Af hverju er Toyota Corolla mest seldi bíll í heimi?

Samtals er smíðaður á ári hverju álitlegur fjöldi bíla í heiminum. Stóru „risarnir" bandarísku hafa þegar skilað frá sér miklum fjölda bíla í áranna rás, en það má segja að japanski bílaframleiðandinn Toyota hafi komist í hóp þeirra „stóru" þegar Toyotamenn náðu þeim áfanga 1988 að hafa samtals framleitt meira en sextíu milljón bíla. Þar með urðu þeir fjórðu bílaframleiðendurnir í heiminum, á eftir General Motors, Ford og Chrysler, að ná þessari tölu, en síðan er mikið vatn runnið til sjávar, en meira um það síðar.

Fyrsta kynslóð Corolla.
Það var hinn 14. september 1988 sem Toyota náði þessum áfanga, nákvæmlega 53 árum og 4 mánuðum eftir að fyrsta frumgerð Toyota, A1-bíllinn, sá dagsins ljós í vefnaðarverksmiðju Toyoda,

Tólf kynslóðir Corolla

Nú hafa alls tólf kynslóðir litið dagsins ljós af Toyota Corolla og lítið hefur dregið úr vinsældum bílsins fram til dagsins í dag.

Jú, þá hét fyrirtækið Toyoda, eftir eigandanum. Því kynnu margir að spyrja hví bílar fyrirtækisins heita í dag Toyota með t í stað d. Á bak við það er skýring sem á sér stoð í japönsku máli.
Toyota Corolla árgerð 2020.

Toyoda er líkt og Honda og Mazda gamalt og gott bændaheiti á japönsku. Í raun eru þetta heiti á rísökrum og þýða „gjöfuli", „sá í miðju" og „sá ysti".

Á japönsku er Toyoda skrifað með nokkrum japönskum myndleturs-táknum en einungis eru notuð átta tákn þegar nafnið Toyota er ritað.

Átta er heilög tala í Japan, því átta er ritað með tákni sem er eins í laginu og hið heilaga 3.776 metra fjall Fujiyama, sem er á aðaleyjunni, Honshu. Því var valið að breyta nafninu í Toyota því það er af því góða, einkum í viðskiptum, að hafa þá heilögu og heppnu með sér.

Mest seldi bíll í heimi

Það var hins vegar árið 1974 sem Corolla náði að verða mest seldi bíll í heimi. Árið 1997 hafði Toyota Corolla selst í fleiri eintökum en VW Bjalla.

Af hverju er þessi japanski millistærðarbíll svona vinsæll. Jú, hann er áreiðanlegur, hefur lága bilanatíðni, hefur verið á markaðnum undir sama nafni í rúm 50 ár, eyðir litlu, einörð og ákveðin markaðssetning á vörumerkinu Toyota og Corolla, hann fylgir taktinum í þróun bíla, hann fæst nánast hvar sem er á jörðinni.

Undirritaður hefur svo sem aðeins lagt til þessara sölutalna eftir að hafa haft yfir að ráða alls 6 Corolla bílum í gegnum tíðina. Mér hefur líkað Corolla vel og stór partur þess að ég hef oft valið Toyota er þjónustan, hvernig hún er sett fram og upplifunin – ekki síður en bílarnir sjálfir.

Ég er þó ekki að lasta þjónustu annarra íslenskra bílaumboða sem að jafnaði veita úrvalsþjónustu.

Corolla í tölum:

Frá upphafi hafa selst 44.1 milljónir Toyota Corolla bíla.

Ef öllum seldum bílum yrði raðað upp í einfalda röð myndi sú röð ná 5 sinnum í kringum jörðina.

20% af öllum seldum Toyota bílum er Corolla.

Það selst ein Corolla á 15 sekúndna fresti í heiminum.

Toyota Corolla er framleidd í 16 verksmiðjum í 13 löndum.

Toyota Corolla er seld í yfir 150 löndum.

Heimild: Toyota

Vefstóllinn sem lagði grunninn að stórveldi

Það hefur verið heppni en ekki síður dugnaður sem hefur skilað Toyota upp í það að verða meðal þeirra „stóru“ i bílaheiminum.

Þetta byrjaði allt með því að Sakichi Toyoda fann upp sjálfvirkan vefstól árið 1926 og seldi síðan einkaleyfið til breska fyrirtækisins Platt Brothers fyrir á þeim tíma háa fjárhæð eða 100.000 sterlingspund.
Nýjar Corollur renna volgar af færibandinu.

Sonurinn, Kiichiro Toyoda, sem var stjórnarformaður Toyota til 1952, notaði mest af þessum peningum til þess að setja á stofn sjálfvirka vefnaðarverksmiðju árið 1933 og árið eftir hóf hann þróun nýrrar 3,4 lítra bílvélar.

Þessi bílvél kom ári seinna í frumgerðinni af A1 og strax árið 1937 var hafist handa um raunverulega bílasmíði. Í fyrstu var aðaláherslan lögð á smíði vörubíla sem fóru til hersins því á þessum tíma átti Japan í stríði við Kína og undirbúningurinn fyrir átökin, sem síðar urðu að heimsstyrjöldinni síðari, var kominn í gang.

Smíða bíla um allan heim

Í dag er Toyota Corolla er framleidd í 16 verksmiðjum í 13 löndum. Það var fyrst eftir stríðið, og raunar ekki fyrr en 1953, sem bílaframleiðsla komst í fullan gang. Það var svo ekki fyrr en allra síðustu árin sem verulegur skriður komst á framleiðsluna. Síðustu tíu milljónirnar af þessum 60 milljónum voru smíðaðir á síðustu tveimur árunum áður en 60 milljóna markinu var náð.

Af þessum sextíu milljónum bíla voru 69 af hundraði fólksbílar, vöru- og sendibílar eru 31%. Meira en helmingur, alls 56 prósent, fór þá á heimamarkað í Japan, afgangurinn til útflutnings.
2020 árgerð af Corolla skutbíl.

Toyota-framleiðendur smíða einnig mikið af bílum utan Japans. Þeir eiga verksmiðjur víða um lönd, svo sem á Indlandi, í Indónesíu, á Taiwan, í Thailandi, Ástralíu, Kanada, Bandaríkjunum, Perú, Brasilíu og Portúgal. í síðasttalda landinu áttu þeir verksmiðju rétt fyrir utan Lissabon og þar voru settir saman bílar eins og Corolla, LandCruiser, Hiace, Dyna og Hilux. 26 milljónir allra Corolla eru framleiddir í Japan  og restin, 18 milljónir í öðrum löndum.

Samvinna við aðra bílaframleiðendur

Toyota hefur átt í náinni samvinnu við aðra bílaframleiðendur. í Bandaríkjunum hafa þeir átt í samvinnu við General Motors og í Vestur-Þýskalandi við Volkswagen, en byggðu þeir sameiginlega nýja verksmiðju í Hannover þar sem smíðaðir voru litlir pallbílar. Nánast allt til þeirrar smíði kom frá Japan. Síðar var framleiðslunni breytt í þá veru að Volkswagen smíðaði hluti i yfirbyggingarnar en Toyota grindur og drifrás.

Því var haldið fram á sínum tíma í Þýskalandi að með þessu hafi í raun verið að leggja grunninn að nýrri línu af VW Transporter.

Það er á svipaðan hátt sem Toyota á í samvinnu í löndum eins og Bangladesh, Kenýa, Zambíu, Suður-Afríku, Zimbabwe, Maláysiu, Trinidad, Venesúela, Equador, Uruguay og Nýja-Sjálandi.

Frumgerðin fannst hvergi

Á árinu 1987 héldu þeir hjá Toyota upp á fimmtíu ára afmæli fyrsta bílsins, A1, sem raunar var tilbúinn tveimur árum fyrr. Það kom bara upp eitt vandamál, það fannst hvergi nokkurs staðar eitt eintak af þessum fyrsta bíl sem frá verksmiðjunni kom.

Toyota A1.
Leitað var með logandi ljósi um allan heim eftir slíkum bíl en allt kom fyrir ekki. Hvergi virtist vera til eitt einasta eintak. Það næsta sem menn komust þessum bíl var teikning sem notuð var sem veggfóður einhvers staðar í Kína.

Það var þessi eina teikning sem lagði grunninn að endurbyggingu A1. Sett var upp sérstök deild í verksmiðjunni til smíði þessa eina bíls og nam kostnaðurinn um 50 milljónum dollara. Þetta er ótrúleg upphæð, sérstaklega ef haft er í huga að aðeins var smíðaður einn bíll sem í dag stendur á Toyota-safninu í Tokýó!

Nafngift bíla er stundum dálítið langsótt

Eftir því sem fram kom í danska blaðinu Politiken fyrir mörgum árum var sendinefnd frá Toyota á ferð í Danmörku. Áttu hún þá leið fram hjá rúmdýnuverksmiðju í Hörning sem hét Karina. Skemmtilegt nafn, fannst Japönunum. Þar með er sagt að nafnið á Toyota Carina hafi fæðst.

Á sumum markaðssvæðum fá sömu bílgerðir mismunandi nafngiftir. Til dæmis hét Corolla hatchback Auris í nokkur ár. Við fyrirgefum Toyotamönnum það úr því að rétta nafnið er komið aftur á bílinn.

Tengslin við Danmörku eiga sér einnig langa sögu því Danir urðu fyrstir Evrópuþjóða til að flytja inn Toyota árið 1963. Fyrsti umboðsmaður Toyota á Íslandi, Páll Samúelsson, byrjaði einmitt að flytja inn bíla til Íslands í gegn um danska umboðið á sínum tíma og var fyrsti Toyotabíllinn skráður hér á landi 10. júní 1965. Sá bíll komst síðar aftur í eigu umboðsins. Í dag er það Toyota á Íslandi sem selur allar gerðir Toyota og Lexus í höfuðstöðvum sínum í Kauptúni.

Japaninn Shougo Asada hefur keyrt Corollu sína sem er af fyrstu kynslóð meira en 560 þúsund kílómetra samfleytt í 47 ár. Hann keypti bílinn þegar hann var 24 ára gamall.

Corolla eftir kynslóðum

Fyrsta kynslóð.
Önnur kynslóð.
Þriðja kynslóð.
Fjórða kynslóð.
Fimmta kynslóð.
Sjötta kynslóð.
Sjöunda kynslóð.
Áttunda kynslóð.
Níunda kynslóð.
Tíunda kynslóð.
Ellefta kynslóð.
Tólfta og nýjasta kynslóð Toyota Corolla.

„Íslenskar“ Corollur.

Þegar hugmyndin af þessari grein vaknaði datt okkur í hug að óska eftir myndum af Corollom á Íslandi. Stefán Jóhann Hreiðarsson sendi okkur þessar skemmtilegu myndir af „íslenskum“ Corollum.

Toyota Corolla SI 1993 árg.
Toyota Corolla GL 1992 árg.
Toyota Corolla XLI 1600 1993 árg.
Toyota Corolla 1983 árg.
Toyota Corolla Gti 1988 árg.
Toyota Corolla Gt 1986 árg.
Sjöundu kynslóðar Toyota Corolla á Samgöngusafninu að Stóragerði í Skagafirði.
Sjöundu kynslóðar Corolla af Si gerð - kom fyrst 1993. Samgönusafninu að Stóragerði.

Reynsluakstur Bílabloggs á nýjum Corolla

Reynsluakstur á Toyota Corolla árgerð 2020 – 122 hestafla hybrid.

Reynsluakstur á Toyota Corolla árgerð 2020 – 180 hestafla hybrid.

Jóhannes Reykdal lagði til efni og ráðgjöf við gerð þessarar greinar.

Sett inn
22/11/2021
í flokknum:
Bílaheimurinn

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílaheimurinn

skoða allt
Furðulegt heimsmet Han Yue
Bilað? Ekki fara til Krumma!
Bandarískt veggjakrot

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.