Nokkur gömul íslensk bílaumboð

Sveinn Egilsson og Co.

Ford umboðið á Íslandi er í dag hjá Brimborg. En Ford á sér langa sögu hér á landi. Árið 1926 fékk fékk Sveinn Egilsson umboð fyrir Ford á Íslandi.

Áður hafði annar Sveinn, Sveinn Oddsson, fengið umboð fyrir Ford bílum hér á landi en það var árið 1915. Um 1950 var félagið Kr. Kristjánsson hf. stofnað en það tók við umboði P. Stefánssonar fyrir Ford bílum en alls voru þrír aðilar með slíkt umboð um tíma. Kr. Kristjánsson var með talsverð umsvif á Suðurlandsbraut 2, þar sem nú er Hilton Hótel. Þar mátti sjá bíla á lyftum í risastórum gluggum - en þá var í húsinu rekið Hótel Esja.

Kristján Kristjánsson sem rak Bílasöluna á Akureyri fékk umboð fyrir Ford árið 1939. Um 1970 voru allir þessir þrír aðilar sameinaðir undir einu nafni: Ford umboðið Sveinn Egilsson.

Síðar fékk Globus umboð fyrir Ford en um 1994 semur Brimborg við þá um að yfirtaka umboðið.

Globus

Globus í Lágmúla 5 hafði umboð fyrir Citroen bílum. Undirritaður man glögglega eftir þegar splunkunýir DS bílar voru í breiðum í Lágmúlanum, líklega um árið 1975.

Yfir sætin á þeim var settur einhvers konar kreppappír á meðan aðrir bílaframleiðendur sendu bíla sína til landsins með plasti yfir sætunum.

Það þótti flott að hafa plastið á sætunum eins lengi og það entist.

Bílaborg

Mazda umboðið Bílaborg hóf starfsemi í leiguhúsnæði við Hverfisgötu númer 76. Þar afhentu þeir fyrstu bílana um 1972.

Árið 1975 fluttu þeir síðan í Borgartún 29. Það ár seldi Bílaborg um 300 bíla og um 80 mótorhjól en þeir höfðu umboð fyrir Yamaha hjólum.

Hafrafell

Hafrafell var í eigu Sigurþórs Margeirssonar. Hann flutti inn Peugeot bifreiðar. Sigurþór flutti til Bandaríkjanna og starfaði þar hjá bílainnflutningsfyrirtæki en þar lærði hann einnig bifvélavirkjun.

Hann kom svo heim og rak Hafrafell til ársins 1986 en þá seldi hann fyrirtækið til Jöfurs.

Þar starfaði hann til ársins 1988. Árið 1973 var Hafrafell á Grettisgötunni en var á Höfðanum í fjölda ára.

Vökull

Vökull flutti inn Chrysler og Dodge. Ég man eftir þessu umboði á horninu á Ármúla og Selmúla. Þeir seldu líka Simca bíla.

Óttalegar druslur held ég. Hins vegar átti Ómar Ragnarsson slíkan bíl og keppti á honum í rallýkeppnum.

Töggur

Saab umboðið Töggur var síðast á Bíldshöfða. Þetta var lítið og nett fyrirtæki sem flutti inn þessa flottu bíla frá Svíþjóð. Saabinn þótti sérstakur bíll og var ekki allra.

Til dæmis var svissinn á milli sætanna um árabil. Töggur flutti líka inn ítalska smábíla sem heita Autobianchi. Svipaði mjög til Fiat enda með slatta af svipuðum íhlutum og Fiat.

P. Stefánsson

P. Stefánsson var síðast á Hverfisgötu 103. Gengið var inn í Nexus í portinu þar sem P. Stefánsson var. P. Stefánsson var dótturfyrirtæki Heklu og fluttu þeir inn bíla frá British Leyland samsteypunni; breska hágæðabíla – eða þannig.

Alla vega voru Range Rover og Land Rover seldir þarna ásamt bílum eins og Morris Marina, Austin Mini og Austin Allegro.

Gamlar greinar og auglýsingar: www.timarit.is

Sett inn
16/6/2022
í flokknum:
Bílasagan

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílasagan

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.