Myndavélin tekur oft af allan vafa

  • Myndavél í framrúðu sem skráir það sem gerist í umferðinni er góður kostur

Eitt þeirra tækja sem komið hefur til viðbótar öðrum öryggisbúnaði í bílum er myndavél sem fest er á framrúðu bílsins og skráir allt sem gerist í umferðinni, og vistar sérstaklega myndskeið ef það kemur til áreksturs, því búnaður í myndavélinni skynjar höggið og bregst við samkvæmt því.

Það er nánast sama á hvaða erlenda bílavefsíðu er farið, þar er að finna umfjallanir um þessar bílamyndavélar (Dash Cam), kostirnir útskýrðir og lokaniðurstaðan á þeim öllum er sú sama: „Þetta er nokkuð sem allir ættu að vera með.“

Myndavélin fylgist með umferðinni fyrir framan bílinn og til hliðar, og lætur vita ef einhver bíll kemur óvænt inn í sjónsvið myndavélarinnar, eða ef bíllinn fyrir framan hægir snögglega á og í báðum tilfellum heyrist viðvörunarhljóð og skilaboð birtast á skjá myndavélarinnar.

„Reynsluakstur“ með myndavél

Fram að þessu hefur svona myndavél ekki verið í neinum þeirra bíla sem Bílablogg hefur fjallað um í reynsluakstri, og því leituðum við til Garminbúðarinnar í Ögurhvarfi til að fræðast betur, en þar á bæ er úrval af svona myndavélum í boði.

Fyrir svörum varð Ríkarður Sigmundsson framkvæmdastjóri, sem tók vel í það að leiða okkur inn í þennan heim og lána okkur eina svona myndavél til „reynsluaksturs“. Þegar ég var að spjalla við Ríkarð um kosti svona myndavéla, þá sagði hann þeim færi ört fjölgandi, og væru farnar að margsanna sig sem góðan kost sem viðbótaröryggisbúnaður í bílnum.

„Þær seljast vel, og við heyrum frá mörgum viðskiptavinum sem lýsa ánægju með það að hafa verið komnir með þennan búnað þegar óhapp verður, og eins heyrum við frá öðrum sem koma til okkar og festa kaup á myndavél eftir að hafa lent í óhappi.“

Lítil, nett og auðveld í uppsetningu

Myndavélin sem við fengum í hendur heitir Garmin Dash Cam 56, lítil og nett, eða aðeins fimm og hálfur centímetri á breidd og tæpir fjórir á hæð, með áfastri linsu og fjórum stýritökkum á hliðinni. Hún er tengd við rafkerfi bílsins með USB-snúru.

Það kom eiginlega á óvart hversu auðvelt er að koma myndavélinni fyrir í bílnum. Hún er fest í framrúðuna þannig að lítilli málmplötu með límborða er komið fyrir á rúðunni á þann stað sem valinn er fyrir myndavélina. Í okkar tilfelli var myndavélinni valinn staður beint fyrir neðan baksýnisspegilinn, og það reyndist létt verk að „fela“ snúruna í bilinu á milli gluggakants og rúðunnar. Myndavélin litla er síðan með segulfestingu í fætinum sem festir hana tryggilega við álímda málmsmellu á rúðuna.

Þessi myndavél er með björtum litlum litaskjá, sem gerir það auðvelt að stilla hana af þannig að hún nái að grípa sjónsviðið fyrir framan bílinn í akstrinum.

Í fyrsta sinn þegar kveikt er á vélinni þarf að framkvæma nokkrar grunnstillingar, en að öðru leyti er hún tilbúin til notkunar. Það er kveikt á skjánum við upphaf ökuferðarinnar, en eftir smástund kemur tilkynning á skjáinn um að hann muni slökkva á sér en að upptakan sé áfram í gangi.

Hér er búið að koma myndavélinni fyrir í framrúðunni, fyrir neðan baksýnisspegilinn. Góð staðsetning varðandi yfirsýn fram á veginn og innan seilingar ef það þarf að smella af mynd.

Lætur vita af aðsteðjandi hættu

Og þá var farið að aka og prófa og þegar myndefnið var skoðað á stærri skjá mátti sjá að gæði þessu eru ótrúlega góð, frá ekki stærri vél.

Einn af kostum myndavélarinnar er að hún fylgist vel með umferðinni og lætur ökumanninn vita af aðsteðjandi hættu. Eitt skiptið sveigði bíll nokkuð glannalega í veg fyrir bílinn okkar og þá kom viðvörun um hættu á árekstri. Myndavélin lét líka vita af hættu á næstu akrein.

Auk þess er hægt að taka „stakar myndir“ með því að ýta létt á neðsta hnappinn á myndavélinni og hún staðfestir með skilaboðum á skjánum að myndin hafi verið vistuð.

Góð áminning fyrir ökumanninn

Sú staðreynd að vera með svona myndavél í bílnum, sem skráir allan akstur og geymir upplýsingar um hraða og aksturslag, er í raun góð áminning í akstri fyrir ökumanninn sjálfan. Ég stóð sjálfan mig að því hvað eftir annað að fylgja betur réttum umferðarhraða, bara af því að myndavélin var að taka þetta upp!

Hér er dæmi um staka mynd – hún sýnir dagsetningu og tímann þegar myndin er tekin ásamt staðsetningu bílsins (hnit í GPS) og hraðann sem hér er 27 km/klst.

Stöðug upptaka og hægt að vista lengri ökuferðir

En myndavélin nýtist í meira. Með henni er hægt að taka upp lengri ökuferðir, bæði til gagns og ánægju. Til dæmis er auðvelt að fylgjast með aksturslagi þegar bíllinn er lánaður einhverjum. Þá nýtist myndavélin vel til að fylgjast með aksturslagi annarra og getur nýst vel ef það kemur til umferðaróhapps innan sjónsviðs myndavélarinnar þótt við séum ekki aðilar að því, en myndefnið getur nýst þeim sem rannsaka óhappið.

Hægt er að skoða myndefnið með því að tengja myndavélina með USB-snúru við tölvuna, eða flytja efnið þráðlaust beint í farsímann með sérstöku Garmin Drive-appi.

Hér má sjá sýnishorn af upptöku úr myndavélinni. Eins og sjá má eru myndgæðin góð og neðst í myndinni eru upplýsingar um dagsetningu, staðsetningu með GPS-hnitum og upplýsingar um ökuhraða.

Breitt úrval myndavéla

Það er úr breiðu úrvali svona myndavéla að velja hjá Garmin búðinni.

Allt frá Dash Cam Mini, sem er örsmá myndavél sem má hreinlega festa aftan á baksýnisspegilinn. Þessi útgáfa kostar kr. 26.900.*

Þá er hægt að velja um Dash Cam 46 sem er með 1080 pixla upplausn á mynd og kostar kr. 37.900* og næst í röðinni er Dash Cam 56, eins og við fengum til prufu og er með 1440 pixla myndgæði. Þessi gerð kostar kr. 44.900.* Þá er ein útgáfa í svipaðri stærð, en með 180° sjónsvið, Dash Cam 66W og sú gerð kostar kr. 54.900.* Þar til viðbótar er DashCam Tandem sem er með linsu sem vísar inn í bílinn og upplögð sem öryggismyndavél í vinnubíla eða fólksflutningabíla. Önnur linsan tekur upp það sem er fyrir framan bílinn, en hin myndar það sem gerist inni í bílnum, og er ljósnæm þannig að hún virkar vel jafnt að degi sem og nóttu.

Til viðbótar þarf að kaupa minniskort í myndavélina, og þau eru fáanleg í þremur stærðum, 64 Gb á kr. 4.900, 128 Gb á kr. 8.900 og 256 Gb á kr. 11.900. Stærðin fer eftir því hve mikið myndefni við viljum vista í myndavélinni hverju sinni.

Svo er hægt með öllum Dashcam nema Mini að taka mynd og vista myndband (læsa því svo að ekki sé ekki tekið yfir það aftur þegar minniskortið er fullt), og þetta er hægt að gera með raddstýringu. Þessi aðgerð er reyndar bara á ensku en mjög einföld skipun og þá þarf ekki að teygja sig í takkann. Við prófuðum þetta og það virkar bara vel!

* Athugið að verð miðast við janúar 2021, þegar greinin var skrifuð.

Tekur oft af allan vafa

Við höfðum samband við fyrirtækið Aðstoð & Öryggi ehf, (www.arekstur.is) sem sérhæfir sig í þjónustu við tryggingafélög og viðskiptavini þeirra, lendi þeir í umferðaróhöppum. Þeir aðstoða við útfyllingu á tjónaskýrslum, mælingar og myndatöku af vettvangi umferðaróhappa, sem lögregla sinnir ekki, og úrvinnslu gagna, þannig að ef einhverjir hafa reynslu varðandi notkun á þessum myndavélum þá ættu það að vera þeir.

„Þetta tekur oft af allan vafa um það hvað gerðist,“ segir Kristján Kristjánsson framkvæmdastjóri hjá Aðstoð & Öryggi (www.arekstur.is). „Við erum að skoða upptökur úr þessum myndavélum, jafnvel oft í viku, og þær sýna okkur nákvæmlega hvað gerðist.“ Að sögn Kristjáns fjölgar þessum myndavélum mjög hratt og í sífellt fleiri tilfellum ná upptökur úr þeim að útkljá öll vafaatriði sem koma upp við óhapp eða slys, og það er öllum til hagsbóta.

Að sögn Kristjáns hafa vegfarendur oft samband og bjóða fram upptökur úr sínum myndavélum af umferðaróhöppum og slysum sem þeir hafa orðið vitni að, og veita þannig góða aðstoð við að upplýsa viðkomandi mál.

„Núna fer ég og kaupi mér svona myndavél“

Þessum myndavélum fjölgar mjög og því eru það fleiri og fleiri sem geta stólað á það að eiga upptöku af óhappi ef eitthvað kemur fyrir. En það eru líka margir sem ekki eru með þennan búnað og vitnaði Kristján hjá www.arekstur.is til þess að oft væri það viðkvæðið hjá þeim sem lenda í árekstri eða óhappi og hafa notið þjónustu þeirra: „núna fer ég og kaupi mér svona myndavél“!

Tryggingarfélög: Frábær viðbót við uppgjör tjóna

Við leituðum eftir viðbrögðum frá tryggingarfélögum varðandi notagildi á myndavélum sem þessum við uppgjör tjóna í umferðinni. Í óformlegum samtölum við starfsfólk tryggingarfélaga kom fram að við uppgjör tjóna væri oft misvísandi upplýsingar til staðar, framburður tjónþola stangaðist oft á, en þegar myndavél er til staðar í öðrum hvorum bílnum eða báðum, þá væru málin mun augljósari og auðvelt að greina hvað gerðist.

Eða eins og einn viðmælandi okkar hjá tryggingarfélagi sagði: „við mælum algjörlega með því að vera með þessa myndavélar í bílunum, því þær tryggja viðkomandi réttláta útkomu við uppgjör á tjóninu, vegna þess að það eru engin vafaatriði til staðar.

Sjóvá: Jákvæð þróun ef myndavélum fjölgar

Við sendum meðal annars fyrirspurn til Sjóvá um notagildi bílamyndavéla í framrúðu (e. dash cam) og fengum greinagott svar frá Hjalta Þór Guðmundssyni, sem sagði notkun þeirra hafa færst mjög í vöxt síðustu misseri (sérstaklega í atvinnubílum) og hann staðfesti að upplýsingar úr slíkum vélum hafa reynst vel við sönnun atviks og ákvörðun um sakarskiptingu í umferðartjónum.

Hefur m.a. reynt á gildi slíkra gagna fyrir tjónanefnd tryggingarfélaganna og úrskurðarnefnd í vátryggingamálum sem hafa notað gögnin til að rökstyðja niðurstöðu í þeim málum, í sumum hverjum hafa þau haft úrslitaáhrif um sönnun og sakarskiptingu.

Mikilvægt gildi

„Gögn úr vélunum geta því haft mikilvægt gildi við úrvinnslu á umferðaróhöppum og slysum. Þau sýna oft með góðum og skýrum hætti um staðsetningu, hraða, afstöðu aðila og aksturslag, auk utanaðkomandi aðstæður á vettvangi (s.s. akreinar, umferðarmerkingar, stöðu ljósa o.s.frv.).

Þannig geta gögnin stutt við framburði (eða hrakið) ef ágreiningur er uppi milli aðila. Slíkar vélar geta því bæði haft gildi við sönnunarfærslu á framburði ökumanna en jafnframt mætti segja ákveðið forvarnargildi fyrir ökumanninn sjálfan að keyra í samræmi við umferðarreglur vitandi að vélin sé í gangi og kunni að hafa slíkt vægi sem raun ber vitni í  mögulegum óhöppum“, segir Hjalti Þór.

„Vélarnar eru auðvitað misgóðar og gæðin eftir því, en gildi þess að hafa slíkt í bílnum hefur margsannað sig að okkar mati þegar sýna þarf fram á hvernig atvik/tjón/slys hefur raunverulega átt sér stað.

Þess ber að geta að nú eru nokkrar bíltegundir komnar með slíkar vélar sem staðalbúnað (t.d. Tesla) sem einnig hafa sannað gildi sitt í ágreiningsmálum.

Forsenda fyrir því að gögn sem þessar vélar hafa að geyma, hvort sem er úr staðalbúnaði eða aukabúnaði bíls, er að eigandi bíls heimili notkun og afhendi. Það getur svo ekki alltaf reynst auðvelt að fá heimild eða eigandi telur gögn ekki til staðar (ekki kveikt á myndavélinni eða hann búinn að eyða óvart).

Slíkt vekur vitanlega upp spurningar og tortryggni ef eigandi ber fyrir sig slíku eða hafnar afhendingu slíkra gagna sem geta haft svo mikið vægi við úrvinnslu máls. Þá getur þurft að fá heimild dómstóla séu forsendur fyrir að mál fari svo langt“.

Hjalti Þór telur að umfjöllun um þetta atriði sé af hinu góða og geta haft mjög jákvæða þróun í för með sér ef myndavélagögn gætu legið fyrir í meirihluta tjónsatvika.

Slíkt myndi auðvelda mjög störf þeirra sem meta sakarskiptingu og bótaskyldu, en ekki síður að leiða mál til lykta með réttlátri niðurstöðu, þ.e. í samræmi við það sem raunverulega gerðist í hverju tilfelli.

Niðurstaða

Til að draga þetta allt saman er mælaborðsmyndavél að mínu mati góð fjárfesting, sérstaklega þar sem hún er alls ekki svo dýr miðað við notagildið, er með mjög einfalda hönnun sem venjulega samanstendur af hljóðnema og stafrænni myndavél, litaskjá og með fastri linsu. Þessar einföldu myndavélar er hægt að setja upp á mælaborðið eða í framrúðuna á bílnum þínum án mikillar fyrirhafnar.

Bíleigendur hafa úr mörgum valkostum að velja og er til dæmis hægt að kaupa þær á netinu fyrir ekki svo mjög háar upphæðir, eða í þar til gerðum verslunum.

Það eru allmargir aðilar að selja svona bílamyndavélar og sem dæmi má nefna að á vef Elko má sjá upplýsingar um nokkrar bílamyndavélar, til dæmis frá Nedis með 720p upplausn og Nextbase 222X bílamyndavél 1080p upplausn, sem kostar kr. 23.995 kr.

Valið er kaupandans. Allt eftir fjárhag, þörfum og óskum!

[Athugið að verð og annað getur hafa breyst frá því greinin birtist fyrst í janúar 2021]
Sett inn
30/6/2022
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.