Er tungutakið í tæknistöffinu að stuða þig!
Afl véla, þar með talið rafmótora, er oft skráð sem kW eða kílóvött en sumum finnst betra að hafa þetta í hestöflum og þá er hægt að leika sér að því að breyta þessum einingum fram og til baka hér.
Tog eða snúningsátak (torque) er mælt í Nm (Newton metrum). Á meðan aflið í mótornum segir til um hversu hratt er hægt að framkvæma vinnu þá er togið getan til að framkvæma vinnu eða halda henni áfram. Aflið kemur bílnum hratt af stað og mótornum upp á snúning en togið viðheldur hraðanum og snúningnum.

T.d. þegar ekið er upp brekku, aflið tryggir að bíllinn nái hraða en togið viðheldur honum eða kemur í veg fyrir að bíllinn tapi hraða í brekkunni.
Vél með hátt tog er góð í brekkum og það er nauðsynlegt í torfærujeppum en vél með mikið afl er t.d. góð í kvartmílubíl. Best er náttúrulega að hafa bæði mikið afl og tog.
Háspennurafgeymirinn í rafbílum er gefinn upp í kWh eða kílóvattstundum en einfaldast er að hugsa sér rafgeyminn sem tankinn í bílnum og því fleiri kWh sem hann er því meira kemst á „tankinn“. Því stærri sem rafgeymirinn er í kWh því lengra dregur rafbíllinn á fullri hleðslu.

Drægni, drægi eða aksturssvið (range) rafbíla er gefið upp í kílómetrum (km) en kílómetratalan segir til um hversu langt bíllinn kemst á fullri hleðslu áður en rafgeymirinn er tómur. Þetta er líklega fræðileg tala sem stenst ekki nema við fullkomnar aðstæður og á nýjum bíl.
Nýtni (efficiency), mæld í kWh/100 km er rafmagnseyðslan á hverja hundrað kílómetra hliðstætt eyðslumælingum á vélum sem brenna eldsneyti.

Rafgeymirinn rýrnar með tímanum en það fer mikið eftir því hvernig hann er hlaðinn, t.d. er ekki gott að hraðhlaða geyminn alltaf. Hvernig bíllinn er notaður hefur líka áhrif. Þetta kemur svipað út og að tankurinn sé stöðugt að minnka. Rafgeymirinn samanstendur af mörgum sellum sem er stundum hægt að skipta um svo það er oft ekki nauðsyn að skipta um heilann rafgeymi með tilheyrandi kostnaði.
Ein mikilvæg mælieining sem er enn ónefnd í sambandi við rafmagn er A eða amper og er fyrir rafstraum (hliðstætt við vatnsstraum nema í þessu tilfelli eru það rafeindir sem flæða í staðinn fyrir vatnið).
Það er mjög mikilvægt að vita hvort tengillinn þar sem hlaða á rafbílinn er gerður fyrir 10A sem er of lítið eða 16A. Best er að ræða við rafvirkja til að fá þetta á hreint því venjulegur 16A tengill þolir ekki að hlaða á fullum afköstum nema í skamman tíma, því er mælt með því að stilla hleðsluna niður á 10A.

Allt sem þú þarft að vita um heimahleðslu er að finna í þessu pdf skjali. Það er líka hægt að kaupa heimahleðslustöðvar en þá er líklega hægt að hlaða hraðar og öruggar ef fenginn er löggiltur rafvirki til að setja þær upp.
Að lokum bendum við á Facebook síðu Nissan Leaf á Íslandi því þar eru rafbílaeigendur með mikla reynslu af rekstri rafbíla og eru oft að miðla af reynslu sinni.



