Fyrir sléttum 119 árum settist maður að nafni Tom Fetch upp í 12 hestafla ökutæki og ók af stað frá San Francisco. Hann ætlaði til New York og þangað fór hann. En ökuferðin tók reyndar 61 dag!

Hann fór þó ekki einsamall því ritstjóri The Automobile, Marius C. Krarup, var með honum í för. Ökutækið var Packard Model F, eða Old Pacific, eins og Tom nefndi það.

Þarf kort ef engir eru vegirnir?

Það er dálítið furðuleg tilhugsun að þeir hafi lagt af stað í þessa langferð án þess að hafa vegakort. En auðvitað var það ekki til því grundvallarforsenda fyrir vegakorti eru sannarlega vegir.

Það voru engir almennilegir vegir vestan Chicago, engar brýr (nema þær sem gerðar voru fyrir járnbrautarsporið), engin skilti og eiginlega ekki nokkuð það sem maður tengir við akstur og ökuferðir landshluta á milli.

En jú, eitt var nefnt hér á undan og það var járnbrautarsporið. Þeir höfðu það til viðmiðunar og þeirra „leiðarvísir“ var Union Pacific kortið.

32 kílómetra hámarkshraði

Ekki fóru þeir félagar sérlega hratt yfir en hámarkshraði Old Pacific var 20 mílur eða um 32 kílómetra hraði. Við bestu aðstæður. Tom áttaði sig á því snemma í leiðangrinum að halda sig fjarri bestu vegunum, eða „aðalgötunum“ því ef vegirnir litu of vel út enduðu þeir iðulega á hlaðinu framan við eitthvert stórbýlið.

Það var ekki hægt að spyrja til „vegar“ á leiðinni því fólk hafði fæst farið lengra en dagleið að heiman.

Miklir útreikningar sem gerðir voru löngu fyrir ferðina, tryggðu að þeir urðu ekki bensínlausir. Búið var að senda eldsneyti með lest á hina ýmsu staði.  

Fólk umkringdi þann hestlausa

Þetta ökutæki var fyrsti hestlausi vagninn sem fólk á ýmsum stöðum leit augum. Í Carson City (Nevada) komu svo gott sem allir bæjarbúar og umkringdu Old Pacific. Það var sérstakt, því rétt áður en þeir félagar komu, var framið morð og sjálfur lögreglustjórinn rauk af morðvettvangi til að skoða þetta merka tæki sem kom þarna rúllandi.

Við komuna til New York var þeim Tom og Marius fagnað eins og sönnum brautryðjendum. Eftir þetta tveggja mánaða ferðalag var þeim sýndur sá sómi að 200 ökutækjum var ekið á undan þeim að Astor hótelinu.

Ökumenn biðu komu þeirra félaga í nágrenni munaðarleysingjahælis. Margir þeirra leyfðu munaðarlausu börnunum að setjast upp í ökutækin og fengu mörg þeirra að fara með í stuttan bíltúr. Þetta var upphaf þess sem síðar varð árlegur viðburður, þ.e. ökuferðir með munaðarlaus börn.    

Guði sé lof

Þegar örþreyttir karlarnir voru komnir á hótelið var Tom beðinn að segja nokkur orð við mannfjöldann sem safnast hafði þar saman.

„Guði sé lof að þetta er afstaðið,“ sagði Tom Fetch.

Fleira hafði hann ekki að segja á þessum tímapunkti!

Að leiðangri loknum 1903.
Bíllinn til sýnis árið 1924. Við bílinn stendur sjálfur Tom Fetch.

Þessu tengt úr sarpi sögunnar: 

126 ár frá útgáfu fyrsta bílablaðsins

Á blússandi ferð á rafbíl 1899

Örlög gömlu Packard verksmiðjunnar

Stiklað á stóru eftir færibandi Ford

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Sett inn
20/6/2022
í flokknum:
Bílasagan

Fleiri fréttir úr flokknum:

Bílasagan

skoða allt

Skráðu þig á póstlistann okkar
Fáðu nýjustu greinarnar í pósthólfið þitt

Thank you! Your submission has been received!
Oops! Something went wrong while submitting the form.