Stór sýningarhelgi hjá BL
Með hækkandi sól koma farfuglarnir og við förum að treysta á að sumarið sé að koma.
Á þessum árstíma eru önnur merki um það að sumarið sé að koma eru bílaumboðin þegar þau halda kynningar á nýju bílum, frumsýna kannski nýja bíla og kynna uppfærslur á öðrum.
Þau hjá BL eru engin undantekning á þessu og núna um helgina er mikið um að vera hjá BL við Sævarhöfðann og hjá hliðarfyrirtækjum þeirra við Hesthálsinn.
Þar má nefna frumsýningu á alveg nýjum Subaru Outback og rafbílnum Mini Cooper SE og við Hesthálsinn eru Jaguar LandRover að sýna Land Rover Discovery 5 og Defender auk Jaguar E-PACE PHEV.
En skoðum þetta aðeins nánar:
Frumsýning á nýjum og endurhönnuðum Subaru Outback
Ný og endurhönnuð kynslóð hins vinsæla Subaru Outback verður frumsýndur hjá BL við Sævarhöfða á laugardaginn, 8. maí milli kl. 12 og 16.
Hinn fjórhjóladrifni Outback, sem fór fyrst á markað árið 1995, kemur nú á alveg nýjum undirvagni (Subaru Global Platform, SGP) og með léttari og sterkari yfirbyggingu sem auka enn á öryggi bílsins í árekstrum vegna 40% meiri orkuupptöku í höggum á yfirbygginguna.
Breytingarnar á bílnum hafa einnig aukið aksturseiginleikana ásamt því sem nýjungar í farþegarými bæta þægindi ökumanns og farþega.
Nýr Outback hefur þegar staðist nýja MPDB árekstrarprófið hjá Euro NCAP sem kynnt var 2020 og er kröfuharðasta öryggisprófið sem Euro NCAP hefur hannað til þessa.

Meira öryggi og aukin dráttargeta
Nýr Outback er nú m.a. búinn uppfærðri og aflmeiri Boxervél sem hefur tveggja tonna dráttargetu. Þá er hann einnig kominn með 11,6 tommu snertiskjá með upplýsingakerfi Subaru, nýja kynslóð öryggiskerfisins EyeSight með fjölda eiginleika, þar á meðal nýja og enn fullkomnari andlitsgreiningu með víðara sjónarhorni til að greina hættur í umferðinni.
90% íhluta vélar og skiptingar ný hönnun
Fjögurra strokka 2,5 lítra Boxervél Outback hefur verið endurhönnuð frá grunni og nú eru um 90% allra íhluta vélarinnar og Lineartronic CVT gírskiptingarinnar ný hönnun.
Meðal annars hefur þjöppuhlutfallið verið aukið, gírskiptingin nær yfir breiðara svið en áður, sem leitt hefur til 22% minna orkutaps miðað við fráfarandi gerð, ásamt því sem breytingarnar hafa í för með sér aukið vélartog og þar með meiri afköst í beygjum og upp brekkur.
Breytingar á fjöðrunarkerfi
Einnig hafa verið gerðar breytingar á fjöðrunarkerfi Outback til að bæta aksturseiginleika og þægindi, m.a. með aukinni slaglengd fjöðrunarinnar og betri hljóðeinagrunarefnum sem viðhalda betur þægindum farþega á ójöfnum vegum og vegslóðum.

Meira pláss í farþega- og farangursrými
Þá er farþegarými Outback einnig rýmra en í fráfarandi gerð. Þannig hefur fjarlægð milli fram- og aftursæta verið aukið um tæpa 11 sentimetra ásamt því sem meira bil er milli framsæta. Einnig hefur farangursrýmið verið stækkað og opnunarbreidd afturhlera aukin til að bæta aðgengi auk þess sem hlerinn er nú með snertilausri og rafdrifinni opnun.
Frumsýning á breyttri útgáfu rafbílsins MINI Cooper SE

BL við Sævarhöfða kynnir á morgun, laugardaginn 8. maí milli kl. 12 og 16, uppfærða útgáfu hins snaggaralega framhjóladrifna rafbíls MINI Cooper SE.
Bíllinn, sem framdrifinn, er þriggja dyra borgarbíll með 184 hestafla rafmótor sem skilar honum á rúmum sjö sekúndum úr kyrrstöðu í 100 km/klst. Rafhlaðan er 33 kW sem skilar 270 Nm togi og er drægi bílsins um 233 km samkvæmt mælistaðlinum WLTP.
Ný fram- og afturendi
Helstu breytingar sem orðið hafa á bílnum frá því að hann var fyrst kynntur í janúar á síðasta ári eru auk gerðarheitisins, sem er í dag Classic trim, að bíllinn hefur fengið nýja hönnum á aðalljósum framan og að aftan eru Union Jack afturljósin með bresku fánalitum nú meðal staðalbúnaðar.
Vandaðra farþegarými
Í farþegarými MINI Cooper SE er komið uppfært mælaborð, 8,8“ snertiskjár og nýtt stýrishjól auk nýrrar stemningslýsingar í rýminu. Þá eru sætin og sætisefnin einnig ný, þar sem samsetning leðurs og taua er staðalbúnaður og val um leðursæti.
Meiri staðalbúnaður
Þá hefur staðalbúnaður MINI Cooper SE einnig verið aukinn frá fyrstu útgáfu. Meðal annars er leiðsögukerfi með Íslandskorti nú meðal nýs staðalbúnaðar, Apple CarPlay, þráðlaus símahleðsla og hleðslusnúra (Type 2) og upphitað stýrishjól. Þá eru svartar 16” svartar álfelgur einnig staðalbúnaður auk varmadælu og háglans Piano glans útlitpakka svo fátt eitt sé nefnt.
Hægt er að kynna sér nánar ríkulegan staðalbúnað MINI Cooper SE á bl.is.
Hreinn MINI
MINI Cooper SE nýtur fjölmargra tæknilausna og reynslu frá móðurfyrirtækinu BMW. Þyngdarbíllinn er mjög lágur vegna staðsetningar rafhlöðunnar neðst í undirvagninum og eru aksturseiginleikar þessa lágreista borgarbíls sérlega skemmtilegir og snarpir eins og í sportbíl.
Land Rover kynnir nýjan og verulega uppfærðan Discovery 5
Það verður mikið um að vera hjá Jaguar Land Rover við Hestháls í Reykjavík á laugardaginn, 8. maí milli klukkan 12 og 16, þegar frumsýndir verða þrír nýir og uppfærðir bílar í sýningarsalnum.
Þar verður um að ræða verulega uppfærðan Land Rover Discovery 5 með mildri tvinntækni (Mild Hybrid), nýjan Land Rover Defender 90, sem er þriggja dyra útgáfa jeppans sem margir hafa beðið eftir með óþreyju, og loks uppfærðan Jaguar E-Pace sem nú kemur í fyrsta sinn í tengiltvinnútfærslu (PHEV).

Útlitsbreytingar og enn meiri þægindi
Verulegar uppfærslur hafa verið gerðar á hinum vinsæla Land Rover Discovery sem kynntur verður á laugardag.
Í ytra útliti eru breytingarnar augljósar, sérstaklega á ásýnd framenda þar sem blasa við endurhannað grill, ný aðalljós með áberandi díóðuljósum (LED) og einnig nýjum línum í stuðara.
Að aftan er einnig kominn endurhannaður stuðari auk þess sem bíllinn hefur fengið nýjar og breyttar álfelgur.
Breytingarnar á Discovery 5 eru þó ef til vill enn augljósari í farþegarýminu því Discovery hefur fengið alveg ný og endurhönnuð rafstýrð sæti með nýjum efnum, nýtt mælaborð framan við ökumann auk nýs og stærri HD miðjuskjás fyrir nýja upplýsinga- og afþreyingarkerfið Pivi Pro frá Land Rover.
Þá er framrúðuskjár (head-up display einnig í boði sem varpar ákveðnum grunnupplýsingum á rúðuna til hægðarauka fyrir ökumann.
Sex strokka vélar og háþróuð tvinntækni
Nýr Land Rover Discovery 5 er nú eingöngu í boði með nýjum sex strokka Ingenium bensín- og dísilvélum og að auki með nýrri 48V mildri tvinntækni sem skila meiri afköstum og eldsneytisnýtingu.
Vélarnar eru á meðal þeirra fyrstu á markaðnum sem kynntar eru í sjö manna lúxusbíl í þessum gerðar- og stærðarflokki sem uppfylla nýja Euro 6d-dísilstaðalinn fyrir í Evrópu auk RDE2-vottunarinnar.
Nýr Land Rover Discovery 5 er í boði með 250 eða 300 hestafla Ingenium dísilvél auk þess sem hægt er að sérpanta bílinn með 300 eða 360 hestafla Ingenium bensínvél. Hægt er að kynna sér nánar ríkulegan staðal- og aukabúnað nýs Discovery 5 á jaguarlandrover.is.
Nýr Land Rover Defender í þriggja dyra útfærslu frumsýndur
Jaguar Land Rover við Hestháls frumsýnir á laugardaginn, 8. maí, nýjan Land Rover Defender 90 sem er þriggja dyra útgáfa bílsins.

Þola mikið álag
Lengri gerð bílsins, Defender 110, kom á markað í júní á síðasta ári á Íslandi og hlaut hann strax góðar móttökur aðdáenda.
Síðan þá hafa margir þjarkanna ýmsa fjöruna sopið í hálendisferðum auk þess sem Arctic Trucks hefur breytt nokkrum bílum fyrir bæði 33“ og 35“ jeppadekk til að auka enn á hæfni þeirra í erfiðari ferðum.
Ekta Land Rover
Land Rover Defender 90 er í grunninn nákvæmlega eins og Land Rover Defender 110 nema bara 43 cm styttri fyrir aftan aftari sætisröðuna, þar sem lengri gerð bílsins býr að meira rými fyrir farangur og tvo aukafarþega í tilviki sjö manna útgáfunnar.
Defender 90 býr að sömu gæðum í farþegarými, vali um sömu vélar og drifbúnaðurinn er nákvæmlega sá sami og í Defender 110.
Þriggja lítra 200 hestafla dísilvél
Til að byrja með verður þó mesta áherslan lögð á að bjóða bílinn með þriggja lítra dísilvélinni í 200 hestafla útfærslu svo koma megi sem best til móts við stærsta viðskiptavinahópinn hér á landi, en mikil samkeppni ríkir um Defender milli söluaðila um allan vegna mikillar eftirspurnar eftir bílum.
Hægt er að kynna sér nánar staðal- og aukabúnað Defender 90 á landrover.is.
Þess má geta í lokin að í lok síðasta mánaðar hafði nýr Defender unnið til fimmtíu alþjóðlegra verðlauna, nú síðast hönnunarverðlaun World Car Awards sem best hannaði bíll ársins 2021.
Jaguar E-Pace nú eingöngu í tengitvinnútfærslu PHEV
Jaguar E-Pace var fyrsti sportjeppinn sem framleiðandinn kynnti á markaðnum og var frá upphafi, 2017, boðinn bæði framdrifinn eða með sídrifi.
Nú kynnir Jaguar nýja kynslóð E-Pace í tengitvinnútfærslu (PHEV) þar sem sameinast ný og létt 1,5 lítra þriggja strokka 200 hestafla bensínvél við drifrásina að framan og 80kW 109 hestafla rafmótor fyrir drifrásina að aftan auk 15kWh lithium-ion rafhlöðu undir gólfinu.
Rafmótorinn býður allt að 55 km akstursdrægi í rafstillingunni sem hentar flestum daglegum akstri til og frá vinnu í þéttbýli.

309 hestafla E-Pace PHEV
Með nýju drifrásinni er þessi nýi 309 hestafla E-Pace PHEV aðeins rúmar 6 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst, losun koltvísýrings er frá 44 g/km og eldsneytisnotkun í blönduðum akstri er frá 2 l/100km.
Aðeins tekur um 30 mínútur að hlaða E-Pace PHEV frá 0-80% í 32kW DC hleðslustöð eða stærri.
Hægt er að velja milli þriggja akstursstillinga í E-Pace PHEV eftir eðli ökuferðarinnar til að hámarka orkunýtni og afköst auk þess sem sídrifið aftengist sjálfkrafa í sparakstri (Eco).
Þá hefur E-Pace PHEV einnig fengið nýjan og stærri 11,4“ miðlægan snertiskjá auk nýja upplýsinga- og afþreyingarkerfisins Pivi Pro auk þess sem hægt er að sækja hugbúnaðaruppfærslur yfir netið. Þá státar nýr E-Pace PHEV enn fremur af ákveðnum útlitsbreytingum, svo sem breyttum línum í höggdeyfum framan og aftan og fleiri atriða til frekari útlitsfágunar.
Hægt er að kynna sér frekari upplýsingar um staðal- og aukabúnað E-Pace PHEV á jaguarlandrover.is.