Í tilefni af reynsluakstri nýjasta BMW bílsins á markaðnum duttum við niður á þennan gullmola á vefsíðunni Classic Trader. Hann er hvítur eins og I4 rafbíllinn sem við ókum um nýliðna helgi.

Þessi bíll er ekinn aðeins 53 þúsund kílómetra frá upphafi og var í eigu sömu konunnar frá því að bíllinn kom nýr á götuna í Portúgal árið 1971.
Kona þessi átti bílinn allt til ársins 2016 en síðan hefur hann verið í eigu tveggja bílasafnara.

Ósnertur
Bíllinn er alveg óuppgerður og lúkkar toppvel segir í sölulýsingu en myndirnar af bílnum ættu ekki að ljúga neinu.
Lakkið er í óaðfinnanlegu ástandi, mjög góð glæra.
Allir suðupunktar ósnertir, allt króm og gúmmí einnig í fínu standi. Þá eru rúður upphaflegar einnig.


Inni í bílnum er sömu sögu að segja, innréttingin er eins og í nýjum bíl. Allt virkar eins og á að gera.
Vélin malar eins og köttur
Og enn heldur lýsingin áfram á sölusíðu bílsins. Það er erfitt að lýsa upplifunninni við að aka þessum bíl. Vélin malar eins og köttur og ekkert hökt eða hnökrar í gangi hennar. Gírkassi virðist vera jafn lipur og þegar bíllinn var nýr.

Þá er tekið fram að enginn leki sé í þessum bíl.
Bíllinn heitir BMW 2002 „02 series” og framleiðslukóði á þessari gerð var E10. Þetta er 2 dyra stallbakur og fjögurra strokka 2 lítra vélin er að gefa um 100 hö.

Demantur í líki bíls
Ofangreind lýsing á við notaðan fornbíl sem til sölu er í Portúgal. Og hún er ansi ótrúleg ef svo má segja. Miðað við þessar lýsingar er bíllinn eins og nýr. Svo þegar myndir eru skoðaðar er ekki annað hægt að sjá en allt ofangreint sé satt – allavega hvað útlit varðar.






Lagði ákveðinn grunn
1971 BMW 2002 er klassískur bíll sem tilheyrir BMW 02 Series, sem var framleiddur af þýska bílaframleiðandanum BMW frá 1966 til 1977. 2002 módelið er sérstaklega mikilvægt þar sem það gegndi stóru hlutverki í að byggja upp orðspor BMW sem framleiðanda bíla með sportlega aksturseiginleika

Smár en knár
2002 státar af fyrirferðalítilli og stílhreinni hönnun, með einkennandi „kringlóttum“ aðalljósum, glæsilegu „nýrna“ grilli og einstaklega hreinu og einföldu sniði.
Hönnunin var undir áhrifum frá svokölluðum Neue Klasse (New Class) fólksbílunum, sem hjálpaði til við að yngja upp ímynd BMW á sjöunda áratugnum.

Bíllinn var knúinn af 2.0 lítra fjögurra strokka vél og er vísað til þess í gerðarheitinu „2002“. Hann var fáanlegur í ýmsum útgáfum, bæði með einföldum eða tvöföldum blöndungi og mismunandi eldsneytis innspýtingu.
Þessar vélar framleiddu nokkuð gott afl miðað við það sem var í boði á þessum tíma og buðu upp á líflega og skemmtilega akstursupplifun.



Topp aksturseiginleikar
2002 var rómaður fyrir framúrskarandi aksturseiginleika, sem gerði hann að vinsælum kosti meðal kaupenda. Afturhjóladrif bílsins var vel hannað og smæð bílsins stuðlaði að lipurri meðhöndlun og stýringu.

BMW 2002 er oft eignaður heiðurinn af því að vera sá bíll sem lagði grunninn að sportlegum fjölskyldubílum, sem að lokum urðu aðalsmerki BMW.
Hann hjálpaði til við að ryðja brautina fyrir velgengni fyrirtækisins með sportlegri “3 Series” gerðum sínum.



Í dag er BMW 2002 nokkuð eftirsóttur meðal klassískra bílaáhugamanna og safnara. Vel varðveittir bílar í góðu ástandi eru mjög eftirsóttir og menn eru tilbúnir að greiða nokkuð háar upphæðir.
Þess má geta að 2002 var ekki aðeins vinsæll á heimamarkaði sínum í Þýskalandi heldur náði einnig verulegu fylgi í Bandaríkjunum og öðrum heimshlutum. Það voru sportlegir eiginleikar, stíll og hönnun sem sköpuðu óskoraðar vinsældir þessa sérstaka BMW bíls.
Umræður um þessa grein