BYD Sealion 7 – fágaður lúxus og kraftmikið tæknibúnt

Tegund: BYD Sealion 7

Árgerð: 2025

Orkugjafi: Rafmagn

Drægni, aksturseiginleikar, hönnun, verð
Framsæti full há í lægstu stillingu
136
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Reynsluakstur – studdur með mynbandi neðst í greininni

Kínverski bílaframleiðandinn BYD hefur verið að slá í gegn á Evrópumarkaði á síðustu misserum og nýjasta viðbótin í flóruna, Sealion 7, staðfestir hversu mikinn metnað fyrirtækið leggur í rafbílaframleiðslu sína.

Hér er á ferðinni öflugur, umhverfisvænn og glæsilegur lúxusbíll með frábærri drægni, tæknivæddum innviðum og verðmiða sem kemur á óvart – á jákvæðan hátt.

Stórglæsileg hönnun á BYD Sealion 7. Þetta er stór og rúmgóður lúxusbíll.

Kraftur, drægni og hleðsla

BYD Sealion 7 er með 93.1 kWh Blade LFP rafhlöðu sem inniheldur ekki umdeilt kóbalt heldur mun vistvænni efni. Rafhlaðan er því bæði endingargóð og vistvæn og hentar vel fyrir þá sem vilja rafbíl án þess að ýta undir neikvæð umhverfisáhrif.

Bíllinn styður 240 kW DC hraðhleðslu, sem þýðir að hleðsla frá 10–80% getur tekið allt niður í 24 mínútur – meðal þeirra hröðustu í sínum flokki.

11 kW AC heimahleðsla tryggir að bíllinn sé fullhlaðinn næsta morgun eftir tengingu heima við. Nú hafa margir rafbílanotendur á Íslandi einnig aðgang að hleðsluneti á vinnustöðum sínum þannig að 11 kW hleðslugátt á Sealion 7 gefur möguleika á styttri hleðslutíma

Skott og reyndar allar hurðir bílsins opnast vel og skapa þægilegt aðgengi að bílnum.

Drægnin er 502 km samkvæmt WLTP og í raunverulegum akstri fer hann nokkuð nálægt því, sérstaklega í blönduðum akstri þar sem hagkvæmni rafhlöðunnar og orkuendurheimtanleg hemlun kemur sterkt inn.

Drif á öllum hjólum

Sealion 7 er fjórhjóladrifinn og notar tvo rafmótora sem skila samanlagt 530 hestöflum og 690 Nm af togi. Þrátt fyrir að fara í 100 km/klst á 4,5 sekúndum, þá er aflinu skilað svo mjúklega að þú finnur ekki fyrir neinum hnykk þegar tekið er hraustlega af stað – þú þarft ekki að upplifa að þú sért hjá kírópraktor í hálshnykkingu.

Akstursupplifunin er létt og örugg, þú situr vel og ert með góða sjónlínu um framrúðuna, stýrið er í léttari kantinum, rafdrifið og stýrir nánast bílnum fyrir þig.

Framendinn er nokkuð hefðbundinn og sker sig ekki úr fjöldanum. En bíllinn lúkkar sportlegur og flottur ef horft er framan á hann.

Sumir gagnrýnendur hafa gagnrýnt stýrið fyrir að halla of mikið að mælaborðinu, en við fundum ekki fyrir þessu, fannst stýrisstaðan náttúruleg og þægileg.

Það sem helst stendur upp úr er hvernig stýrið minnir á gott vökvastýri – létt, sveigjanlegt og með sterka miðju.

Þetta er stýring sem eykur akstursánægju en dregur ekki úr henni.  Fjöðrunin er alveg eins og maður vill hafa hana, þú finnur lítið fyrir misfellum.

Skynsamleg plássnýting

Farangursgeymslan er á tveimur hæðum (sjá myndband) og rúmar um 520 lítra. Með því að fella niður aftursætin (60/40 skipting) má stækka hana í allt að 1789 lítra, sem gerir bílinn að fullgildum ferðafélaga.

Auk þess er „frunk” geymsla undir húddi, 58 lítrar að stærð, sem hentar vel undir minni töskur eða ferðabúnað.

Fullt af plássi og sæti þægileg. Virikilega flott hvernig setur í aftursætum ná vel undir hnésbætur.

Farþegar aftur í hafa það ansi gott. Þar er bæði höfuð- og fótarými ríflegt – ekki ósvipað því að maður sitji í lúxussal í bíó.

Hiti er í aftursætum og þar eru tvö USB-C tengi, ásamt miðjupúða sem hægt er að fella niður fyrir aukin þægindi.

Að framan má bæði hita og kæla sætin, sem er búnaður sem boðinn er í auknum mæli í þessum verðflokki.

Þú ert með fartölvuskjá í miðjunni, tvöfalda símhleðslu og virkilega skýrt og einfalt mælaborð bakvið stýrið.

Flott hönnun skapar notagildi

Að innan er BYD Sealion 7 glæsilegur – mjög vandað efnisval, nákvæmur frágangur og tilfinning fyrir smáatriðum. Skjárinn í miðjunni er 15.6 tommur, eins og meðalstór fartölva, og það sem meira er – hann snýst milli lóðréttrar og láréttrar stöðu með einum smelli.

Þetta er sniðug lausn sem bætir notendaupplifun eftir því hvort þú ert að skoða fréttavefi eða horfa á Youtube.

Stórar felgur og öflugur bremsubúnaður.

Stýrikerfið er skýrt og fljótvirkt, og raddstýring virkar vel. Það er gaman að sjá hvað kínverskir bílaframleiðendur hafa náð langt á skömmum tíma í að samræma notendaviðmót, stýringu og vandaða hljóðtækni.

Hljómburðurinn er á pari við það besta sem þekkist í evrópskum bílum – kristaltær hljómur sem hentar jafnt tónlist sem hljóðbókum.

Hvað segja gagnrýnendur?

Evrópskir bílablaðamenn hafa tekið Sealion 7 fagnandi. Hann fær lof fyrir:

  • Sanngjarnt verð
  • Mjúkan og hljóðlátan akstur
  • Afkastamikla hleðslu
  • Notendavænt stýrikerfi
  • Gott efnisval og smekklega hönnun

Eina athugasemdin sem hefur komið ítrekað upp er að sumir telja stýrið ekki fullkomlega staðsett – en það er frekar smekksatriði en galli.

Annars hefur Sealion 7 vakið lukku í reynsluakstri víða, ekki síst í Noregi þar sem rafbílar eru prófaðir við harðari skilyrði en víða annars staðar.

BYD Sealion 7 er sportlegur fjölskyldubíll.

Viðmiðunarverð Sealion 7 á Íslandi er 7.990.000 kr. – sem er fáránlega gott verð miðað við búnað og tækni. Hann keppir beint við bíla á borð við Tesla Model Y og Ford Mustang Mach-E, og stendur sig afar vel.

Tesla býður vissulega upptak og sportlegan karakter, en BYD vinnur á fágun, þægindum og notendaupplifun.

Niðurstaða

BYD Sealion 7 er ekki bara skynsamlegur rafbíll – hann er fágaður lúxusbíll sem hentar jafn vel í borgarakstur sem og til lengri ferða. Hann státar af mikilli drægni, öflugu fjórhjóladrifi, vönduðum innréttingum og snjöllu notendaviðmóti.

Hann nær að vera bæði kraftmikill og mýkri en margir keppinautar, án þess að missa jarðsamband eða karakter.

Ef þú ert að leita að rafbíl sem sameinar tæknivæddan lúxus, öryggi, þægindi og umhverfisvitund – þá ætti BYD Sealion 7 að vera ofarlega á listanum.

Ítarlegri umfjöllun um búnað og akstursupplifun í myndbandi.

Myndband

Helstu tölur

Verð: 7.990.000 – Design útgáfa

Afl: 530 hestöfl.

Tog: 690 Nm.

Hámarkshleðslugeta: 240 kW í hraðhleðslu og 11 kW í heimahleðslu

Drægi: 502 km. skv. WLTP.

Farangursými: 520/1789 ltr.

Þyngd: 2.4 tonn.

Lengd/breidd/hæð mm.: 4.830/1.925/1.620

Myndataka: Radek Werbrowski

Klipping myndbands: Pétur R. Pétursson

Reynsluakstur: Radek Werbrowski og Pétur R. Pétursson

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar