Matchbox – litli bíllinn sem óx upp með kynslóðum
Forsíðumyndin er af Pontiac Firebird og átti undirritaður svona líkan enda vinkona móður minnar sem átti svona bíl, nákvæmlega sama lit meira að segja – en án „hood-scoopsins”. Það var líklega í kringum árið 1975.
Það er fátt sem kveikir jafn sterkar minningar og það að finna gamlan Matchbox-bíl neðst í skúffu, með rispum í málningunni og týndu dekki – en ennþá með fullan karakter. Þessir smábílar, sem eitt sinn rúlluðu um stofugólf heimila, eru nú orðin tákn bernskunnar, nákvæmni og bresks iðnaðarstolts.

Ég man eftir því að hafa keypt mér nokkra í leikfangabúð á Laugaveginum gegnt Landsbankanum á númer 77. Þá voru þeir í litlum pappakössum og þú gast horft á endalausa röð kassa fyrir aftan afgreiðslukallinn og valið þér þinn bíl. A
Auðvitað tók það tímana tvenna að velja og margir voru skoðaðir í hvert sinn. En einn svona bíll var eflaust á við 2 tíma skjánotkunar meðalbarns í dag.

Svo var farið heim, raðað upp og farið í bílaleik. Á sumrin fór maður út með safnið og raðaði upp heilu bílastæðunum og jafnvel rak bílasölu við gangstéttarbrún. Svo skiptu menn kannski á sléttu og síðan var farið í torfærubíló í einhverju beðinu hjá nágrönnum eða út í móa.
Bresk hugvitssemi í eldspýtnakassa
Saga Matchbox-bílanna hófst rétt eftir síðari heimsstyrjöld. Tveir breskir félagar, Leslie og Rodney Smith, stofnuðu árið 1947 fyrirtækið Lesney Products & Co. Ltd. Þeir hófu framleiðslu á litlum málmhlutum en sáu fljótt að markaðurinn fyrir nákvæm smáleikföng var að opnast. Fyrstu bílarnir voru seldir í litlum kössum á stærð við eldspýtnakassa – og þaðan varð nafnið Matchbox til.

Sú hugmynd varð snjallræði: foreldrar gátu keypt ódýrt leikfang sem passaði í vasa barnsins, og börnin gátu safnað þeim tugum saman án þess að barnaherbergið fylltist. Á örfáum árum urðu Matchbox-bílarnir heimsþekktir og Lesney-fyrirtækið eitt af hornsteinum breskrar framleiðslu.
Gullöld smábílanna
Á sjöunda og áttunda áratugnum lifði Matchbox gullöld sína. Hönnuðir Lesney kepptu við Hot Wheels (sem enn eru í fullu fjöri) frá Ameríku, en bresku bílarnir héldu sínu yfirbragði – þeir voru ekki eins ýktir í línunum, heldur byggðir á raunverulegum bílum sem krakkarnir sáu á götum úti.
Þeir voru nákvæmir, fóru vel í hendi, og máluð smáatriði eins og ljós og hurðarhúnar gáfu þeim næstum alvöru yfirbragð.

1975 – meiri hraði, nýr heimur
Árið 1975 markaði ákveðin þáttaskil. Lesney hafði kynnt „Superfast“-seríuna nokkrum árum áður, þar sem hjólin urðu léttari, krómuð, glansandi og bílarnir gátu rúllað hraðar en nokkru sinni fyrr.
Þessi breyting var svar við harðri samkeppni frá Hot Wheels, sem höfðu þá þegar fangað hjörtu bandarískra barna með hraðbrautum og neonlitum.

Matchbox-bílarnir frá þessum tíma voru litaglaðir og framtíðarlegir. Nú sást ekki lengur aðeins Ford Cortina eða Volkswagen Bjalla, heldur líka ótrúlegar vinnuvélar, herflutningatæki og jafnvel geimtæki.
Litirnir urðu skærari, málningin metallísk og undirvagninn oft úr plasti til að spara kostnað.
Það var nýr tími, ný kynslóð að vaxa úr grasi – og Matchbox breyttist með henni.







Á milli Englands og Hong Kong
Framleiðslan fluttist smám saman frá Bretlandi til Hong Kong um miðjan áttunda áratuginn. Það var gert til að lækka framleiðslukostnað, en leiddi til smávægilegra breytinga á gæðum og útliti.
Safnarar í dag þekkja muninn á „Made in England“ og „Made in Hong Kong“ – stundum litbrigði í málningu, stundum mismunandi hjól.

En fyrir börnin á þeim tíma skipti það engu máli: bíllinn var litríkur, rúllaði hratt og passaði fullkomlega í lófann.
Endalok Lesney en arfleifð sem lifir
Þrátt fyrir endalausa sköpunargleði og vinsældir lentu Lesney í fjárhagsvandræðum og fóru í gjaldþrot árið 1982. En Matchbox-bílarnir lifðu áfram. Fyrst tóku Universal Toys við, og síðar – árið 1997 – keypti sjálft Mattel vörumerkið. Í dag deila því tveir keppinautar smábílamarkaðinum: Matchbox og Hot Wheels, sem báðir lifa hlið við hlið og undir sama þaki.

Litlir bílar en mikil áhrif
Matchbox-bílarnir frá miðjum áttunda áratugnum eru í dag eftirsóttir safngripir. Þeir minna á tímabil þar sem hönnun, hugvit og leikgleði runnu saman í handhægt málmstykki sem endurspeglaði drauma barnsins.

Margir muna enn hávaðann þegar „Superfast“ bílarnir þutu eftir parketinu, á leið inn í ímyndaðan heim kappaksturs og ævintýra.
Litli bíllinn í eldspýtnakassanum varð ekki bara leikfang – hann varð hluti af bernskuminningum heillar kynslóðar.


Google grúsk og heimildir hér og þaðan



