Flottir kaggar í Njarðvíkinni
Í kvöld hittust meðlimir Fornbílaklúbbs Íslands á planinu hjá Tjarnargrilli í Innri-Njarðvík í Reykjanesbæ. Óhætt er að segja að íbúar hverfisins ásamt fjöldanum öllum af áhugafólki um gamla bíla hafi kunnað að meta þessa veislu.
Fjölmargir bílar á öllum aldri voru til sýnis og menn tilbúnir að spjalla og uppfræða og þá sérstaklega yngri kynslóðina sem var greinilega áhugasöm.
Sigurður Guðmundsson hjá Bílrúðuþjónustunni í Reykjanesbæ er mikill áhugamaður um bíla og á glæsilegan Plymouth Hemi 1969 árgerð.

Bílinn kom til landsins með varnarliðsmanni og var hann notaður sem fjölskyldubíll á vellinum um árabil. Eftir það var honum breytt og hann notaður í kvartmílunni.
Annar glæsilegur bíll sem við festum augun á er Ford Mustang Mach 1 árgerð 1971. Halldór Ármannsson flutti bílinn inn 2018. Þessi fákur er með 351 Cleveland vél með 4 hólfa tor, orginal eru þessir bílar með 2 hólfa tor. Bílnum var ekið til 1978 og lítur út eins og úr kassanum.


Mustanginn er allur orginal og einn sá flottasti sem undirritaður hefur séð af þessari gerð. Vélin malar eins og köttur undir stóru húddinu og krafturinn er raunverulegur.

Upphaflega var þessi bíll í Kaliforníu og hafði því ekki kynnst miklu votviðri né umhleypingum.


Fornbílaklúbbur Íslands er mjög virkur félagsskapur og menn duglegir að sýna sig og bíla sína enda áhugi á gömlum bílum mikill hér á landi – ekki síst sögu þeirra.
Við látum myndirnar tala sínu máli


















