Þeir hjá Lego eru sannarlega að kynda nostalgíuklefann ærlega þessa dagana! Ekki er langt síðan Porsche 911 kom á markað í „fullorðins“línu leikfangaframleiðandans, Creator Expert, og fjallað var um hér. Fyrirmyndin var 911 frá lokum áttunda áratugar síðustu aldar.

Nú er annar eðalbíll fáanlegur úr Legohillum stóra fólksins og er sagan af tilurð hans og hönnunarferli skemmtileg. Verður hún rakin hér í stuttu máli.

Litli og stóri saman. Hönnuðurinn lagði mikið upp úr að Lego-útgáfan væri nákvæm eftirlíking af T2. Mynd:LEGO

Af hverju „hippabíll“?

Bíllinn sem um ræðir er heldur betur til þess fallinn að kalla fram minningar hjá þeim sem tilheyra hippakynslóðinni, eða blómabörnunum. Þetta er nefnilega VW „rúgbrauð“ eða Volkswagen T2 Camper Van. Bíll sem þótti ævintýralegt að fara í langferðir á. Til dæmis var vinsælt að skottast á milli tónlistarhátíða í Bandaríkjum blómelskandi hippanna á slíkum bíl; nóg pláss, hægt að sofa í bílnum og já, ást, frelsi og friður.

Jú, annað sem gerði „rúgbrauðið“ eftirsóknarvert á þessum tíma var verðið. Alþýðubíllinn (Volkswagen) var nefnilega ódýr og hafði það sitt að segja. Þeir voru víst ófáir sem mættu á slíkum bílum á Woodstock hátíðina eins og lesa má um hér og brimbrettaköppum þótti bíllinn henta vel til að ferja menn og búnað. Í greininni sem vísað er í hér að ofan segir m.a. (í lauslegri þýðingu undirritaðrar):

„Jákvæðni og bjartsýni einkennir að jafnaði hippa og brimbrettafólk. Brettafólkið horfði eftir haffletinum, vakandi fyrir ákjósanlegri öldu. Hipparnir horfðu til framtíðarinnar, því þar var friðsældina að finna. Hvorugur hópurinn var að flýta sér, sem var líka eins gott, því bíllinn [the Microbus] var ekki nema 25 til 40 hestöfl!“
Enginn að flýta sér? Það var gott því þetta er ekki farartæki fyrir fólk á hraðferð. Mynd:Unsplash

„Nújá,“ hugsaði ég skeptísk. „Eru bara einhverjir hippar í handbremsu í vinnu hjá Lego í Danmörku? Er eina færa leiðin til að komast nálægt fortíðardraumi þeirra um að eignast hippabíl sú að búa hann til úr kubbum?“ Svona hugsaði ég nú kjánalega þegar ég skoðaði nýjasta apparatið frá Lego. En ég hafði rangt fyrir mér og hefst nú loks sagan sem átti að hefjast áðan!

Draumur í dós eða draumur um dós?

Sven Franic heitir maður og hann er ekki fastur í handbremsu. Sven þessi er oft einfaldlega kallaður „Lego Sven“ þar sem hann er mikill sérfræðingur í að skapa listaverk úr Legokubbum auk þess sem hann starfar sem hönnuður hjá Lego í Danmörku.

Réttu manninum nokkra kubba og áður en þú veist af er hann búinn að byggja kasettutæki, ísbíl eða þreskivél úr þeim! Hann er alveg ótrúlegur. Sven er Króati, fæddur í Zagreb og áður en hann gekk til liðs við Lego starfaði hann sem bifvélavirki. Manninn þekki ég ekki baun en verkin hans tala sínu máli, eins og til dæmis þessi ágæti VW T2 Camper Van.

Þegar Sven var drullugur upp fyrir haus að gera við einhverjar dómsdagsdruslur á bílaverkstæðinu hér áður fyrr, var hann með hugann við einn tiltekinn bíl: VW rúgbrauð. Þó að „Lego Sven“ sé allt of ungur til að hafa náð svo mikið sem í skottið á hippatímabilinu þá dreymdi hann um að ferðast á „rúgbrauði“. Vera frjáls og fara í ævintýraferðir.

Sá draumur varð að veruleika fyrir áratug þegar Sven eignaðist ljósbláan T2 Camper Van´78. Það er gott að Sven er bifvélavirki að mennt og sennilega spilar það inn í þá staðreynd að hann á bílinn enn og ferðast fjölskyldan á þessum vagni, eins og sjá má t.d. á Instagram-síðu „Lego Svens“.

Á þeirri síðu má m.a. horfa á stórfurðulegt myndband þar sem Sven ekur á sínum T2 eftir göngum verslunarmiðstöðvar utan hefðbundins afgreiðslutíma. Já, svona eins og maður gerir þegar tækifæri gefst til!

Sven „skellir í“ rúgbrauð

Þessi mikla ást Svens á T2 varð til þess að nú geta Lego-færir sett saman slíkan bíl úr 2.207 kubbum.

Hér er allt til alls fyrir ferðalagið. Mynd: LEGO

Á síðu leikfangaframleiðandans má lesa um öll smáatriðin sem einkenna hönnun Svens. Þar segir hann eitthvað á þessa leið (jú, aftur lausleg þýðing mín): „Þegar nýr Lego bíll er hannaður búum við til sögu í kringum verkefnið. Hérna [þ.e. við hönnun T2] horfðum við til útilegu- og útihátíðamenningarinnar sem tengist bílnum. Til þess að skapa réttu stemninguna er allt í bílnum sem þarf til slíkra ferðalaga; allt frá agnarsmáum vaski til pínulítils matarborðs. Það er meira að segja hægt að opna ísskápinn og næla sér í banana,“ segir hönnuðurinn Sven Franic.

Já, gott fólk, þetta er ekki búið. Þetta er rétt að byrja! En stiklum samt á stóru. Eða nei annars; leyfum þessu myndbandi að segja það sem segja þarf um smáatriðin:
Sett inn
3/8/2021
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoð allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.