Ágætis jeppabyrjun
Á sínum tíma þótti það furðulegt að BMW hefði ráðist í að hefja sölu á smájeppa. Núna þegar þeir hafa lagt sig fram í tíu ár við að framleiða og þróa þennan minnsta jeppa sinn er án efa hægt að segja að þeir sem höfðu efasemdir fyrst þurfa nú að éta ofan í sig þau orð að „BMW getur alls ekki framleitt góðan smájeppa.“
Ég var frekar spenntur þegar ég fékk að prófa X1 sem nýlega kom með uppfærðu útliti. Núverandi bíll er búinn að vera í framleiðslu síðan árið 2015 og því kominn tími á að uppfæra útlit og búnað. BMW mönnum tókst það ágætlega og er þetta prýðis uppfærsla.

Framendanum var forðað frá því að fá grillið í yfirstærð og hjálpar það mjög til við að X1 haldi áfram að vera gífurlega vel útlítandi sportjeppi.

Lýtalækningar hönnunarteymis BMW á afturendanum heppnuðust vel. Þar er að finna ný ljós, með LED lýsingu, afturstuðarinn er kominn í lit bílsins og púströrin hafa verið stækkuð! Á meðan að aðrir framleiðendur berjast við að láta púströrin hverfa þá stækkar BMW þau. Ég fíla það!
Uppfært innanrými
Þær breytingar sem núna ganga yfir X1 eru ekki bara útlitslegar. Einnig er verið að uppfæra afþreyingarkerfi bílsins og innanrými. Efnisval þar hefur verið bætt frá fyrri kynslóð og er nú með örlítið meiri lúxus yfirbragð yfir sér en áður. Nýir saumar í mælaborði koma nú í sama lit og þú velur sætin þín í og loksins er hægt að fá stemningsslýsingu um allt. Það er án efa aukahlutur sem þú ættir ekki að hika við að velja.


Loksins er svo hægt að fá 10.25 tommu snertiskjá BMW í X1. Hann er þægilega bjartur, skýr og allar upplýsingar auðveldar í álestri sem er hentugt ef þú ert eins og tengdamóðir mín og neitar að nota gleraugu.

Best er þó lausn BMW við því hvar í ósköpunum þú átt að geyma símann þinn á meðan þú ekur um. Efst í hólfi á milli sæta eru þeir búnir að koma fyrir þráðlausri hleðslu alveg sérstaklega ætlaðri fyrir farsíma. Þar er einskonar smella sem þú rennir símanum í og hann helst fastur á sínum stað og hleður sig á meðan. Apple Carplay í BMW er líka þráðlaust þannig að þú getur tekið hvítu Apple snúruna þína og hlaðið eitthvað annað úr USB tengjum bílsins. Ef þú átt hinsvegar Android síma ertu fastur í að nota afþreyingarkerfi BMW og leiðsögukort þeirra um land vort því Android Auto er ekki í boði.


Aksturseiginleikar á við fólksbíl
Að aka BMW X1 svipar mjög til aksturs á fólksbíl. Þægilegt er í alla staði að ganga um bílinn. Afturhurðir opnast vel og lítið mál er að koma sér þægilega fyrir undir stýri frammi í. Þar hjálpar mikið að hæð bílstjórasætisins svipar til mjaðmahæðar meðaleinstaklings og því auðvelt að koma sér inn og út úr BMW X1.

Ekki er mjög hátt undir X1 og því ekki stórt skref upp í bílinn sjálfan. Háar hurðirnar gera svo enn auðveldara að smokra sér inn.

Þegar ekið er af stað finnur maður lítið fyrir akstrinum og er hann afslappandi og þægilegur. Sjálfskiptingin er uppfærð fyrir þessa útgáfu af bílnum og er hún þægileg í alla staði. Einstöku sinnum úti á vegi fannst mér hún full lengi að taka við sér upp brattar brekkur og þurfti hún oft að hoppa um tvo gíra þegar hún loksins skipti sér.
Vélin í bílnum sem ég hafði til prófunar var 1.8 dísel xDrive og er hún feikinóg fyrir bíl í þessum stærðarflokki. Mest hlakka ég þó til að taka í BMW X1 25e tengitvinnbíl sem er á leiðinni og ætti að koma snemma á næsta ári samkvæmt sölumönnum BMW á Íslandi. Ég hlakka mikið til að prófa þá útgáfu og sjá á hvaða verði hann verður í boði.

Lokaorð
BMW X1 er kannski minnsti sportjepplingur sem í boði er frá hinum þýska framleiðanda en hann gefur stóru bræðrum sínum ekkert eftir. Hann mætir á svæðið vel útlítandi og tilbúinn til að takast á við íslenskar aðstæður. Ég mæli með BMW X1 fyrir alla þá sem eru að leita sér að sportjepplingi með góða aksturseiginleika, flott útlit og hlaðinn ríkri arfleið hinni bæversku mótorverksmiðju. Taktu hann X-Line eða Sport-Line og hakaðu í eins mörg aukahlutabox og veskið eða kreditkorið leyfir. Liturinn Storm Bay kemur á óvart og mæli ég með honum.


Ef þér lýst á’ann, keyptann!
Helstu tölur:
Verð frá: 5.890.000 (Okt. 2019)
Eyðsla frá: 4.6 l/100km
CO2 losun frá: 141 g/100km
Lengd/Breidd/Hæð: 4.447/1.821/1.598mm
Veghæð: 183mm
Skott: 505 lítrar






