Það var í þessum gula Fiat 128 sem ekið var með João nýfæddan heim af fæðingardeildinni. Sá guli tengist ánægjulegum minningum úr æsku Joãos þar sem hann „ók“ bílnum í kyrrstöðukappakstri í bílskúrnum.

Portúgalinn João Carlos Carvalho er einn af fjölmörgum starfsmönnum Stellantis. Fyrir fáeinum árum (áður en FCA varð hluti af Stellantis) deildi hann sögunni af „bílnum í lífi sínu“.

João segir svo frá:

Þetta byrjaði allt saman þegar ég ákvað að koma fyrr í heiminn en áætlað var. Þetta gerðist reyndar svo hratt að brunað var með móður mína í sjúkrabíl upp á sjúkrahús.

Það var ekki pláss fyrir pabba í sjúkrabílnum svo hann flýtti sér í Fiatinn sinn, Fiat 128, og elti sjúkrabílinn úr hverfinu okkar Vila Real í Porto og á sjúkrahúsið. Svo ég gefi ykkur betri mynd af þessu þá ók hann á 100 kílómetra hraða gegnum fjalllendið og hélt þannig í við sjúkrabílinn sem var sannarlega á hraðferð eins og ég.

Einhver föðurbræðra pabba hafði keypt þennan Fiat 128 árið 1972 og þetta var einmitt fyrsti bíllinn sem ég var farþegi í. Þá var ég bara nokkurra daga gamall.

Fjölskyldan hefur haldið tryggð við ítalska bíla. Fyrstur var bíllinn hans afa; Fiat 600D. Þar á eftir kom 850, svo 127, því næst 128, þá 131 Mirafiori, svo Regata, og Tipo á eftir honum, svo Uno, þá Panda, síðan Punto, þar á eftir Lancia Dedra og ekki má gleyma K-inu [Lancia Kappa] og Deltunni.

Fiat 131 Mirafiori. Mynd/Wikipedia

Allt frábærir bílar, en ég verð þó að segja að enginn þeirra komst í mínum huga nálægt Fiat 128.

Hvers vegna Fiat 128?

Ég hef oft vel þessu fyrir mér: Af hverju þykir mér Fiat 128 bestur af öllum þeim bílum sem ég hef átt?  Hvers vegna tengist ég þessum bíl svo sterkum böndum? Ég held að svarið við þessum spurningum hafi ég fengið fyrir um tveimur árum síðan.

Ég las í bók um markaðsfræði að skynjun barna er mun sterkari og skarpari, ef svo má segja, heldur en hjá fullorðnum.
Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Fiatinn var fjölskyldubíllinn okkar þegar ég var gutti og það var þessi bíll sem kom okkur á skemmtilega staði þar sem við áttum góðar stundir. Bíllinn gegndi mikilvægu hlutverki í fjölmörgu sem tengist bestu minningum mínum úr æsku.  

Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Það sem hafði mest að segja var þessi ógleymanlegi guli litur bílsins, lyktin af innréttingunni, hrjúft hljóðið úr pústinu og blessaðar drunurnar úr þessari 1100 cc vél sem hönnuð var af Aurelio Lampredi, þeim mikla meistara.

Guli geymdur inni í skúr

Þegar ég var þriggja ára keyptu foreldrar mínir Fiat Uno 45 og æ oftar var sá guli geymdur inni í skúr. En það var samt bara gott mál í mínum huga því ég gat leikið mér í bílnum. Ég átti það til að laumast inn í skúr, smeygja mér inn í bílinn og með aðra hönd á stýri og hina á gírstönginni ímyndaði ég mér að ég væri á fleygiferð.

Við skulum bara segja að saman höfum við átt ótal klukkustundir saman á ferðalögum um allar trissur hugans.

Þegar ég var 7 ára þótti tímabært að fjölskyldan seldi þann gula. Fjölskyldan hafði stækkað og við þurftum stærri bíl. Pabbi seldi bifvélavirkja í nágrenninu bílinn og á þeirri stundu var ég með ákveðið markmið: Ég ætlaði mér að eignast bílinn aftur. Fiat 128 skyldi koma heim.

Vingaðist við nýjan eiganda

Í tíma og ótíma fór ég að birtast á verkstæði bifvélavirkjans og við röbbuðum saman um allt og ekkert. Við vorum orðnir hinir mestu mátar áður en langt um leið og fór virkilega vel á með okkur. Hann leyfði mér meira að segja að þvo bílinn og gera hann fínan.

Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Bíllinn „minn“ var aðallega notaður í erfið verkefni. „Þessi bíll er öflugri en vörubíll,“ sagði nýi eigandinn. Þetta þótti mér sárt, svona til að byrja með.

Svo var það einn góðan veðurdag að nýi eigandinn lagði bílnum úti við götu og ók honum aldrei aftur.

Í steikjandi hita á sumrin og brunagaddi um vetur; alltaf stóð bíllinn þarna. Það var algjör kvöl og pína að horfa á hann drabbast niður ár eftir ár og geta ekkert gert.
Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Þegar ég varð 18 ára fór ég á verkstæðið og gerði eigandanum tilboð. Ég hafði ekki grænan grun um hver viðbrögðin yrðu en ég lét bara vaða. „Endilega taktu bílinn, João,“ sagði hann. „Ég er löngu hættur að nota hann.“ Hann vildi ekki fá einn einasta eyri fyrir en hins vegar þáði hann glaður í bragði portvínsflöskuna sem ég færði honum.

Bíll sem staðið hefur svona lengi óhreyfður og það úti við götu, er auðvitað ekki líklegur til afreka. Hann var drullugur, ryðgaður, upplitaður og stappfullur af drasli.

Bjartsýnn skipti ég um rafgeymi og reyndi öll þau trix sem ég kunni. En ekki fór gamli í gang. Það var því ekki um annað að ræða en að ýta bílnum í áttina heim.

Á leið niður brekku var eins og Fiat 128 kæmist til meðvitundar og væri sjálfur steinhissa á því! Hljóðið í vélinni minnti á krunk í eldgömlum hrafni, en ótrúlegt nokk þá gekk blessuð gamla vélin!

Pabbi skipti um skoðun

Þegar heim var komið rakst ég á föður minn. Hann varð pirraður yfir því að ég væri búinn að drösla þeim gula heim á ný. En þegar pabbi sá bílinn, eða þegar hann sá hvað ég var kátur, þá hvarf allur pirringur eins og dögg fyrir sólu. Nokkrum mínútum síðar vorum við tveir byrjaðir að pússa niður ryðið.

Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Við tók heljarinnar uppgerð og komu margir að því verki. Vélin var tekin upp og ég veit ekki hvað og hvað. Þetta tók tíma en ég mun seint gleyma þeim degi þegar við pabbi sóttum gula Fiat 128 á verkstæðið.

Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Bíllinn var glansandi fínn og fegurri en nokkru sinni. Þrátt fyrir allt sem búið var að gera fannst mér ég enn finna sömu angan inni í bílnum og þegar ég var lítill. Æskudraumur minn varð að veruleika.

Rall, bílasýningar og fornbílarúntur

Þannig lauk nú frásögn João Carlos Carvalho en sagan er þó ekki alveg búin. Tvær vikur liðu þar til João fór í góðan bíltúr. Í þetta skiptið var það ekki kyrrstöðukappakstur inni í bílskúr heldur almennilegur 700 kílómetra bíltúr eða öllu heldur þriggja daga ferðalag.

Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

João hefur haldið dagbók um ferðirnar á þeim gula og gott ef bíllinn verður bara ekki betri eftir því sem tíminn líður. Það finnst João alla vega. Fólk gleðst þegar hann tekur þátt í hinum ýmsu fornbílatengdu viðburðum því gamall gulur bíll er einhvern veginn til þess fallinn að kalla fram bros hjá fólki. Það er nú bara þannig.

Carvalho bræðurnir kepptu í fornbílaralli einhverju sinni á bílnum góða. Myndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Rall, bílasýningar, fornbílarúntur og fleira er eitthvað sem João Carlos Carvalho stundar eftir bestu getu og hann lítur til baka og sér þar ákveðna sjö ára strákinn. Strákinn sem einsetti sér að eignast bílinn „sinn“ aftur og það tókst. Frá fæðingardeildinni til dagsins í dag hafa þeir verið samferða.

Ljósmyndir: Stellantis/FCA/Carvalho

Heimild: FCA-Heritage/Stellantis

Greinar sem má vel tengja þessari: 

400 mílna ferðalag á 29 ára gömlum 47 hestafla bíl

Eignaðist bíl móðurinnar eftir 20 ára bið

Vinsælasti bíllinn árið sem þú fæddist

Manni þótti vænt um hana

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Sett inn
17/6/2022
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.