að stilla sér upp við „sökudólginn“ sem hefur greinilega hlaupið á saklausan staur.

Hrakfarir verða tíðari

Eðli máls samkvæmt urðu fréttirnar af aksturstengdum skakkaföllum fleiri eftir því sem bílar urðu algengari á Íslandi og annars staðar. Skemmtisögur af óförum ökumanna urðu sjaldgæfari og má segja að menn hafi áttað sig á alvöru málsins; sem og þeirri staðreynd að bílarnir væru komnir til að vera. Ekki bara bóla.

Þó voru bifreiðar nokkuð lengi ábyrgar fyrir því sem miður fór, að minnsta kosti var fjallað um þær lengi vel sem gerendur með sjálfstæðan og jafnvel einbeittan brotavilja.

Úr Morgunblaðinu haustið 1917:

„Bifreið ók á götuljóskerið hjá brunastöðinni í gærmorgun og braut það.“

„Árekstur varð milli bifreiðar og reiðhjóls í Bankastræti í fyrrakvöld. Hjólreiðamaðurinn meiddist dálítið.“

Það var greinilega eins gott að vera í öruggri fjarlægð þegar tækin áttust við. En hraðinn var ekki mikill á þessum árum og meðfylgjandi myndband er grátbroslegt á sinn hátt. Hvað sem því líður: Akið varlega lesendur góðir og njótið sumarsins!

Sett inn
22/7/2021
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.