Það er útlit fyrir að um þrjár milljónir manna séu ekki á þeirri skoðun að Tesla Cybertruck sé ógeðslega ljótt ökutæki. Í það minnsta er því haldið fram að búið sé að panta yfir þrjár milljónir af þessum sérstaka pallbíl sem á að fara í fjöldaframleiðslu árið 2023.

Ef rétt reynist þá hafa rúmlega þrjár milljónir Cybertruck-pantana verið staðfestar en áætlun Tesla gerir ráð fyrir framleiðslu 500.000 bíla á ári. Biðtíminn yrði því býsna langur miðað við ætlaða framleiðslugetu.

Fréttir um þetta birtust seinnipartinn í gær á vefnum Torque News. Greinarhöfundur, Armen Hareyan, hefur eftir manni nokkrum í Chicago, Bran Gillespie að pantanir á Cybertruck séu nú yfir þrjár milljónir talsins.

Er það virkilega svo?

Nú þegar asnalegt er að tala um grímur þá gerðist það nú samt við lestur fréttarinnar að á mig fóru að renna tvær grímur. Hvernig ætti að vera hægt að fá slíkar upplýsingar?

Jú, segir greinarhöfundurinn Hareyan, að Gillespie hafi sent honum staðfestingarnúmer á eigin pöntun og samkvæmt síðu Cybertrukkafólks, Cybertrucks Ownersclub (gaman að til sé eigendafélag fólks sem á eitthvað sem ekki er til), að byrjunarnúmer pantana sé 112744100. Út frá því númeri megi reikna hvar í röðinni hver og einn sé. Nánar um þær reikningshundakúnstir má lesa með því að smella á hlekkinn fyrir ofan.

Skjáskot/YouTube

Þetta er auðvitað ekki staðfest með nokkrum hætti og þó svo að fjallað sé um málið getur vel verið að þetta sé bara bölvuð vitleysa. En hér má skoða þráð á Twitter þar sem þetta er rætt fram og til baka.

Ef raunin er sú að pantanir séu yfir þrjár milljónir talsins og fólk sjái fram á að fá sinn Cybertruck árið 2028 eða 2029 þá er nú ekkert undarlegt að það geri eitt og annað Cyber-legt á meðan beðið er. Um það var fjallað hér og er um að gera að líta á greinina ef þú, lesandi góður ert í þessari sérkennilegu biðstöðu.

Þarna eru í það minnsta nokkrar misgóðar hugmyndir.

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Sett inn
23/11/2021
í flokknum:
Bílaframleiðsla

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaframleiðsla

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.