Halldór Kiljan Laxness. Mynd: Ullstein Bild.

Halldór Kiljan Laxness hafði gaman af fallegum bílum og eins og vel er þekkt átti hann afar fallegan Jaguar sem hann keypti nýjan í maí 1968.

Bíllinn er enn til og má sjá hann við Gljúfrastein, hús skáldsins, í Mosfellsdal á góðum sumardögum.

Til að gæta nákvæmni þá er umræddur bíll af gerðinni Jaguar 340 Saloon, með sex strokka línuvél, 3.4 lítra og skilar hún 210 hestöflum. Laxness átti bílinn í þrettán ár. Jóhann Gíslason tannlæknir keypti Jaguarinn af skáldinu árið 1981 og gerði hann upp og naut aðstoðar góðra vina við verkið. Nú á safnið að Gljúfrasteini bílinn.

Í bókum sínum og smásögum minntist Laxness oft á bíla og er gaman að rifja hér upp nokkur gullkorn Nóbelsskáldsins um bifreiðar, bíleigendur og skrítnar skrúfur.

Að sjálfsögðu fær stafsetning rithöfundarins að halda sér. Annað væri vanvirðing!

50 kílómetrar eknir eftir ropvatni

Í Innansveitarkroniku (útg. 1970) er að finna dásamlega lýsingu á fyrstu bifreiðunum sem komu til landsins og þótti höfundi þær ekki ýkja merkilegar. Segir í 19. kafla bókarinnar:

Bifreiðar sem þá komu voru víst einhver gargön frá upphafi, fluttar híngað útásaðar frá Kanada og stóðu fastar hér, einkum og sérílagi á þjóðbrautum. Menn geingu afturábak að ýta þessum farartækjum upp brekkur en þau ultu ofan brekkurnar jafnóðum samkvæmt þýngdarlögmálinu. Samt dáðust allir að bifreiðum og byrjuðu að trúa á þær,

Stefán Þorláksson manna mest. Hjá mörgum komu þær í staðinn fyrir Írafellsmóra og sauðskepnuna og brennivínið, hjá sumum komu þær í staðinn fyrir sjálfumleikann sem þeir höfðu mist. Þótti mikið snjallræði á sunnudögum að aka bíl úr Reykjavík alt hvað aftók austurá Þingvöll, 50 kílómetra, að kaupa sér flösku af ropvatni.

Ætli sunnudagsbíltúrarnir hafi verið svona? Fólk ýtandi gargönum upp brekkur í basli við þyngdarlögmálið! Það var greinilega þess virði að puða þessa 50 kílómetra eftir ropvatni - og svo til baka.

Laxness var húmoristi fram í fingurgóma og hafði einstakt lag á að segja söguna þannig að manni finnst maður hreinlega hafa verið á staðnum! Burtséð frá því hvort sögurnar eiga sér stoð í raunveruleikanum eður ei.

Fagurblár útblástur og fleira sem fylgir

Sagan heldur áfram af þessum fyrstu skrjóðum sem fjallað er um í Innansveitarkroniku Laxness:

Stefán lét hesta sína og aðrar eignir fyrir bíl og hafðist nú við úti á þjóðvegum um nokkurt árabil, þó skrifaður á Hrísbrú og átti þar innhlaup. Hann flutti hugað fólk úr einum stað í annan, stundum fyrir penínga. Hann gerði tilraunir með að nota steinolíu í stað bensíns og útkoman var fagurblár útblástur samfara einkennilegum skellum og skruðníngum í mótornum.

Stundum þegar bíllinn hafði staðið kjur um sinn uppá Mosfellsheiði komu forframaðir ropvetníngar aðvífandi og buðu fram hjálp sína og báru logandi eldspýtu að bensíndúnknum hjá Stefa; en með því bíllinn sprakk ekki í loft upp samstundis drógu þeir af því þá ályktun að hann væri bensínlaus.

Var nú maður sendur til bygða að reyna að kaupa bensín eða minstakosti fá lánaða steinolíu.

Einn svona ford í skemtiferð til Þingvalla, og blár reykur afturúr, gerði meiri hávaða en samanlagðar fordverksmiðjurnar í Detroit.

Oft varð bílstjórinn að láta fyrirberast á heiðinni dægrum saman meðan hann var að eiga við mótorinn. Ljóðmæli eru til á íslensku frá þessum dögum um menn sem voru orðnir rammflæktir í mótorum sínum einsog heimspekíngar í kerfum sínum (og mætti kanski bæta við nú á dögum: einsog hugmyndafræðíngar í úníversalteoríum sínum).

Það hefði verið gaman að geta sagt skáldinu frá rafbílum og baráttunni við loftslagsgrýluna. Enginn blár reykur, hávaði eða steinolía! Hvað ætli hinn mikli hugsuður hefði þá sagt?

Prúðbúinn Laxness á spjalli við prúðbúna menn. Skjáskot/Kvikmyndasafn

Eins og hver önnur veltandi dós

Í Brekkukotsannál (útg. 1957) er sagt frá Runólfi Jónssyni sem venjulega var drukkinn fjórum sinnum á ári og fékk sér þá rækilega í staupinu því í hvert skipti var hann drukkinn í nokkrar vikur í senn. Lét hann ekki sjá sig á bænum meðan á túrum stóð og kom ekki heim fyrr en runnið var af honum. Þá var útgangurinn á Runólfi slíkur að best hefði sennilega verið að skutla manninum gegnum bílaþvottastöð nokkrum sinnum.

Allsgáður var Runólfur víst ekki sérlega glöggur; mundi engin nöfn, hvorki á mönnum né bæjum og ekki vissi hann í hvaða landi hann átti heima „nema að þar var þurt,“ skrifaði Laxness. Og nú komum við að bílahluta sögunnar um Runólf:

Áður en ég lýk að segja frá verðleikum Runólfs Jónssonar má ég ekki gleyma þeim frægðarpúnkti sem er líklegastur til að halda uppi nafni hans í sögunni; en hann er sá að þessi ágæti samnáttúngur minn og fóstbróðir varð einn fyrstur manna til að gánga undir bifreið; hann var þá hátt kominn á áttræðisaldur.

Þetta kom til af því að hann hafði þann sið þegar hann var við skál, þá gekk hann einlægt útá miðri hestabrautinni, og gerði alt í senn, veifaði flösku, saung, hélt ræðu og hló; og fylgdi honum jafnan liðssafnaður tækifærisfyllirafta, slæpíngja, flækíngshunda, útigángshrossa og hjólreiðamanna; en þeir sem ég taldi síðasta voru þá nýfarnir að sjást, þeir voru danskir. Honum fanst ekki meira til um bifreiðar en hverja aðra dós sem veltur áfram eftir götunni.

Ef nú svo illa skyldi til takast að Runólfur af ætt konferensráðs sé einn góðan veðurdag gufaður upp úr bók þessari, þannig að ég gleymi sjálfur að merkja við þegar hann hverfur, þá er það vegna þess að fóstbróðir minn hefur orðið undir bíl þeim sem fyrstur kom til Íslands.

Hefði Páll postuli átt jeppa

Þó svo að margir hafi lesið helstu bækur Nóbelsskáldsins þá gæti verið að fjölmargir kannist líka við kvikmyndir byggðar á þeim. Ber þar helst að nefna Kristnihald undir jökli, en árið 1989 kom myndin út í leikstjórn Guðnýjar Halldórsdóttur (dóttur skáldsins).

Siggi Sigurjóns, Helgi Skúlason, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Kristbjörg Kjeld og fleiri frábærir leikarar gerðu myndina ógleymanlega og fyrir vikið tengdu fleiri við bókina Kristnihald undir jökli (útg. 1968).

Hér stingum við okkur niður í áttunda kafla bókarinnar, sem einmitt er sú fyrsta sem ég las eftir Laxness. Ég var bara krakkaormur þegar ég las hana. Kannski níu ára. Ástæðan var sú að föðuramma mín hafði sagt mér að sögusvið bókarinnar væri Snæfellsnesið og ég var hugfangin af „nesinu“. Þannig byrjaði það nú!

Án þess að fara djúpt ofan í söguþráð, frekar en í fyrri dæmum, þá býður sveitamaður umboðsmanni biskups (Umba) far þar sem Umbi er á gangi í sveitinni. Sveitamaðurinn er á jeppa og samtal þeirra Umba hefst þar sem sveitamaður spyr hvort ekki sé „ósköp leiðinlegt að rölta sisvona fótgangandi eftir þjóðveginum“:

Ég neita því. Þegar byrjað er að ljúga er vandi að fara að segja satt á eftir. Hefði ég sagst vera gerður út af kirkjumálaráðuneytinu eða biskupsembættinu mundi ég hafa talist viðsjálsgripur. Sveitamenn skilja ekki að sendimenn kristindómsins skuli ekki aka bílum, enda ólíklegt að Páll postuli hefði verið hýddur í Þessaloniku ef hann hefði átt jeppa starthæfan.

Óvenjuleg nálgun en vissulega skemmtileg tilhugsun að vippa öllum þessum postulum bara upp í jeppa! Þá hefði nú gengið töluvert hraðar fyrir sig að boða fagnaðarerindið.

Hvernig tala skal við bílstjóra átján hjóla trukks

Hvort sem þið, lesendur góðir kannist við sögurnar og bækurnar eður ei, þá breytir það því ekki að Laxness sagði frá bílum á skemmtilegan og hnyttinn hátt!

Hér að lokum er stutt samtal úr bókinni Kristnihald undir jökli og er það tekið úr 19. kafla þeirrar góðu bókar:

Gestur: Vogar þú þér að þéra íslenskan alþýðumann og verkamann? Ég ræð yfir framleiðslutæki sem er tólf tonn og átján hjól og slítur vegum ávið 35 þúsund bíla. Hvar er þinn bíll?

Umbi: Ég hef aldrei eignast bíl. Og þetta er í fyrsta sinn að ég tala við mann sem ekur tólftonnabíl. Það hefur axlast svo til að ég var sendur uppí sveit lítilla erinda af kirkjuyfirvöldunum. Hitt er augljóst mál að það munar miklu hvað þér með þessi tólf tonn standið nær almættiskraftinum en ég.

Gestur: Ég er með ekta danskt kúmenbrennivín volgt og gott í rassvasanum. Komum setjustum á leiði! Erum við annars ekki skyldir?

Er þetta ekki ágætt svona á sunnudagskvöldi? Að líta aðeins af jarðskjálftamælunum (þau okkar sem ekki vinna við það) og tengja Nóbelsskáld og bílasögur. Eflaust margt vitlausara en það.

Góðar stundir!

Hafðir þú gaman af þessari grein? Þá gætir þú haft áhuga á:

Þegar Ölfusárbrúin brast

1965: Svíinn, glymskrattinn og Landrover-inn

Sannleikurinn um Bjössa á mjólkurbílnum

„Gullfaxi með nýstárlegan farm“

Sett inn
9/1/2022
í flokknum:
Bílasagan

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílasagan

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.