Tveggja dyra skutbíll

Tími skutbíla er síður en svo liðinn þó svo að tveggja dyra þannig bílar hafi sungið sitt síðasta fyrir áratugum.

Þeirra blómatími var á sjötta áratugnum og snemma á þeim sjöunda. Að undanskildum 55‘ til 57‘ Chevy Nomad og samsvarandi Pontiac Safari voru tveggja dyra bílarnir alltaf ódýrari en þeir fjögurra dyra.

Hannaðir fyrir barnmargar fjölskyldur með minna á milli handanna. Sumir kaupendur sáu það einnig sem kost að hafa börnin afturí og vera örugg um það að þau opnuðu nú ekki afturhurðir og féllu út.

Ekki eins vinsælir

Þó svo að fáeinir bílaframleiðendur rembdust eins og rjúpa við staur að halda áfram með tveggja dyra bíla eins og Ford Pinto og Chevy Vega náðu þeir ekki þeim vinsældum sem fjögurra dyra svipaðir bílar nutu.

Það er því engin launung að að þessi tveggja dyra 1964 árgerð af Chevy Chevelle er afar sjaldgæf sjón í dag. Hann er reyndar ansi flottur og vel uppgerður þessi glæsilegi bíll og stendur uppúr á mörgum sviðum meðal uppgerðra bíla. Og hann er til sölu núna á Ebay.

Reyndar er verðið sem óskað er eftir ekki í lægri kantinum en ásett verð er um 75 þúsund dollarar (9.500 þús. íslenskar) og á þá eftir að flytja bílinn og smyrja á hann aðflutningsgjöldin ef til Íslands kæmi.

Fyrst og fremst fjölskyldubíll

Chevelle, tveggja dyra skutbíllinn var framleiddur árin 1964 og 65‘ og var þá boðinn sem valkostur meðal fjögurra dyra systkina sinna. Bíllinn sem um er rætt er hugsaður sem 64‘ módel en með 65‘ grilli. Að öðru leyti á bílinn að vera nánast eins og hann kom úr verksmiðjunni. Hann hefur verið eilítið lækkaður og merktur Malibu með 350, V8 mótor og má segja að það séu einu marktæku frávikin.

Takið eftir svörtu stálfelgunum með litlu krómuðu koppunum og rauðu strípunni í dekkjunum.

Eflaust gaman að eiga

Að innan hefur frelsið í endurbyggingunni verið örlítið meira. Bekkurinn frammí sem er sérsniðinn er með armpúða í miðjunni og hurðaspjöldin eru sérsmíðuð. Nýtísku stýri hefur verið sett á stýrissúluna og miðstöðvartakkarnir settir neðst í mælaborðið en þó í gamaldags miðstöðvareiningu. Einnig hefur nýtísku skífum verið komið fyrir í mælagluggana og rafmagnsupphölurum frammí, afturí og í skotthlera.

Undir vélarhlífinni er 5,7 lítra V8 mótor, tjúnnaður til að gefa 335 hestöfl út í hjól sem togar um 470 Nm. Bíllinn er síðan með 12 bolta mismunadrifi með tregðulæsingu að aftan.

Þetta er þá kannski ekki alveg þessi týpíski „annar bíll“ á heimili til að skreppa í Bónus og skutla krökkunum eins og hann var hugsaður í upphafi. Hins vegar er hann nánast eins og nýr og verðugur höfðingi tveggja dyra skutbílanna sem safngripur í framtíðinni.

Byggt á grein Autblog

Sett inn
2/4/2021
í flokknum:
Fornbílar

Fleiri fréttir úr flokknum:

Fornbílar

skoð allt
Man einhver eftir Fordson?
Til höfuðs Rolls-Royce

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.