- Daimler leitar eftir verðmati á hlutabréfamarkaði sem líkist því sem Tesla hefur náð, en það hyggst Daimler gera með því að breyta nafninu í Mercedes-Benz
Hér einu sinni héldu flestir að Mercedes-Benz héti einfaldlega Mercedes-Benz – en heitir í raun Daimler en verður að Mercedes-Benz núna um mánaðarmótin!
Forstjóri Daimler, Ola Kallenius, sækist eftir hærra verðmati fyrir lúxusbílaframleiðandann þar sem framleiðandinn færir sig meira yfir í rafbíla sem eru hlaðnir stafrænum græjum.
Eftir að Daimler aðskildi framleiðslu vörubíla frá meginrekstrinum í desember, mun bílaframleiðandinn í framhaldinu breyta nafni sínu í Mercedes-Benz þann 1. febrúar, til að gefa betur til kynna sjálfstæða einingu sem tekur á umbreytingum iðnaðarins.
Mercedes stefnir á að vera með rafhlöðuknúnar gerðir í öllum sínum flokkum á þessu ári til að keppa við Tesla.

„Við höfum raunverulega möguleika á að hækka margfeldið,“ sagði Kallenius við fréttamenn á föstudaginn, án þess að nefna sérstakt verðmat á fyrirtækinu, sem hefur hækkað um 40 prósent að verðmæti á síðustu 12 mánuðum og er núvirði 74 milljarðar evra.
Kallenius benti á hærra verðmat sem fylgir öðrum lúxus- og tæknihlutum. „Ef við getum aukið sjóðstreymi og margfeldi okkar, þá eru miklir möguleikar í Mercedes-Benz hlutabréfunum,“ sagði hann.
Hefðbundnir bílaframleiðendur, þar á meðal Volkswagen, eiga í erfiðleikum með að lyfta sér upp, jafnvel þó þeir séu farnir að framleiða rafbíla. Skortur á lánsfé frá fjármagnsmörkuðum setur bílaframleiðendum skorður að keppa við nýja keppinauta eins og Apple og Tesla með yfirburða fjárhagslegan bakhjarl.
Sérfræðingar sögðu að úrvalsbílaframleiðandi sem er að berjast um lúxusmarkaðinn, sem samkvæmt skilgreiningu er lítill og endanlegur, gæti aðeins vaxið svo og svo mikið.
Að elta Tesla
„Fjárfestar gætu byrjað að líta á Mercedes sem framleiðanda á borð við Lucid Motors eða Tesla og gefið fyrirtækinu margfeldi rafbíla,“ sagði evrópskur bílasérfræðingur hjá RBC Capital Markets Tom Narayan. „En Lucid og Tesla byrjuðu á 100 prósent rafbílum. Fyrir Mercedes þarf að breyta núverandi viðskiptum á bílum með hefðbundna brunavél yfir í rafbíla. Það gæti verið takmörkun á því hversu langt margfeldið gæti náð á næstunni.”
Daniel Schwarz, framkvæmdastjóri hjá Stifel, sagði að verðmat endurspeglaði þá skoðun að þýsk vörumerki væru í vörn, neydd til að vernda markaðshlutdeild sína. „Verðmat Tesla er byggt á þeirri forsendu að Tesla muni vinna markaðshlutdeild frá þýskum framleiðendum, sem hafa ekki sambærilegan tekjuvöxt“, sagði hann.
Kallenius er að endurskipuleggja Mercedes til að einbeita sér að hágæða gerðum með sjálfvirkum akstri sem miða að því að auka tekjur, jafnvel þó fyrirtækið fjárfesti milljarða í nýrri tækni.
Aðal Mercedes-Benz deild Daimler mátti þola víðtækar framleiðslutruflanir á þriðja ársfjórðungi 2021 vegna skorts á íhlutum og tölvukubbum.
Afhendingar bötnuðu nokkuð á síðustu þremur mánuðum ársins, en framleiðandinn tapaði samt stöðu sinni á toppnum sem söluaðili lúxusbíla til keppinautarins BMW í fyrsta skipti síðan 2015. Fyrirtækið mun síðan skila uppgjöri fyrir árið 24. febrúar, og þá kemur staðan betur í ljós.
Meira en heil öld á framleiðslu fólksbíla og vörubíla saman
Með því að Daimler skipti rekstrinum og setti framleiðslu vörubíla í sérstakt fyrirtæki lauk um einnar aldar framleiðslu fyrirtækjanna undir sama þaki.
Breytingin er sú fyrsta í röð skipulagsbreytinga fyrir bílaframleiðandann sem hóf vegferðina sem Daimler-Benz árið 1926. Mercedes vörumerkið, nefnt eftir dóttur bílafrumkvöðuls, var formlega tekið upp af Daimler árið 1902.
(Automotive News Europe / Reuters / Bloomberg)
Umræður um þessa grein