Sala í hefðbundnum station-bílum í Evrópu dregst saman
– en mun lifa áfram vegna mikillar eftirspurnar á þýskum, sænskum og tékkneskum mörkuðum

Stationbíllinn – langbakurinn, skutbíllinn eða hvað menn vilja nefna þessa gerð fólksbíla – sem hefur verið stöðugt á evrópskum vegum síðan á sjötta áratugnum – stendur frammi fyrir stöðugum samdrætti þar sem bílaframleiðendur yfirgefa þetta svið bílaframleiðslunnar fyrir ökutæki með meira alþjóðlega skírskotun eins og jeppa og „crossover“.
Stationbílar voru áður vinsælir, sérstaklega hjá vaxandi fjölskyldum, vegna þess að þeir buðu upp á meira farangursrými en hefðbundnir fólksbílar með skotti. Í dag er þó hægt að fullnægja þeirri þörf fyrir pláss í jeppum og „crossover“-bílum, sem á síðasta ári náðu 34 prósent af evrópska markaðnum samanborið við 11 prósent fyrir stationbíla, samkvæmt sölugögnum frá JATO Dynamics.
Markaðurinn mun minnka í 1,5 milljónir stationbíla árið 2025 úr 1,7 milljónum á þessu ári og tæpar 2 milljónir árið 2016, spáir greiningarfyrirtækið LMC Automotive. Salan lækkaði um 10 prósent í 863.626 á fyrri helmingi ársins.
Bílaframleiðendur með langa sögu um að smíða stationbíla, eða litla smábíla með hurð að aftan og sem nýtast því eins og hefðbundnir „stationbílar“ eins og Citroen, Nissan, Alfa Romeo og Honda bjóða þá ekki lengur í Evrópu. Toyota er komið niður í eina gerð en Renault, Peugeot og Ford eru aðeins með tvær gerðir. Ford gæti fallið í eina gerð ef þeir ákveða að hætta með Mondeo millistærðarstationbílinn sinn. Renault var með þrjá en hefur sagst ætla ekki að smíða slíkt afbrigði af nýja Clio litla bílnum sínum.
„Til að vera heiðarlegur, datt okkur í hug að koma með nýja gerð af Clio sem mætir þessum óskum, en á endanum ákváðum við að gera það ekki,“ sagði Olivier Brosse, sem er stjóri Renault fyrir smábíla.
Hann sagði að margir viðskiptavinir Clio myndu velja nýja litla jeppann Captur, sem hefur 81 lítra meira skottpláss en fyrri kynslóð.
Stór markaðshlutdeild í Evrópu
Stórt vandamál fyrir þessa gerð bíla er að þeir eru útbreiddir í Evrópu en nær ekki til annars staðar. Þótt stationbílar hafi einu sinni verið vinsælir í Bandaríkjunum hafa stationbílar nánast horfið þar, fyrst með tilkomu „minivan“-bíla og síðan með vaxandi eftirspurn eftir jeppum og pallbílum. Fyrr á þessu ári sagðist Volkswagen hætta með tvo síðustu stationbíla í Bandaríkjunum í lok ársins.
Evrópa stóð fyrir 72 prósent af sölu stationbíla á heimsvísu árið 2017, sýna gögn JATO. „Stationbílar eru aðeins vinsælir í Evrópu og þetta gæti verið góð ástæða til að hætta að framleiða þá á þessum krefjandi tímum,“ sagði Felipe Munoz, sérfræðingur JATO.
Jafnvel sumir evrópskir markaðir snúa baki við stationbílum. Á Ítalíu, til dæmis, nam þessi gerð bíla um 15 prósent af sölu árið 1999, en á fyrri helmingi þessa árs voru þeir 5 prósent.
Í Bretlandi voru stationbílar einnig 5 prósent af sölu fyrri hluta ársins en í Frakklandi voru þeir aðeins 4 prósent.
Staðfastir kaupendur
Það sem líklegt er til að bjarga stationbílnum frá útrýmingu er áframhaldandi mikil eftirspurn frá löndum í Norður- og Austur-Evrópu.
Stationbílar voru 17 prósent af sölu í Þýskalandi, stærsta markaði Evrópu, fyrstu sex mánuðina en í Svíþjóð áttu þeir 31 prósent hlut. „Þýskaland er stór markaður fyrir stationbíla og það er ekki að hverfa,“ sagði Pete Kelly, framkvæmdastjóri LMC Automotive.
Viðskiptavinir þar og á öðrum sterkum mörkuðum fyrir stationbíla eins og Hollandi, Belgíu, Póllandi og Tékklandi eru áfram hrifnir af þessum bílum.
„Stationbílar eru ekki á útleið algerlega vegna þess að það er til sterkur hópur kaupenda sem tengist þeim sterkum böndum“, sagði Kelly. Hjá þeim eru stationbílarnir betri en jeppar af tveimur meginástæðum – langri hönnun og stærri hleðslusvæðum að aftan. „Þú gætir séð einn eða tvo falla út en fyrir framleiðendur sem eru mjög háðir Evrópu og Þýskalandi eru stationbílar bestir,“ sagði hann.
Styrkur Skoda í Þýskalandi og heimamarkaður þeirra í Tékklandi voru lykillinn að því að Octavia Combi sstationbíllinn kláraði fyrri helming ársins sem númer 1 seldra stationbíla í Evrópu með miklum mun. Hann er svo vinsæll að Skoda smíðaði næstum tvöfalt fleiri slíka bíla samanborið við Octavia hlaðbakinn í Evrópu í fyrra, samkvæmt tölum fyrirtækisins.
Octavia Combi náði tæplega fjórðungi af sölu stationbíla á markaðinum sem var sá stærsti í Evrópu hvað varðar sölu. Sala Octavia lækkaði aðeins 2 prósent á fyrri helmingi ársins þrátt fyrir að nýja gerð sem koma mun snemma á næsta ári.
Næst stærsti markaðshlutinn er miðstærðaflokkurinn, þar sem Volkswagen Passat var söluhæstur.
Framleiðendur halda tryggð við þessa gerð
Helstu bílaframleiðendur halda áfram tryggð við þessa gerð bíla eftir að hafa komið tiltölulega seint inn í þennan hóp á níunda áratugnum.
Af þremur þýskum aðalvörumerkjunum var Audi söluhæst í fyrri hluta ársins með A4 Avant í nr. 2 í flokki millistórra og A6 Avant endaði í nr. 1 í stóra flokknum á undan BMW og Mercedes-Benz.
Stationbíllinn gæti hafa verið sleginn út vegna þróunar á jeppum en hann hefur líka nýtt sér það líka í formi upphækkaðra útgáfa sem þá fá lánaða útlitið frá torfærubílunum.
Cross Country útgáfa af V60 Volvo samsvaraði þriðjungi hinnar alþjóðlegu sölu millistærðarbílsins á síðasta ári, að sögn fyrirtækisins. Volvo býst við að hinn nýlega kynnti nýr V60 Cross Country muni ná svipuðum hlut eða hærri.
Bílaframleiðendur hafa gert stationbílinn tilbúinn fyrir framtíðina að einhverju leyti með nýlegum viðbótum af tengitvinnbílum. Sá nýjasti er Skoda Superb, sem bætir við IV-tengitvinnbúnaði við tegundina sem byrjar snemma árs 2020 til að keppa við VW Passat GTE og Peugeot 508 SW PHEV í miðstærðarflokki.
Meðal helstu bifreiðaframleiðenda eru tengitvinnbílaafbrigðin Volvo V60 og V90 auk Mercedes C350e og E300de. Enn sem komið er hafa engir BMW eða Audi bílar í þessum flokki verið boðnir með tækninni en búist er við.
Stationbíllinn gæti komist aftur í tísku ef jeppar neyðast til að lækka hæð sína til að gera þá loftaflfræðilega betri eftir því sem þrýstingur eykst til að rafvæða drifrásir. Þangað til mun markaðurinn fyrir þessa bíla halda áfram að minnka nemaí Norður-Evrópu, þar sem stationbíllinn á sína föstu kaupendur.
(byggt á frétt frá Automotive News Europe)
Töflur:
OCTAVIA Í EFSTA SÆTI
Mest seldu stationbílar eftir stærðarflokkum, breyting miðað við sama tíma 2018

Söluhæstu fimm löndin í sölu stationbíla í Evrópu

MINNKANDI SALA STATIONBÍLA Í EVRÓPU
Sala fyrri helming ársins miðað við sama tímabil 2018




