Hár, breiður, lengri og fullur af lúxus
Í dag frumsýndi Land Rover á Íslandi splunkunýjan Range Rover og Range Rover Sport.
Það er ekki annað hægt að segja en að maður fyllist lotningu þegar maður kemur inn í sýningarsal fullan af splunkunýjum Range Rover bílum.

Fullur salur af flottum bílum
Þannig var það hjá Land Rover á Íslandi í dag þegar við kíktum við á Hesthálsinn.
Valinkunnur hópur sölumanna tók á móti manni um leið og komið var inn fyrir.
Boðið var upp á léttar veitingar um leið og menn börðu bílinn augum.


Það verður að viðurkennast að upplifunin var ansi mögnuð. Bíllinn er enn betur búinn en áður og fágunin er aðdáunarverð.
Að setjast inn í nýja Range Roverinn vekur upp þá tilfinningu að maður sé lítill, bæði á hæð og breidd, þvílíkt er plássið í þessum bíl.


Plássið maður
Aftursætin minna á meðalstóran fundarsal og útsýnið er dásamlegt yfir græjurnar fram í.
Að auki er kominn enn lengri Range Rover en hann býður upp á sjö sæta tilhögun í fyrsta skipti í sögu bílsins.


Þar sem við höfum ekki ekið bílnum, bara lesið um gæðin gerum við okkur fulla grein fyrir að þessi bíll er fullur af afli og tæknibúnaði sem gerir aksturinn án efa eftirminnilegan.
Spurning hvort námskeið á græjurnar fylgi ekki með?


Mikið fyrir peninginn
Mér finnst verðið svo sem ekki skipta máli í þessu tilviki enda menn kannski ekki að hreinsa upp úr veskjum sínum sem eru að kaupa svona bíl – samt, ég hafði það neðst í greininni bara svona af gömlum vana.


Að sjálfsögðu munum við reynsluaka þessum fáki sem fyrst – en þangað til verður leðurlyktin af „orginal” leðrinu að duga.


Nýjasta tækni og lúxus
Allar gerðir Range Rover Sport eru að sjálfsögðu búnar allri nýjustu þæginda- og driftækni Land Rover ásamt einstökum þægindabúnaði í farþegarýminu en verð Range Rover Sport er frá kr. 17.490.000.

Range Rover er, eins og í tilfelli Range Rover Sport, boðinn í mismunandi vélaútgáfum, bæði sex strokka dísilvélum, sem gefa allt að 350 hestöfl, og einni átta strokka 530 hestafla bensínvél.
Á næsta ári kemur bíllinn svo í tengitvinnútgáfu, annars vegar 440 hestöfl og hins vegar 510 hestöfl. Verð á Range Rover er frá kr. 21.890.000.



Umræður um þessa grein