Flestar minningar mínar um bílasýningar eru góðar. Þá á ég við bílasýningar hér áður fyrr (þ.e. áður en ég fékk bílpróf og fannst ég komast nær ökuréttindum með því að fara á bílasýningar). Ein minning er þó svo óþægileg að ég hélt og vonaði að um falska minningu væri að ræða. Eitthvað skelfilegt atvik sem ekki hefði átt sér stað í raun og veru. En þegar ég blés þykku rykinu af minningunni kom annað í ljós.

Bílasýningin stóra fyrir aldamót

Dagana 13.-16. maí árið 1999 var haldin svaðaleg sportbílasýning í Laugardalshöllinni og stóðu tveir ungir menn að henni; Brynjólfur Þorkelsson og Hákon Ásgeirsson.

Þarna var undirrituð nú komin með bílpróf og fær í flestan sjó. Og búin að prófa þá nokkra, bílana.  Ég var bílasjúk. Það hefur ekkert breyst. Í dag er samt auðveldara að svala bílaþorstanum.

Við höfum greiðan aðgang að snilldarsíðum eins og Bílabloggi og svo mætti lengi telja. Á þessum tíma bárust bílatímaritin, sem maður var með í áskrift utan úr heimi, seint en nokkuð örugglega.  

Bílablöðin björguðu manni á fyrir tíma alnetsins. Bílasýningar voru líka mikilvægar fyrir fólk eins og mig. Mynd/Unsplash.

Þess vegna ærðust sum okkar þegar stærsta bílasýningin, Avital sportbílasýningin, var haldin í Laugardalshöll. Margir fagrir bílar voru þar til sýnis og má til dæmis nefna:

Nissan 240SX „special“

Mitsubishi 3000GT

Honda Integra Type-R ´98

Ferrari F355

DeLorean

...og nú er nóg komið af þessari upptalningu sem það eitt gjörir að æra upp í manni sultinn!

Heppni ein og sér ekki nóg

Þetta sama ár fagnaði útvarpsstöðin FM 957 tíu ára afmæli og til að vekja athygli á því og sýningunni ætlaði stöðin að gefa einum sýningargesti bíl. Bíllinn var af gerðinni Nissan Almera og splunkunýr.

Því miður er það sjaldnast í raunveruleikanum eins og hjá Hábeini hinum heppna í Andrésblöðunum; að svo skemmtilega vilji til að maður sé gestur númer 10.000 og fái ýmis verðlaun. Eins og t.d. bíl. Hábeinn „lendir“ mjög oft í því, enda oftast á nýjum sportbíl. Hér var það alls ekki einskær heppni sem réði og grípum hér niður í umfjöllun Morgunblaðsins frá 9. maí 1999:

„Hinn heppni verður þó að vinna fyrir gripnum. 20 manns verða skráðir til kossakeppni. Sá sem kyssir bílinn lengst eignast hann.“

Arg! Munið þið eftir þessu? Þið sem voruð búin að gleyma… Ykkur bið ég afsökunar.

Nema hvað! Sýningin var auðvitað ekki allan sólarhringinn en „kossakeppendur“ fengu að vera á sýningarsvæðinu eins lengi og þeir gátu kysst bílinn. Fengu þeir fimm mínútna hlé á hverri klukkustund til að nærast og fara á salerni.

Ekki ætlar undirrituð að fullyrða að þetta hafi gengið svona fyrir sig nákvæmlega, þ.e. með mínúturnar fimm og formsatriðin en man ég það að á öðrum degi sýningarinnar kom ég til að skoða bílana og var múgur og margmenni í kringum Nissan Almera. Örfáar hræður voru „límdar“ við bílinn (kossakeppendur) og óþekk börn og illskeyttir unglingar reyndu allt til að trufla keppendur.

Mér varð um og ó við þessa sjón, svona rétt eins og þegar maður opnar í sakleysi dyr á snyrtingu og þar inni situr manneskja og teflir við páfann. Svo hverft varð mér við.

Að kyssa Nissan í 50 tíma

Flestir af þeim tuttugu keppendum sem hófu kossakeppnina gáfust fljótlega upp. Tvær ungar stúlkur héldu þó út óheyrilega lengi og kysstu Nissan í þrjá daga, eða um 50 klukkustundir. Þær gáfust upp á sama tíma, hvernig sem nú stóð á því!

Þar sem stúlkurnar voru jafnar í kossakeppninni var dregið um hvor hlyti bílinn í verðlaun tveimur dögum eftir að keppni og bílasýningu lauk. Lítið var fjallað um hvor vann bílinn og það verður að fá að liggja á milli hluta. Ekki hafa þær skipt honum á milli, eða hvað  veit maður?  

Óskýr mynd frá upphafi kossakeppninnar.

Andúð og öfund

Hefðu samfélagsmiðlar verið með sama sniði 1999 og þeir eru í dag, má ímynda sér að margir hefðu tjáð skoðun sína á uppátækinu. Margir brandarar orðið til og blessaðar stúlkurnar tvær mátt lesa margt leiðinlegt um kossaflensið og skoðanir ókunnugra á þeim sjálfum. Sem betur fer sluppu þær við það og sé ég enga ástæðu til að nefna stúlkurnar sérstaklega í dag, rúmum tuttugu árum síðar.

Þó birtust greinar í nokkrum blöðum, en takið eftir, að þeir sem voru illir út af kossakeppninni rökkuðu stúlkurnar tvær ekki niður. Nefndu þær ekki á nafn. Það er þó til eftirbreytni að ráðast ekki gegn persónunum. Hér eru dæmi:

„Ég hef þekkt marga menn um dagana sem hafa haft ást á bílum en enginn þeirra mér vitanlega hefur þó gengið svo langt að kyssa bíl. Hingað til hafa jafnvel mestu bílaaðdáendur látið duga að strjúka lauslega yfir gljáfægt lakk hins elskaða bíls. Nú er sem sé brotið blað, það er staðreynd að fólk er tilbúið til að kyssa bíl langtímum saman í von um að eignast umræddan grip. Með bólgnar varir og stirða liði máttu allir þátttakendur bílkossakeppninnar nema einn bíta í það súra epli að fá ekki bílinn. Frekar ömurleg lífsreynsla,“ skrifaði kona nokkur og birtist grein hennar um kossakeppnina í Morgunblaðinu.

Í Dagblaðinu var haft eftir manni nokkrum að eflaust öfunduðu margir bílinn sjálfan: „Ég vil bara óska konunni sem kyssti bílinn svona lengi til hamingju með þennan frábæra grip og ég er viss um að það eru margir sem öfunda vinningsbílinn af svona góðum og ástríkum eiganda.“

Í sömu umfjöllun var þetta haft eftir konu: „Mér líst engan veginn á svona konur eða karla. Ef fólk fær eitthvert kikk út úr því að kyssa bíla þá er það mér að meinalausu. Þetta er kannski  saklausara en margt annað. En almennt séð þá finnst mér skelfilegt að fólk láti hafa sig svona að fíflum.“

Hvað svo sem fólki fannst um tiltækið árið 1999 virðist það ekki hafa slegið svo hressilega í gegn að dæmin séu öllu fleiri.

Sett inn
6/7/2021
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.