Enn frestar Tesla framleiðslu á Cybertruck
Tesla er að breyta eiginleikum framúrstefnulega rafmagns-pallbílsins eftir því sem samkeppnin eykst frá Ford og Rivian
SAN FRANCISCO – Samkvæmt frétt frá Reuters stefnir Tesla að því að hefja framleiðslu á Cybertruck sínum sem lengi hefur verið beðið eftir, í lok fyrsta ársfjórðungs 2023, og seinka þannig áætlun sinni um að hefja framleiðslu seint á þessu ári. Þetta hafði Reuters, á fimmtudag, eftir aðila sem sagður er þekkja málið.
Viðkomandi sagði að seinkunin komi til af því að Tesla er að breyta eiginleikum og virkni rafmagns-pallbílsins til að koma fram með sannfærandi vöru þegar samkeppni hitnar í flokknum.
Búist er við að Tesla framleiði takmarkað magn af Cybertruck á fyrsta ársfjórðungi 2023 en svo muni framleiðslan aukast, sagði heimildarmaðurinn.
Tesla svaraði ekki strax beiðni um athugasemd.

Forstjóri Tesla, Elon Musk, sem afhjúpaði framúrstefnulega farartækið árið 2019, hafði þegar seinkað framleiðslu þess frá seint 2021 til seint á árinu 2022.
Musk hefur sagt að hann muni leggja fram uppfært plan varðandi framleiðslu í Tesla 26. janúar.
„Ó maður, þetta ár hefur verið svo mikil martröð aðfangakeðjunnar og það er ekki búið!,“ tísti hann seint í nóvember þegar hann var spurður um Cybertruck.
Tesla fjarlægði nýlega tilvísun í framleiðsluáætlun sína af Cybertruck pöntunarsíðu sinni. Í síðasta mánuði sagði vefsíðan: „Þú getur klárað að hanna þinn Cybertruck þegar framleiðsla nálgast árið 2022.“ Nú hefur „árið 2022“ verið sleppt og lítur þetta svona út á okkar ylhýra:

Tesla ætlar að framleiða Cybertruck í verksmiðju sinni í Texas, en gert er ráð fyrir að framleiðsla á Model Y bílum hefjist snemma á þessu ári.
Tesla smíðar rafbíla og jeppa en hefur misst af pallbílahlutanum, sem er arðbær og gríðarlega vinsæll í Ameríku.
Ford Motor og Rivian Automotive eru á undan Tesla í því að setja á markað rafmagns-pallbíla.
Ford sagði snemma í þessum mánuði að framleiðandinn muni næstum tvöfalda árlega framleiðslugetu fyrir F-150 Lightning, rafknúna pallbílinn sinn, í 150.000 bíla áður en hann kemur í vor til bandarískra söluaðila.
(Reuters og Automotive New Europe)