Við tókum Guðfinn Eiríksson, stjórnarmann í Bílaklúbbnum Krúser, tali eftir þáttöku hans á Västerås Summermeet sem fram fór fyrir skömmu í Svíþjóð.

Hvernig kom til að þú fórst á Västerås Summermeet?
„Við í Krúser höfum alltaf haft mikinn áhuga á Power Big Meet, sem áður var haldin í Västerås, en hún flutti yfir til Lidköping árið 2017 eftir skipulagsdeilur við borgina. Þá ákváðu bílaáhugamenn í Västerås að stoppa ekki og stofnuðu sína eigin hátíð, Västerås Summermeet, sama ár. Mér fannst tilvalið að skella mér núna og sjá hvernig þessi nýja hátíð stæði sig – og það var ótrúleg upplifun.“








Hvernig var stemningin á staðnum?
„Þetta var algjör veisla fyrir bílaáhugafólk. Það voru um 5.000 bílar, aðallega klassískir amerískir, ásamt ótal sölubásum með varahluti, föt, skraut og alls konar bílatengda hluti. Það var líka tískusýning í anda fimmta og sjöttu áratugarins, rokkabillý hárgreiðslur og lifandi tónleikar með klassísku rokki – allt gert til að fanga þennan gamla ameríska tíðaranda.“









Var eitthvað sem stóð sérstaklega upp úr?
„Já, klárlega kvöldrúnturinn. Þegar kvölda tók fóru allir þessir bílar út á rúntinn í gegnum bæinn og það var eins og allt samfélagið tæki þátt. Fólk mætti með fjölskyldurnar, sátu meðfram götunum, keyptu sér góðan mat úr matarvögnum og horfðu á bílana aka fram og til baka langt fram á kvöld. Það er þessi stemning sem heillar mig mest – þegar bílamenningin verður hluti af samfélaginu.“












Hvernig lýsir þú þessari hátíð fyrir þá sem ekki þekkja hana?
„Þetta er svo miklu meira en bílasýning – þetta er risastór menningarhátíð. Svíar hafa ótrúlega mikla ástríðu fyrir klassískum amerískum bílum, og það er sagt að í Svíþjóð séu fleiri klassískir amerískir bílar á mann en í Bandaríkjunum sjálfum. Þessi sýning endurspeglar það algjörlega. Það koma bílar víðsvegar að, frá Þýskalandi, Noregi, Finnlandi, Danmörku og fleiri löndum, bara til að taka þátt.“

Hvað færir svona ferð ykkur í Krúser?
„Það skiptir miklu máli fyrir okkur að viðhalda tengslum við alþjóðlega bílamenningu og fá innblástur. Við í Krúser viljum halda þessum gömlu flottu bílum á götunni, skapa samstöðu meðal félagsmanna og efla tengsl við önnur klúbbfélög, bæði hér heima og erlendis. Svona ferð gefur manni ótrúlega orku og hugmyndir til að nýta í starfi klúbbsins.“

Myndir: Guðfinnur Eiríksson
Myndband: Guðfinnur Eiríkssson
Umræður um þessa grein