Smábíllinn verður smíðaður á Yaris-grunninum í Tékklandi

Toyota hefur staðfest að nýjasti smábíllinn þeirra verði „crossover“ sem kallast Aygo X. Bíllinn verður á öðrum grunni en núverandi Aygo.

Aygo X („X“ er borið fram sem „kross“, segir Toyota Europe) verður smíðaður í verksmiðju Toyota í Kolin í Tékklandi. Verksmiðjan var áður samstarfsverkefni Toyota og PSA Group og byggði nú síðast Aygo, Citroen C1 og Peugeot 108 smábíla.

Toyota tók við stjórn verksmiðjunnar 1. janúar á þessu ári og endurskipulagði hana til að smíða Yaris og nú Aygo X á GA-B grunninum. Hætt verður með afbrigði bíla frá PSA.
Gert er ráð fyrir að Toyota Aygo X Prologue hugmyndin, hér að ofan, sé svipuð framleiðsluútgáfunni, sem mun kallast Aygo X. Aygo X-bíllinn var sýndur sem hugmyndabíllinn Aygo X Prologue í mars, en opinbert nafn bílsins var ekki gefið upp þá.

Hugmyndabíllinn er 3700 mm að lengd, aðeins 5 mm lengri en núverandi Aygo, en hann er með meiri veghæð og jeppahönnunareinkenni eins og undirvagnshlífar, þakboga og svarta brettaboga. Toyota lýsti crossover-bílnum sem „einstökum“ fyrir flokk smábíla.

Nýi bíllinn var hannaður í ED2 vinnustofunni í Sophia Antipolis, nálægt Nice í Frakklandi. Toyota sagði að Aygo X væri „fyrsta gerðarbreytingin sem alfarið hefði verið þróuð, hönnuð og framleidd í Evrópu í þróunarmiðstöð Toyota Motor Europe.“

Formlega sýndur í nóvember

Í fréttatilkynningu í dag, þriðjudag, veitti Toyota ekki upplýsingar um aflrás Aygo X eða hvenær framleiðsla hæfist, þó framleiðsluútgáfan verði sýnd í byrjun nóvember.

Áður sagði bílaframleiðandinn að einnig yrði til útgáfa með hefðbundinni brunavél til að halda bílnum á viðráðanlegu verði í verðnæmum smábílaflokki.

Blendingsútgáfa er einnig möguleg, þar sem Aygo er á sama grunni og Yaris og Yaris Cross, sem báðir fást í blendingsútgáfu.

Fjölbreyttara úrval crossover/sportjeppa

Með tilkomu Aygo X og Yaris Cross hefur Toyota á einu ári tvöfaldað framboðið af crossover/sportjeppum í Evrópu. Þetta eru, auk Aygo X og Yaris Cross, CH-R „crossover coupe“ og RAV4 sportjeppinn. Auk þeirra er Land-Cruiser sem byggður er á grind.

Matthew Harrison, forstjóri Toyota Motor Europe, sagði í nýlegu viðtali við Automotive News Europe að Aygo X og Yaris Cross, sem nýjar gerðir, væru lykillinn að vaxtaráætlunum Toyota.

Bílaframleiðandinn endurskoðaði sölumarkmið ársins 2021 á Evrópusvæðinu (sem felur í sér Rússland, Tyrkland, Ísrael og Evrasíu) úr 1,1 milljón í  1,2 milljónir  og fyrir árið 2025 er nú gert ráð fyrir 1,5 milljóna sölu en var 1,4 milljónir.

Söluaukningin mun að mestu koma frá Yaris Cross, en Toyota vonast til að Aygo X, með „crossover-útliti“ og nú færri keppinauta í flokknum, muni einnig ná sölu jafnt sem markaðshlutdeild.

Smábílahlutinn hefur dregist saman undanfarin ár og Citroen og Peugeot hafa farið út af markaðnum. Hann hefur einkennst af Fiat Panda og Fiat 500, sem voru í fyrsta og öðru sæti í flokknum árið 2020 með 144.348 og 137.265 selda bíla, samkvæmt tölum frá JATO Dynamics.

Aygo var í þriðja sæti með 83.277 selda bíla. Í kjölfarið komu Renault Twingo, Volkswagen Up, Hyundai i10 og Kia Picanto.

Mögulegur keppinautur Aygo X er Suzuki Ignis, sem hefur sterka markaðsstöðu og fæst með fjórhjóladrifi.

(Automotive News Europe)

Sett inn
5/10/2021
í flokknum:
Bílaframleiðsla

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaframleiðsla

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.