- Það er svolítið merkilegt í svona fámennu landi sem við búum í að hér skuli vera bílaklúbbar á heimsmælikvarða
Krúser er einn af þessum klúbbum en í hann eru skráðir margir af flottustu bílum landsins. Félagið samanstendur af sterkum hópi fólks sem hefur ódrepandi áhuga á bílum og öllu tengdu bílum og bílastússi.

Öflugur bílaklúbbur
Bílablogg hafði samband við Krúser fólkið og fór þess á leit við það að kíkja í heimsókn í sumar og safna myndum, myndböndum og jafnvel einhverjum bíltúrum. Það var auðstótt mál og í kvöld byrjum við á veislunni.

Bílaklúbburinn Krúser var stofnaður formlega í Mars 2006. Samkomur eru haldnar öll fimmtudagskvöld í húsakynnum Krúser að Höfðabakka 9 og hefjast kl. 19.00. Ef vel viðrar mæta félagar á glæsivögnum sínum og taka rúnt um bæinn á eftir.
Klúbburinn heldur árlega veglega Bílasýningu sem hefur ávallt verið vel sótt og er sífelld aukning á meðlimum og bílum.






Fimmtudagskvöld eru bílakvöld

Fimmtudagar eru Krúser dagar. Þá hittast meðlimir klúbbsins í húsnæði þeirra að Höfðabakka 9. Félagsheimili þeirra Krúsermanna er nánast eins maður komi inn í gamla kvikmynd. Aðstaðan er ekki ólík flottu börunum sem sér í kvikmyndum frá fjórða og fimmta áratugnum. Guðfaðirinn kemur eiginlega fyrst upp í hugann.








Við mættum um kl. 18 og fórum beint í Tasty bílinn og fengum okkur gómsæta hamborgara. Eitthvað sem Krúser menn eru alvanir að viðhafa á fimmtudagskvöldum.
Þarna úir og grúir af allskyns myndum og fróðleik en fyrst og fremst er þarna fullt af mörgum af flottustu bílum landsins. Á veturna hittast menn gjarnan í félagsheimilinu sem frekar má segja að sé eins og setur e. mansion eða búgarður. Oft á tíðum er boðið upp á tónlistaratriði þar sem bæði þekktir og minna þekktir listamenn leika – enda er svið á staðnum eins og á alvöru krám.

Í sumar munum við fá að fylgjast með starfseminni og að sjálfsögðu segja ykkur frá köggunum og sögum tengdum þeim.
Myndir: Dawid Galiński og Pétur R. Pétursson
Umræður um þessa grein