Subaru Solterra er aflmikill og skemmtilegur bíll

TEGUND: Subaru Solterra

Árgerð: 2023

Orkugjafi:

Rafmagn

Það lá beinast við að taka Subaru Solterra strax á eftir hinum nýja Toyota BZ4X til að sjá hvort einhver væri munurinn. Hann er reyndar lítill en bara nafnið Subaru...

Alf, útlit og fjórhjóladrif
Stýri skyggir á mælaborð
165
DEILINGAR
1.5k
SMELLIR

Subaru Solterra er aflmikill og skemmtilegur bíll

Það lá beinast við að taka Subaru Solterra strax á eftir hinum nýja Toyota BZ4X til að sjá hvort einhver væri munurinn. Hann er reyndar lítill en bara nafnið Subaru gefur manni nú svolítið fjórhjóladrifið traust. Bíllinn er að öllu leyti þrælskemmtilegur í akstri, aflmikill og fer mjög vel með mann.

Subaru Solterra er flottur fjórhjóladrifinn fólksbíll með fína veghæð.

Við tókum stuttan rúnt á bílnum og fórum aðeins út fyrir borgarmörkin í leit að sköflum og skít þó ekki ætluðum við að kaffæra nýjum Subaru í einhverjum ofurtorfærum bara af því að hann er með aldrif og er fyrsti rafdrifni Subaruinn.

Fór létt með það

Hins vegar ókum við honum létt og lipurlega yfir hóla og hæðir fyrir ofan Hafravatn en þar sýndi hann okkur sínar bestu hliðar.

Þessi Solterra kemur á 20 tommu felgum og það gefur bílnum skemmtilegan svip.

Það sem maður tekur fyrst eftir þegar maður hefur aksturinn er að hann kemst vel áfram. Fullt af afli úr tveimur rafmótorum, öðrum að framan og hinum að aftan.

Tvöhundruð og átján hestöfl sem svara um leið og stigið er á orkugjöfina.

Togið er um 335 Nm. og þessi samsetning er að svínvirka. Bíllinn æðir áfram.

Snjórinn vefst ekki fyrir þessum bíl.

Háþróað fjórhjóladrif

Subaru býr yfir framúrskarandi fjórhjóladrifi sem vakið hefur athygli fyrir öryggi og getu.

Bíllinn er með uppfært kerfi sem Subaru kallar X-Mode.

Þar ertu kominn með sjálfvirkt torfærukerfi en það eru nokkrar stillingar sem hægt er að velja um og bíllinn sér um rest.

Snjór og aur er ekki vandamál á nýjum Subaru Solterra.

Toyota og Subaru unnu að þessum fyrsta alrafdrifna bíl í sameiningu.

Fullt af þægindum

Þú getur stillt orkuendurheimtina með flipum í stýri og þá hleður bíllinn umframorku sem ekki er notuð til að knýja hann áfram – inn á rafhlöðuna.

Drægni skv. WLTP staðlinum er uppgefin um 465 km.

Það þýðir sennilega að bíllinn er að fara þetta um 250 km. eins og tíðarfarið er núna.

Reyndar sýndi eyðslumælir bílsins að hann væri að eyða um 35 kwst. á hverja 100 kílómetra en við ókum reyndar mjög létt og vorum ekki að spara orku.

Ágætt skottpláss og rafknúinn afturhleri.

Stór og mikill stokkur er í miðju, ekki ósvipaður og í Hyundai Kona en hann gæti hugsanlega truflað lappalengri einstaklinga.

Mælaborðið er flott og skemmtilega hannað og efnisval athyglisvert. Ekkert hanskahólf er í bílnum sem er reyndar allt í fínu lagi því það eru geymsluhólf hingað og þangað um allan bíl.

Hanskahólf er sennilega bara að syngja sitt síðasta – það er enginn að geyma hanskana sína þar lengur.

Furðuleg mælaborðshönnun

Stýrið skyggir á mælaborðið en hægt er að hækka og lækka stýrið og þú getur líka dregið það fram og aftur. Það er hægt að stilla það þannig að þú sjáir á allt mælaborðið en það svið er frekar lítið.

Þetta er reyndar svona á fleiri nýjum bílum í dag – skemmst er að minnast Peugeot 3008 en þar skyggir stýrið eilítið á mælaborðið líka.

Stýrið skyggir aðeins á mælaborðið – gæti farið í taugarnar á einhverjum.

Skemmtilegur bíll

Aksturseignileikar bílsins eru fínir. Hann liggur vel og stýrið er nákvæmt og temmilega létt.

Hæð undir lægsta punkt er um 20sm. og undirvagninn alveg sléttur. Þar sem Subaru Solterra, líkt og aðrir rafbílar hafa mjög lágan þyngdarpunkt þ.e. þyngdin er öll neðst í bílnum liggur hann ákaflega vel og þú finnur það aðeins í akstrinum.

Fjöðrun er frekar stíf en bíllinn fer samt mjög vel með mann í akstri á frekar holóttum og leiðinlegum veginum á leið upp að Hafravatni.

Mælaborðið er flott og skemmtileg hönnun og efnisval í innréttingunni.
Góðir 20 sm. undir lægst punkt.

Subaru Solterra er vel heppnaður og skemmtilegur bíll, frumraun Subaru í rafbílaframleiðslu en bíllnn er samstarfsverkefni Toyota og Subaru.  

Verðið er þokkalegt og á pari við samkeppnina miðað við fjórhjóladrifinn rafbíl.

Hentar mörgum

Okkar mat er að Subaru Solterra henti breiðum hópi kaupenda. 452 lítra farangursgeymslan er ívið minni en til dæmis í VW ID.4 en rúmar samt mjög vel. Auðvelt er að ganga um bílinn, hurðir opnast vel og afthurhlerinn er rafdrifinn.

Sætin eru vel formuð og þægileg – halda vel utan um mann í akstri.

Fín bakkmyndavél

Margmiðlunarkerfi bílsins er búið stórum miðjuskjá sem sýnir reyndar ekki mikið meira en helstu upplýsingar um orkunotkun, hljómkerfi og blátannar símatengingu.

Hægt er að tengja símann við bílinn og nota bæði stýrikerfin – Apple CarPlay og Android Auto.  Bakkmyndavélin er ágæt.

Tvö USB-C hleðslutengi og upphitað aftursæti.
218 hestöfl.

Það er án efa mismunandi hversu kaupendur meta skjákerfi bíla við val á bíl en ef við eigum eitthvað að flokka þessi kerfi eru tæknistigið í lægri kantinum í bílum frá Toyota borið saman við til dæmis Volkswagen og Peugeot.

Hins vegar nær enginn bílaframleiðandi að narta í hælana á Tesla hvað þessa tækni varðar.

En bíllinn keyrir ekki á skjánum einum saman – ennþá.

Helstu tölur:

Verð frá 7.590.000 kr. og upp í 8.490.000 kr. Reynsluakstursbíll Solterra LUX+

Rafhlaða: 73 kWh.

Drægni: 416-465 km. eftir gerð.

0-100 km á klst.: 6.9 sek.

CO2: 0 g/km.

L/B/H: 4690/1860/1650

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar