Er sama hvernig bíl með tvöfaldri kúplingu er ekið?

142
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Er sama hvernig bíl með tvöfaldri kúplingu er ekið?

Margir kannast við að það er ekki gott að standa mikið á fótstiginu fyrir kúplinguna og gefa í um leið í beinskiptum/handskiptum bíl. Þá endist kúplingin ekki vel. Hún fer að hitna og getur brunnið á frekar fáum kílómetrum ef þetta er gert.

Kúplingskerfi í bifreið.

En hvað þá með bíla sem eru með tvöfaldri kúplingu? Það eru til tvær útfærslur, votar kúplingar (svipaðar kúplingum í sjálfskiptingum og eru notaðar með DSG gírkassanum í VW) og þurrar kúplingar (tveir kúplingsdiskar sem eru líkir hefðbundnum kúplingsdiskum og finnast m.a. í Suzuki og Hyundai bílum). Það eru þurru kúplingarnar sem við erum að tala um hér.

En áður en lengra er haldið er rétt að útskýra að þegar stigið er á kúplingsfótstigið þá “slítur” kúplingin sambandinu á milli gírkassa og vélar en “tengir” þegar fóturinn er tekinn af fótstiginu. Þetta gerist sjálfkrafa í bílum með tvöfaldri kúplingu enda ekkert fótstig fyrir kúplingu í þeim bílum. Gírkassinn er tölvustýrður þannig að ef ökumaðurinn hemlar eða skiptir um gír með stönginni þá sér tölva um að slíta og tengja í staðinn fyrir ökumanninn.

Það er ekki sama hvernig bíl með tvöfaldri þurri kúplíngu er ekið. Hvernig á þá að aka þeim?

Gírstöng í beinskiptu ökutæki.

Svona áttu að aka slíkri bifreið:

  1. Láttu gírstöngina vera í D þegar þú stöðvar bílinn í gangi við t.d. gatnamót. Tölvan sér um að slíta og það verður ekkert slit á kúplingunum.
  2. Ef þú þarft að stoppa í brekku eða halla upp í móti, ekki taka fótinn af hemlunum. Ekki láta kúplingarnar halda við því þá hitna þær og slitna.
  3. Forðastu að láta bílinn rétt skríða áfram eins og í umferðarteppu eða ef bíllinn er að draga eitthvað annars “snuðar” önnur kúplingin og endist illa. Stattu á bremsunni til að slíta eða bíddu þangað til það er nægilegt bil í næsta bíl til að gefa inn svo full tenging náist.
  4. Ekki skipta í lægri gír þegar þú ert að gefa inn og ekki skipta í hærri gír þegar þú ert að hemla. Þetta veldur pirrandi töfum í gírskiptingum því tölvan reiknar með því að næsta skipting eigi að vera í hærri gír þegar þú gefur inn en í lægri gír þegar þú hemlar.
  5. Þegar þú tekur af stað þá máttu stíga bæði á hemla og inngjöf á sama tíma en slepptu hemlunum strax og þú finnur að bíllinn vill fara af stað. Þá tengir kúplingin fljótt og það verður ekkert slit.

Í stuttu máli sagt þá slíta kúplingarnar þegar hemlað er en tengja þegar gefið er inn. Ef bíllinn er í gangi og það er ekki stigið á fótstigin fyrir hemlana né inngjöfina á litlum hraða þá getur önnur kúplingin snuðað.

Reyndu að finna út hvort bíllinn þinn er með svona tvöfaldri kúplingu og aktu í samræmi við það. Þá munu þær endast vel.

Svipaðar greinar