Bílarnir í lífi Bandaríkjaforseta

Núna þegar heimurinn er laus við Donald Trump og sæmilega viti borinn maður er kominn í hans stað í Hvíta húsið er vert að skoða bílamál hins 78 ára gamla Joe Biden, en hann er sonur bílasala og hefur því jafn mikið vit á bílum og fyrirrennari hans hafði lítið vit á þeim.

Biden tók bílpróf árið 1958 og fyrsti bíllinn sem hann eignaðist var ´51 árgerðin af Studebaker, en þeir bílar voru teiknaðir af hinum þekkta hönnuði Raymond Loewy sem gerði garðinn frægan vestra um miðja síðustu öld.

Eitt af einkennum Studebaker-bíla á þessum árum var langt og áberandi skott, en þegar þeir birtust árið 1947 voru þeir öðruvísi en flestir aðrir bílar á götunni, sem yfirleitt voru snubbóttir að aftan og vissi fólk því ekki hvað snéri fram og aftur á hinum nýju bílum.

Joe var ekki lengi á Studebakernum því hann skipti honum fljótlega upp í sportlegan epla-rauðan ´51 Plymouth Cranbrook-blæjubíl. Það var mun skemmtilegra að „deita“ stúlkur á þeim bíl og með honum hófst ævilöng ást Bidens á blæjubílum, sem enn sér ekki fyrir endann á.

Evrópumenn eru þekktir fyrir sportlega blæjubíla og ungi maðurinn í Delaware varð sér úti um nokkra ára gamlan Mercedes Benz 190 SL til að sannreyna ágæti þeirra bíla. Þó að vélaraflið væri ekki nema 104 hestöfl voru þetta léttir og liprir bílar sem komust vel áfram úr sporunum.

Þegar Joe kvæntist unnustu sinni Neilia Hunter árið 1967 fengu hjónakornin spánýjan Chevrolet Corvette-blæjubíl í brúðkaupsgjöf frá Joe eldri. Undir húddinu er 327 kúbika (5,4 lítra) V8-vél sem afkastar 300 hestöflum. Þennan bíl á Biden ennþá, en tækifærin til að keyra hann eru reyndar fá, þar sem forseti Bandaríkjanna má ekki setjast undir stýri.

Sömu sögu var reyndar að segja um varaforsetann Joe Biden á árunum 2008 til 2016, en þá mátti hann heldur ekki keyra bíl á almannafæri.

Fornbílamanninum Jay Leno tókst þó að lokka hann undir stýri á gömlu  Corvettunni á æfingasvæði bandarísku leyniþjónustannar árið 2016 og er gaman að sjá Joe rifja upp gamla takta á þessum öfluga sportbíl:  

Sett inn
3/3/2021
í flokknum:
Fornbílar

Fleiri fréttir úr flokknum:

Fornbílar

skoð allt
Engin saumavél í þessum
Man einhver eftir Fordson?
Til höfuðs Rolls-Royce

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.