Ford Ranger PHEV, örlítið fordómafull byrjun

Tegund: Ford Ranger PHEV

Árgerð: 2025

Orkugjafi: Bensín-rafmagn

Afl, pallur, hagnýtur, virkar eins og jeppi
Stillanleiki á öryggisbeltum
166
DEILINGAR
1.5k
SMELLIR

Fyrstu kynni

Þegar mér bárust boð frá Bílabloggi um að reynsluaka nýjum Ford Ranger var ég, satt best að segja, frekar áhugalaus.

Pallbíll sem fyrsta verkefni? Mínir eigin fordómar voru fljótir að láta á sér kræla.

Mín fyrsta minning af pallbíl er úr lélegum þriggja manna sætisbekk í Chevrolet C/K (1970+ módel) vinnubíl föður míns.

Mér fannst það svalt tæki í fyrstu, en eftir langa ferð á misjöfnum íslenskum vegum var ég búinn að missa áhugann: þetta var hastur (pallurinn tómur) og hrár vinnuþjarkur, hannaður án nokkurrar hugsunar fyrir þægindum ökumanns eða farþega.

Enda sjálfsagt ekki tilefni til, þetta var jú pallbíll hugsaður til að „flytja eitthvað og/eða draga frá A til B“.

Ímyndin batnaði ekki við áhorf á bandarískar bíómyndir þar sem staðalímyndin var þeir sem óku um á pallbílum voru oft „kántrísyngjandi sveitalubbar með riflarekka í afturglugganum“.

Jafnvel kynni mín af stórum trukkum á borð við Ford F-250 höfðu ekki heillað. Ég skildi notagildið sem vinnutæki, en sem fjölskyldubíll? Aldrei.

Ég hafði því litlar væntingar (og frekar mikla fordóma) þegar ég settist upp í nýjan Ford Ranger PHEV.

En viti menn. Stundum þarf maður að taka Ragnar Reykás á þetta og éta hattinn sinn. Þessi bíll kom mér skemmtilega á óvart.

Nútímalegur vinnuþjarkur

Ný kynslóð Ford Ranger, sem byggir á sama T6.2 undirvagni og Ford Bronco og Volkswagen Amarok, fékk verulega andlitslyftingu fyrir nokkrum árum.

Satt best að segja hefur mér fundist þessir bílar ansi „töff“ síðan þá og þessi nýja Plug-in Hybrid (PHEV) útgáfa er engin undantekning.

Að utan er hann nánast eineggja tvíburi dísilbróður síns sem þegar hefur sést á íslenskum vegum. Sömu kraftalegu línurnar, háa vélarhlífin og nýtískulegu C-laga framljósin.

Eini raunverulegi munurinn sem sést utan á er að nú eru tvö „bensínlok“ á hliðinni – annað fyrir bensín og hitt fyrir rafmagn.

Reynsluakstursbíllinn var í litnum „Cyber Orange“ sem er skemmtilega líflegur og gefur bílnum nánast glettilegt yfirbragð sem sker sig úr fjöldanum.

Þegar sest er inn í bíllinn heldur jákvæða upplifunin áfram. Innra rýmið er snyrtilegt og skynsamlega uppsett (ku vera nánast eins í dísel).

Í heimi þar sem flestir framleiðendur fela alla virkni í snertiskjám er kærkomið að sjá að Ford hefur ákveðið að vera með  hefðbundna takka fyrir lykilaðgerðir eins og stjórnun miðstöðvarinnar.

Allt er innan seilingar og stelur ekki athyglinni frá akstrinum. Sætin eru þægileg og veita góðan stuðning.

Jeppi í dulargervi pallbíls

Hér er komið að kjarna málsins – ástæðunni fyrir því að hattinn þurfti að éta. Frá fyrstu metrunum var ljóst að allir mínir fordómar um „hasta og háværa dráttarklára“ voru úreltir.

Aksturinn er einfaldlega miklu líkari því að keyra nútímalegum jeppa eða jeppling en „hefðbundum pallbíl“.

Tvinnaflrásin, sem samanstendur af 2.3 lítra EcoBoost bensínvél og rafmótor, skilar samtals yfir 690 Nm í togi – sem er meira en í dísilútfærslunni – og um 280 hestöflum.

Þetta er gott afl og sýnist mér meira en aðrir framleiðendur pallbíla af þessari stærð bjóða upp á hér á landi. Að draga 2 tonn á þessum bíl reyndist leikur einn og í raun var maður eiginlega ekki var við að bíllinn væri að draga þessa þyngd.

Innanbæjar rann bíllinn hljóðlaust áfram á rafmagninu einu saman, enda uppgefin drægni allt að 43 km (WLTP). Miðað við íslenskar aðstæður er raunhæft að áætla að hún sé nær 30-35 km, sem dugar samt fyrir flestar daglegar snattferðir á Höfuðborgarsvæðinu.

Þá kom það skemmtilega á óvart var hversu lipurlega skiptingin yfir á bensínvélina var. Ég hef ekið nokkrum PHEV-tvinnbílum áður og þessi er með þeim hljóðlátari.

Og þegar bensínmótorinn fer í gang er það ekki með miklum hávaða né er gangurinn grófur. Það skortir aldrei afl, hvort sem er gefið er snögglega í eða þegar ekið er upp brattar malarbrekkur.

Þar hafði bíllinn, í fjórhjóladrifi og með réttum akstursstillingum, ekkert fyrir hlutunum.

Á malbiki sem og á möl þá lá Ranger-inn einstaklega vel og var stöðugur. Þó svo að hann væri tómur (enginn farmur) þá fjaðraði hann eins og góður jeppi.

Þyngd rafhlöðunnar, sem er komið fyrir í undirvagninum, virðist gefa bílnum betra jafnvægi og bætta fjöðrun.

Samferðamaður minn í þessari ferð, sem átt hefur nokkra Ranger bíla, tók undir þetta og sagði fjöðrunina í þessum vera í allt öðrum gæðaflokki. Stýrið var þétt og nákvæmt og þótt ekki hafi reynt á beygjuradíusinn í þessari ferð, er hann sagður með þeim betri.

Einn stór bónus var Pro Trailer Backup Assist kerfið. Að bakka með kerru hefur hingað til verið martröð fyrir marga, en með þessari tækni Ford er það orðið leikur einn.

Kerfið gerir þér kleift að stýra bílnum og kerru á sama tíma með því einfaldlega að nota snúningshnapp á miðjustokknum. Í stað þess að snúa stýrinu í öfuga átt við þá stefnu sem kerran á að fara, snýrð þú hnappinum í þá átt sem þú vilt að kerran fari.

Þetta var næstum skuggalega einfalt og gerði það að verkum að auðvelt var að bakka 2 tonna hlassi upp á malarvegi. Held að ég geti fullyrt að ég hafi aldrei bakkað eins vel og auðveldlega og á þessum bíl.

Í stuttu máli var aksturinn það sem umbreytti minni skoðun. Ford hefur tekist að búa til pallbíl sem fórnar engu af notagildinu en býður upp á þægindi og aksturseiginleika sem eiga frekar heima í dýrari jeppum.

Hagnýt atriði og tækni

Þegar kemur að hagnýtu hliðunum stendur Ford Ranger PHEV vel. Það fer vel um ökumann og farþega í bílnum, enda hefur Ford lagt mikið upp úr því að nýta rýmið vel.

Farþegarými er bæði notalegt og rúmgott og fullorðnir geta setið í aftursætunum án þess að líða eins og þeim sé „troðið þar inn“.

Eftir að hafa prófað að sitja þar sjálfur í þessari ferð þá sá gæti ég vel hugsað mér að sitja þar í lengri ferðum.

Eins og vera ber í nýjum bílum í dag er bíllinn hlaðinn öryggisbúnaði sem eykur öryggi og þægindi fyrir bílstjóra og farþega. Hann er með akreinavara og getur jafnvel stýrt bílnum sjálfur upp að ákveðnu marki.

Þá verð ég aftur að hrósa Ford fyrir að velja að nota alvöru takka fyrir miðstöðina í stað þess að troða öllum stýringum inn á snertiskjáinn.

Þetta gerir það að verkum að auðvelt er að stilla hlutina án þess að þurfa að taka augun af veginum.

Þá er bíllinn útbúinn fullkomnustu tækni, með stórt stafrænt mælaborð og stóran snertiskjá í miðjustokki. Það eru líka nægileg tengi fyrir alla, bæði USB og 230V tengla. Einn í farþegarýminu (230V 10A) og tveir á pallinum (230V 15A) sem styðja allt að 3,45kW.

Pallurinn er sá sami og á díselbílnum og getur borið allt að 1.000 kg, auk þess sem hann getur dregið allt að 3.500 kg á króknum.

Það þýðir að þú getur flutt nánast hvað sem er, hvort sem það er stór kerra, tjaldvagn eða önnur tæki.

Einn stór kostur er Pro Power Onboard kerfið, sem er í raun innbyggður rafall sem getur knúið alls kyns tæki og tól, svo sem vinnuljós, borvélar eða sög. Þetta er gríðarlega sniðugt fyrir þá sem nota pallbílinn í vinnu eða útilegum.

Ford sýndi okkur bílinn tengdan við stóra sög og var hægt að prófa að saga.  Notast er við rafmagn frá rafhlöðunni en ef hún klárast fer bensínvélin í gang og virkar bíllinn þá sem bensínrafstöð.

Fyrir hvern er þessi bíll?

Eins og áður hefur komið fram kom þessi bíll sannarlega á óvart. Fyrirfram var ég búinn að gefa mér að hann væri fyrst og fremst hagnýtur vinnuþjarkur fyrir iðnaðarmanninn.

Ég hafði ekki ímyndað mér að hann gæti verið góður fjölskyldubíll eða hentað vel í innanbæjarsnatt. En þar hafði ég heldur betur rangt fyrir mér.

Með því að bæta PHEV tvinntækninni við stendur Ford ekki bara framarlega í tækni, heldur breytir það algjörlega notkunarsviði bílsins. Hann verður ekki aðeins hagkvæmari í rekstri, heldur er hann einnig orðinn raunhæfur valkostur í daglegar ferðir innanbæjar.

Þú getur keyrt mest allar snattferðir þínar á rafmagninu einu saman og vonandi hlaðið heima hjá þér.

Þegar lengra er ekið samnýtir bíllinn rafmagn og bensín til að hámarka sparneytni, sem gerir hann mun sparneytnari en hefðbundna bensín- eða dísilbíla.

Kostir:

  • Góðir aksturseiginleikar: Aksturinn er mun nær því að keyra jeppa en hefðbundinn pallbíl.
  • Aflrás: Öflug tvinnaflrás með nægu afli og togi fyrir öll verkefni.
  • Notagildi: Hagnýtur pallur, mikil dráttargeta og hleðslumöguleikar.
  • Sparneytni: Plug-in hybrid tæknin gerir hann hagkvæmari í rekstri og hentugan í borgarumhverfi.
  • Hagnýtar lausnir:  Pro Power Onboard rafallinn, hentar bæði fyrir iðnaðarfólk og fjölskyldur á ferðalögum.
  • Samkeppnishæfni: Ford er fyrstur framleiðanda til að bjóða upp á PHEV-lausn í pallbíl á Evrópumarkaði, sem gefur honum mikið forskot.

Gallar:

  • Óstillanlegt öryggisbelti: Það er ekki hægt að hækka eða lækka festinguna fyrir öryggisbeltið þannig að smávaxið fólk gæti fundist beltið óþægilegt.

Að lokum er ljóst að Ford hefur skapað fjölhæfan ofurbíl í dulargervi pallbíls sem þjónar jafnt þeim sem þurfa vinnuþjark og fjölskyldunni sem er á faraldsfæti.

Ranger PHEV er bíll sem neyðir mig til að endurskoða skoðanir mínar varðandi pallbíla.

Ef verðið verður hagstætt þá kæmi mér ekki á óvart að Ford Ranger PHEV muni slá við öðrum pallbílum við hvað sölutölur varðar.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar