Hvað varð um flóðabílana sem komu 1987 og 1988?

Flóðabíll er bíll sem vatn hefur flætt um eða inn í eða fyllst af vatni. Það þykir skárra ef vatnið er ferskvatn en verra ef það er sjór eða klóak. Að sjálfsögðu er best að það fari bara ekkert vatn inn í bílinn.

Dagana 15. og 16. október 1987 gekk gríðarlegt illviðri yfir Spán, Frakkland, Bretlandseyjar, Noreg og fleiri lönd. Það olli miklum usla í þessum löndum og gríðarlegu tjóni, miklum trjáfelli, samgöngur lamaðar, úrhelli, óvenju há sjávarstaða og flóð samfara því. Bretar nefndu þetta óveður „THE GREAT STORM OF 1987“.

Subaru var ein gerðin af bílunum sem kallaðir voru „flóðabílar"
Áhrifin af þessu illviðri á Íslandi var innflutningur á bílum seinna það ár og árið eftir sem urðu flóðum að bráð og voru kallaðir flóðabílar. Sá bílainnflutningur olli öðrum stormi sem fór að mestu fram í fjölmiðlum á þeim tíma.

Sennilega voru fyrstu bílarnir Mitsubishi fluttir inn af umboðinu Heklu. Þeir komu frá Drammen í Noregi. Þeir fengust með árs verksmiðjuábyrgð og afslætti þannig að þeir kostuðu 65 til 70% af verði samskonar bíla sem höfðu ekki lent í flóði. Þetta áttu að verða 362 bílar þegar allir voru komnir til landsins. Það má lesa meira um þessa bíla hér.

En það var ekki skráð athugasemd í skráningarskírteini bílanna um að þeir hefðu lent í vatnstjóni.

Næsti skammtur af flóðabílum voru 235 Subaru bifreiðar sem komu líka frá Drammen en í gegnum Holland. Gárungarnir kölluðu þá Sjóbarú við litla hrifningu innflytjandans geri ég ráð fyrir.

En þeir hlutu ekki verksmiðjuábyrgð því ólíkt áðurnefndum Mitsubishi voru þeir ekki fluttir inn með aðkomu íslenska umboðsins sem var Ingvar Helgason né framleiðandans. Það var samt gefin út árs ábyrgð á þessum bílum af innflytjendum og voru þeir seldir mun ódýrar en aðrir nýir Subaru.

Hvernig gekk að fá eitthvað út úr ábyrgðinni þegar eitthvað bilaði á ábyrgðartímanum er mér ókunnugt um. Undirritaður vann á þjónustuverkstæði fyrir Subaru og var okkur bannað að þjónusta flóðabílana.
Daihatsu Charade árgerð 1988.
Næst komu rúmlega 100 bílar sem voru Mazda 626 og Daihatsu Charade. Fluttir inn af sömu aðilum og Subaru bílarnir frá Drammen í gegnum Holland.

Hér fyrir neðan eru tenglar inn á blaðagreinar frá 1988.

Fleiri flóðabílar frá Drammen....

Norsku flóðabílarnir farnir að gefa sig.....

Engar bilanir í flóðabílum....

Talsvert af flóðabílum á markaði....

En hvað varð svo um þessa bíla? Þeir eru ekki auðrekjanlegir enda engin merking í skráningarskírteini og þá væntanlega ekki ökutækjaskrá.
Mazda 626.
Sennilega eru flestir bílar af þessum tegundum, týpum og árgerðum orðnir ónýtir í dag hvort sem þeir eru flóðabílar eða ekki. En hvað segja lesendur, áttuð þið flóðabíl og hver var ykkar reynsla?

En það má reikna með því að þeir hafi ryðgað fyrr og meira en aðrir bílar sömu tegunda. Það eru ýmis rými í yfirbyggingu bíla sem geta fyllst af vatni í flóði. Venjulega getur regnvatn runnið í gegnum þessi rými en stoppar ekki þar. Þó bíllinn sé þrifinn og þurrkaður dugar það ekki því það er ekkert aðgengi í sumum tilfellum að þessum rýmum til að skola út salt pækil sem gæti leynst þar. Að úða ryðvörn yfir ryðið sem gæti verið farið að myndast og saltið er mögulega tímasóun.

Rafkerfi sem lendir í vatninu er oftast ónýtt. Drif- og hjólalegur skemmast. En þetta kemur yfirleitt snemma í ljós.

Þessir bílar voru með frekar einföldu rafkerfi, lítið eða ekkert af tölvum. Hefði þetta gerst síðastliðinn október væru bílarnir nær gjör ónýtir því að það er svo mikið af tölvum og skynjurum í bílum í dag.

Enn verra ef bíllinn er rafbíll og fer á kaf í vatn, það verður ekki þess virði að reyna að gera við rafbíl og þú mátt ekki nota hlutina sem varahluti í aðra bíla.

Það hafa verið fluttir inn flóðabílar oft síðan þetta var. Ég hef séð alls konar vinnubrögð í kringum slíka bíla. Allt frá því að bara þrífa bílinn og svo setja hann beint í sölu. Yfir í það að skoða hve hátt vatnið hefur náð, skipt um allar tölvur sem voru í vatni, skipt um allar olíur og feiti þar sem það er hægt, allt hreinsað og þurrkað og bíllinn tékkaður í tölvu til að sjá hvort allt sé í lagi.

Þá fyrst er bíllinn seldur með ábyrgð frá seljandanum. Þó allt þetta sé gert er samt hægt að hagnast á sölunni. En er þetta nóg? Það verður hver og einn að ákveða fyrir sig hvort hann vilji kaupa flóðabíl.

[Greinin birtist fyrst í janúar 2021]
Sett inn
5/8/2022
í flokknum:
Bílasagan

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílasagan

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.