Maserati MC20 Cielo „sportari“ verður dýrasta gerð Stellantis
Opinn sportbíll eða „Roadster“ útgáfan af Maserati MC20 ofurbílnum er væntanleg í sölu á fyrri hluta árs 2023 í Evrópu og Bandaríkjunum.
MODENA, Ítalía – Maserati MC20 Cielo, roadster útgáfan af MC20 coupe, er sá bíll sem Stellantis bindur vonir við að skila muni raunverulegum hagnaði.
MC20 Cielo verður dýrasta gerð Stellantis. Í Þýskalandi, stærsta markaði Evrópu, mun bíllinn kosta 260.000 evrur (35,9 milljónir ISK).
Gert er ráð fyrir að ofurbíllinn komi í sölu á fyrsta ársfjórðungi næsta árs í Evrópu og síðan kemur hann á markað í Bandaríkjunum á öðrum ársfjórðungi. Cielo nafn bílsins þýðir „himinn“ á ítölsku.
MC20 Cielo er 30.000 evrum dýrari en MC20 coupe, sem kostar 230.000 evrur í Þýskalandi, sem er stærsti verðmiði allra bíla meðal 14 vörumerkja Stellantis.

MC20 Cielo er önnur nýja gerð Maserati sem kynnt er á þessu ári á eftir Grecale sportjeppanum sem er í millistærð.
„Við erum í hröðunarham,“ sagði Davide Grasso, forstjóri Maserati, við afhjúpun Cielo í verksmiðju vörumerkisins í Modena.
Maserati mun afhjúpa þriðju nýju gerðina á þessu ári; endurhannaðan GranTurismo millistærðarbíl. Til að koma á markað árið 2023 verður GranTurismo einnig fyrsti Maserati til að bjóða upp á rafknúið afbrigði.

Rafmagnsútgáfa
Vörumerkið staðfesti á miðvikudag að MC20 muni fást sem rafbíll, fyrirhugaður árið 2025, en greindi ekki frá hvort að segja hvort það ætti við um bæði MC20 coupe og Cielo.
Hinn rafknúni MC20 mun vera með 800 volta kerfi til að stytta hleðslutímann og verða rafmótorarnir þrír; einn að framan og einn á hvoru afturhjóli til að ná hámarks togátaki.
Maserati ætlar að smíða sex til sjö MC20 coupe og Cielos á dag, sem gerir 1.300 til 1.500 eintök á ári.
Frá því MC20 kom á markað í júlí 2021 hefur Maserati framleitt 1.000 eintök, þar af 700 sem búið er að afhenda. Afgangurinn hefur verið seldur en þá bíla á eftir að afhenda, sagði Maserati.
Bernard Loire, viðskiptastjóri Maserati, sagði að 2022 framleiðslan á MC20 sé þegar uppseld. Meðalbiðtími er um átta mánuðir og mun fyrirtækið standa vörð um verð bílsins fram að afhendingu, jafnvel þótt hráefnisverð hækki og verðbólga aukist, sagði hann.

Bílaframleiðandinn mun einnig vernda verðið fram að afhendingu fyrir Cielo, sagði Loire.
Fyrirtækið gerir ráð fyrir að „roadster“-bíllinn standi fyrir 40 til 50 prósentum af heildarsölu. Maserati segir að blæjubílar séu 35 prósent af alþjóðlegum ofurbílamarkaði.
Meðal keppinauta MC20 eru Ferrari 296 GTS og Lamborghini Huracan, sem báðir eru með opnar útfærslur.
12 sekúndur til að sjá himininn
MC20 Cielo er með útdraganlegu glerþaki, sem kemur frá Webasto, sem tekur 12 sekúndur að opna eða loka, sem Maserati segir að sé með því besta í þessum flokki.

„Rafmagnaða“ þakið getur farið úr glæru yfir í ógagnsætt á innan við sekúndu með því að ýta á hnapp og nýta (PDLC) tæknina.
Þessi eiginleiki, sem gefur fulla sýn á himininn þegar þakið er lokað – gefur módelinu „Cielo“ nafnið – en nafnið er tillaga frá viðskiptavinum, sagði Francesco Tonon, einn yfirmanna hjá Maserati.
„Við vorum með rýnihópa í Evrópu og Bandaríkjunum sem spurðu viðskiptavini hverju þeir væru að leita að í roadster útgáfu,“ sagði Tonon og bætti við að þeir vildu ekki „einfalt þaklaust afbrigði af coupe“.
Breskur viðskiptavinur sagðist vilja algjörlega gegnsætt þak til að geta séð himininn jafnvel þegar það rigndi, sem algengt er í London, þar sem hann hefur aðsetur.
Roadsterinn notar sömu 3,0 lítra forþjöppu V-6 Nettuno vélina sem skilar 621 hestafli og 730 newtonmetra togi með Maserati Twin Combustion kerfinu, sem er með tvöfaldri kveikju og tvöfaldri innspýtingu. Vélin er tengd við átta gíra tvískiptingu sem knýr afturhjólin.
Báðar MC20 gerðirnar eru með miðlæga koltrefjaeiningabyggingu með fram- og afturgrind úr áli og yfirbyggingar úr koltrefjum.

Cielo er 1540 kg og vegur 65 kg meira en coupe bíllinn en afköstin eru nánast þau sömu.
Búist er við að hröðun frá 0 til 100 km/klst verði um 3 sekúndur samanborið við 2,9 sekúndur fyrir coupe, segir Maserati, en hámarkshraði ætti að vera yfir 320 km/klst, samanborið við 326 km/klst fyrir coupe.
Aftur til hagnaðar
Á síðasta ári jókst sala á Maserati á heimsvísu um 41 prósent, í 24.300 eintök, en þökk sé betri vörusamsetningu sem stafaði aðallega af því að MC20 kom á markað á seinni hluta ársins.
Tekjur vörumerkisins jukust um 47 prósent, í meira en 2 milljarða evra.
Leiðréttur rekstrarhagnaður var 103 milljónir evra samanborið við 91 milljón evra tap árið 2020. Rekstrarframlegð var 5,1 prósent – og 6,5 prósent á seinni hluta eftir að MC20 kom á markaðinn.
(Frétt á Automotive News Europe – Myndir Stellantis)
Umræður um þessa grein