Nágranninn á sennilega Skoda: Gamlar bílaauglýsingar

Hvað fær fólk til að kaupa einhvern tiltekinn bíl? Hvort auglýsingar vegi þar þungt eður ei er ekki gott að segja og verður ekkert fullyrt um það hér!

Hvernig sem á það er litið verður að viðurkenna að gamlar bílaauglýsingar eru margar hverjar dásamlegar og gaman að skoða þær. Hér, í þessum greinarstúfi, verða aðallega til umfjöllunar blaðaauglýsingar frá árunum 1965 til 1988 þar sem Skoda og Trabant fá athyglina að þessu sinni.

Traktor á vondum vegi - tryllitæki á góðum

Hjarðhegðun er tiltölulega neikvætt orð og gerir mögulega lítið úr mannfólkinu. Þó er örugglega hægt að finna eitthvað innan auglýsingasálfræði sem gæti rennt stoðum undir að kauphegðun fólks væri „hjarðkennd“ ef svo má segja.

Í auglýsingu sem birtist í blöðum á vormánuðum 1967 var gert út á það að um „70 Trabanteigendur sem keyptu fyrstu Trabant bifreiðirnar sem komu til landsins hafa keypt aftur TRABANT“. Taka þurfti fram, eins og sjá má í auglýsingunni, að „það myndu þeir [eigendurnir] ekki hafa gert væri TRABANT ekki góð bifreið“.

Út frá sálfræðinni mætti því spyrja: Fyrst 70 Trabanteigendur ætla aftur að kaupa Trabant er þá ekki morgunljóst að þetta er góður bíll?

Þá er sniðugt að skoða ummæli þeirra sem höfðu eignast Trabant nokkrum árum fyrr og birt voru í auglýsingu haustið 1965:

„Trabant hefur reynst vel að öllu leyti. Aðalkost bílsins tel ég hve vél og allt gangverk er einfalt og sterkt. Ef ég keypti nýjan bíl þá myndi ég hiklaust velja aftur Trabant,“ sagði vélvirkinn Gunnar Júlíusson.

Útvarpsþulurinn vinsæli, Jón Múli Árnason, var einn þeirra sem átti Trabant og þetta hafði hann um bílinn sinn að segja:

„Trabantinn minn er búinn að fara 25 þús. km án meiri háttar viðgerða. Hann hagar sér yfirleitt eins og traktor á vondum vegi og tryllitæki á góðum.“

„Fæ mér annan fyrir jól“

Í auglýsingunni, sem var heil síða, kom fram að næsta Trabantsending kæmi til landsins í mars 1966 og væru bílarnir mikið breyttir. Svo miklar voru breytingarnar að ekki var hægt að nefna þær allar í heilsíðuauglýsingu! „Breytingar eru samtals eitthvað á annað hundrað svo ómögulegt er að lýsa þessu nákvæmlega hér.“

Leikararnir Ævar Kvaran og Lárus Pálsson voru á meðal fyrstu Trabanteigendanna hér á landi. Hafði Ævar þetta að segja: „Bílar eru of dýrir á Íslandi. Trabant er svarið. Góður? Ég fæ mér annan fyrir jól.“

Lárus var líka ánægður með Trabantinn sinn og sagði: „Líkar hann því betur, sem ég kynnist honum betur.“

Skoda góður á slæmum vegum

Árið 1968 auglýsti Tékkneska bifreiðaumboðið að Skodabifreiðar væru með eindæmum hentugar hér á landi. „Skodabifreiðar eru sérlega styrktar til aksturs á slæmum vegum,“ segir meðal annars í auglýsingunni.

Þyki okkur vegirnir á Íslandi lélegir núna, árið 2020, má gera ráð fyrir að vegirnir árið 1968 hafi ekki verið neitt til að hrópa húrra fyrir!

Þannig mátti eiga fyrir sumarfríinu

Tuttugu árum síðar, snemma sumarið 1988, auglýsti Jöfur fjórar gerðir af Skoda. Slagorðið var: KAUPTU SKODA - ÞÁ ÁTTU FYRIR SUMARFRÍINU.

Helst til óvanaleg markaðssetning en í það minnsta rokseldust bílarnir. Það man sú sem hér ritar afar vel. Við bjuggum nefnilega á Nýbýlaveginum í Kópavogi en bæði Jöfur og Toyota voru við Nýbýlaveg og þurfti ekki að segja manni tvisvar ef bílasýning var á öðrum staðnum eða báðum. Þvílík dýrð! Ætli maður hafi ekki þótt heldur undarlegur krakki, sífellt hjólandi um planið til að skoða bílana. Og sennilega með vasana fulla af Matchbox bílum.

Í auglýsingunni góðu er handhöfum VISA boðið upp á 12 mánaða raðgreiðslur og það var nú allt og sumt sem bjó að baki þessu hér: KAUPTU SKODA - ÞÁ ÁTTU FYRIR SUMARFRÍINU.

Splunkunýtt og stórhættulegt fyrirbæri á þessum árum; RAÐGREIÐSLUR. Eflaust hafa margir áttað sig á því nokkrum mánuðum seinna að þeir áttu fyrir sumarfríinu en ekki jólunum…

„En Skoda er ekki bara ódýr heldur einnig sparneytinn, rúmgóður, léttur í stýri, hefur sjálfstæða fjöðrun á hverju hjóli. Skoda hefur 400 lítra farangursgeymslu auk nægilegs rýmis fyrir fimm fullvaxna farþega,“ segir enn fremur í auglýsingunni.

„Spyrjið nágrannann“

Bregðum okkur lengra aftur í tímann. Árið er 1972. Liðin eru tvö ár frá því hin magnaða rokkhljómsveit Led Zeppelin hélt tónleika í Laugardalshöll. Enn er ár í eldgosið í Heimaey.

Trabant hefur ekki fengist á Íslandi í nokkur ár, vegna útflutningshafta á þessum árum kalda stríðsins en nú virðist eitthvað vera að gerast! Trabant er væntanlegur aftur á íslenskan markað árið 1972 en tegundin hefur hefur verið lítt sýnileg á síðum blaðanna, eðli máls samkvæmt, og Tékkneska bifreiðaumboðið aldeilis auglýst hressilega á „Trabbalausu“ árunum 1969-1972.

„Um hina alkunnu þjónustu hjá SKODA þarf ekki að fjölyrða, - spyrjið nágrannann, því að hann á sennilega SKODA,“ segir blákalt í auglýsingu umboðsins frá 1972.

Ekki nóg með það heldur er nú kominn til landsins nýr sportbíll frá SKODA og er hann „fáanlegur í 3 tízkulitum“, segir í svarthvítri auglýsingunni.

Sportarinn, Skoda 110R Coupé, var með 62ja hestafla vél, rallýstýri, gólfskiptingu og rallýmælaborði með snúningshraðamæli, svo eitthvað sé nefnt.

Þó svo að auglýsingar Tékkneska bifreiðaumboðsins gæfu til kynna að Skoda væri sú bifreið er sjá mætti framan við nánast hvern einasta mannabústað hér á landi árið 1972 var raunin nú önnur. Samkvæmt Hagtíðindum 1972 var algengasti fólksbíllinn á Íslandi í árslok 1971 nefnilega Volkswagen.

Af 46.737 fólksbílum á landinu voru 14,2% þeirra Volkswagen. Skoda var í fimmta sæti, 2.743 bílar eða 5,9% flotans. Trabant var þá í tuttugasta sæti. Bílarnir 583 talsins eða 1,2% af bílaflota landsmanna.

Rétt er að geta þess að á árunum sem um ræðir voru alltaf fleiri bílar af gerðinni Skoda en Trabant í umferð. Hins vegar komst Skoda aldrei nálægt vinsældum Volkswagen og Ford sem iðulega skipuðu fyrsta og annað sæti listans í Hagtíðindum á þessum árum.

Trabant ei meir - um sinn

Ákaflega lítið fór fyrir Trabantauglýsingum næstu árin og sagði Ingvar Helgason, í samtali við blaðamann Alþýðublaðsins 1973, að Trabant yrði ekki fluttur inn í þeirri mynd sem verið hafði síðustu níu árin.

Sagði hann að innan fáeinna ára væri von á Trabant með vél frá Skoda því verksmiðjur Trabant í Austur-Þýskalandi og Skódaverksmiðjurnar í Tékkóslóvakíu ynnu að framleiðslu bíla saman.

Það leið þó ekki svo langur tími þar til hinn dáði 23ja hestafla Trabant varð fáanlegur á ný hér á landi. Í júní 1974 birtist þessi auglýsing í blöðunum:

Þannig var nú það. Trabant kom aftur en náði ekki sömu vinsældum og áður. Auðvitað voru Skoda- og Trabantauglýsingarnar mun fleiri á árunum 1965-1988 og hver veit nema framhald verði á þessari umfjöllun á næstunni. Kemur í ljós!

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Sett inn
23/11/2021
í flokknum:
Bílasagan

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílasagan

skoða allt
Lancia er 115 ára
Annálaðar kelikerrur

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.