Ford Puma 100% rafbíll – knár þó hann sé smár

Tegund: Ford Puma EV

Árgerð: 2025

Orkugjafi: rafmagn

Þægilegur akstursbíll, falleg hönnun og efnisval, gott verð
155
DEILINGAR
1.4k
SMELLIR

Ford Puma hefur sannarlega komið á óvart sem nýr rafbíll frá Ford. Þetta er minnsti bíllinn í Ford fjölskyldunni, en hann býður upp á skemmtilegan akstur, þægilegar og fallegar innréttingar og er á góðu verði.

Ford Puma EV er virkilega fallegur smábíll.

Þrátt fyrir að vera smábíll er Ford Puma vel búinn og hönnunin vekur athygli. Ford hefur í gegnum árin staðið sig vel í framleiðslu smærri bíla og Puma er engin undantekning en hann heldur áfram þeirri hefð sem Ford Fiesta hefur lengi haldið á lofti.

Bíllinn er mjög skemmtilegur í akstri, ekki aðeins vegna rafmagnsdrifsins heldur einnig vegna þess að hann er byggður á venjulegum Ford Puma grunni sem var þróaður fyrir bensín og blendingsútgáfur.

Þetta gerir að verkum að bíllinn verður mýkri og aksturinn verður meira í ætt við „venjulegan” bensínbíl. Samt sem áður er Puma með nokkuð stífa fjöðrun og færir manni þannig sportlegri aksturseiginleika.

Afturhlutinn sver sig í ættina. Hönnunarlínur eru mjúkar og gefa bílnum eilítið sportlegt útlit.

Ford Puma er framdrifsbíll og því kannski aðeins og langt seilst að kalla hann „sportjeppling” en hann hefur samt alveg karakterinn í að vera álitlegur krossover.

Flottur að innan

Innréttingin í Ford Puma er einstaklega vel hönnuð. Þó að bíllinn sé smár, er þægilegt að ganga um hann og ágætt að setjast aftur í.

Hurðirnar opnast vel og farþegar geta komið sér fyrir á auðveldan hátt. Sætin eru sérstaklega þægileg og veita góðan stuðning, sem gerir ökuferðina mun ánægjulegri fyrir vikið.

Hönnunin á innréttingunni er vel útfærð, með áherslu á notendavænt útlit og gott aðgengi að öllum mikilvægum stjórntækjum.

Innréttingar eru sérlega vel heppnaðar, sætin eru með „pleðri”, gervileðri og alcantra í miðju. Sætin eru þægileg og halda ágætlega við bak og rass.

Bíllinn er búinn með nýjasta Ford SYNC 4 kerfinu og 12″ snertiskjá sem gerir allar upplýsingar aðgengilegar á mjög einfaldan hátt. Með þessum tækjum getur þú nýtt þér bæði Apple CarPlay og Android Auto.

Upplýsingaskjárinn er frekar einfaldur, skýr og hraðvirkur. Mælaborðsskjárinn gefur allar nauðsynlegar upplýsingar.

Þetta gerir aksturinn einfaldari og skemmtilegri, þar sem öll stjórntæki eru rétt við höndina. Ford Puma kemur með B&O hljóðkerfi sem hljómaði virkilega krafmikið í reynsluakstrinum. Í stýrinu má stilla afþreyingu og síma og stýra hraðastillir svo eitthvað sé nefnt. Armar í stýri stjórna svo ljósum og þurrkum.

Hvernig var að aka?

Hestöflin eru 168 og togið 290 Nm sem ætti að vera yfirnóg fyrir þessa stærð af bíl. Aksturinn í Ford Puma er verulega þægilegur. Bíllinn liggur vel á veginum og lætur vel að stjórn. Það eru nefnilega ekki allir rafbílar þannig að það sé endilega ljúft að aka þeim.

Þráðlaus símhleðsla, glasahaldarar og góð geymsla á milli framsæta.

Sumir með of stinna fjöðrun, mjög næma hröðun og einhvernveginn meira eins og kappakstursbílar en venjulegir fjölskyldubílar. Hins vegar minnir Puma meira á eldri kynslóðir bíla í akstri þar sem þægindi og mýkt réðu meira ríkjum.

Ford Puma kemur vel búinn en undir bílnum eru 17” álfelgur á Select útgáfu og 18” álfelgur á Premium útgáfu, sem tryggir stöðugleika bæði á hraðbrautum og í þéttbýli. Bíllinn hentar því einstaklega vel í daglegan akstur sem og lengri ferðir.

Risastór leynigeymlsa

Einn af topp eiginleikum þessa bíls er skottið, sem rúmar 574 lítra. Það er eiginlega ótrúlegt hvað hægt er að nýta plássið vel, þar sem skottið er í raun á tveimur hæðum og önnur hæðin nær djúpt niður í bílinn.

Skottið er á tveimur hæðum…

…..og rúmar allt að 574 lítrum. Þarna komast eflaust tvö golfsett, standandi.

Skottið gæti örugglega vel rúmað tvö golfsett upp á endann eða alls þess sem þú þarft til að fara í bústaðinn eða stutta ævintýraferð. Bíllinn er ekkert sérlega stór en skottið er það. Það er líka rúmgóð geymsla í húddi, frunk.

Tækniupplýsingar

Ford Puma er búinn 44 kWh rafhlöðu sem gefur honum ágætis drægni. Hann nær 0-100 km/h á 8 sekúndu og hefur hámarkshraða sem nemur 160 km/klst, en orkueyðslan er ekki eins mikil og á stærri bílum.

Ford Puma EV er fáanlegur í tveimur útfærslum, Select og Premium. Verulega lítill verðmunur er á bílunum en grunnbúnaður er ríkulegur.

Ford gefur upp að eyðsla á hverja 100 km. geti verið um 13-13.7 kWst. Drægni er allt að 376 km samkvæmt WLTP prófunum, sem gerir hann hentugan fyrir langar ferðir eða hversdagsakstur. Hestöflin eru mæld um 168 og togið 290 Nm.

Staðgreiðsluverð fyrir Select útgáfu er 4.290.000 kr. og fyrir Premium útgáfu 4.490.000 kr. Verðmunurinn er sáralítill en búnaðaraukningin veruleg.

Aukabúnaðurinn sem hægt er að bæta við felst meðal annars í 360° myndavél sem er frábær ef þú vilt betra útsýni í kringum bílinn, rafdrifinn afturhleri og lyklalaust aðgengi og opnun. En góður grunnbúnaður gerir bílinn mjög samkeppnishæfan í sínum flokki.

Fín geymsla í húddinu.

Hvernig hentar Ford Puma fyrir þig?

Ford Puma 100% rafbíll er fullkominn fyrir hjón sem vilja ferðast létt í bústaðinn eða vilja stunda útivist. Hann er einnig frábær valkostur fyrir fjölskyldur sem þurfa annan bíl á heimilið eða jafnvel í skólann fyrir táninginn.

Þetta er bíll sem hægt er að nýta á marga vegu og er frábær kostur fyrir þau sem vilja rafmagn og nýjustu tækni með betri akstursupplifun.

B&O hljómflutningstæki virkuðu mjög vel og gáfu reynsluakstrinum extra upplifun.

Niðurstaða

Ford Puma 100% rafbíll er sannarlega vel heppnaður. Með nútímalegri hönnun, frábærum aksturseiginleikum og ótrúlega miklum búnaði, er hann fullkominn fyrir þá sem leita að rafdrifnum smábíl sem býður upp á mikið pláss og þægilegan akstur.

Ef þú ert að leita að bíl sem býður upp á allt þetta og meira til, er Ford Puma rafbíllinn rétti bíllinn fyrir þig.

Myndband

Helstu tölur:

Hestöfl: 168 hö, 290 Nm tog

Drægni: 364-376 km. skv. WLTP.

Rafhlöðustærð: 44 kWh

Hröðun 0-100 km/klst: 8 sek.

Heimahleðslugeta (AC): 11 kW

Hraðhleðslugeta (DC): 100 kW

Lengd/breidd/hæð í mm. 4214/1930/1555

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar