Nýr Citroen Ami Cargo sendibíll
- Citroen hefur tekið sérkennilegan rafknúinn borgarbíl sinn og búið til lítinn sendibíl – kallaður My Ami Cargo
Við sögðum fyrir nokkrum vikum frá sérstæðum litlum „borgarbíl“ frá Citroen, sem smíðaður er í Marokkó, og sem verið var að kynna í Frakklandi.


Citroen hefur nú sett á markað breytta útgáfu af þessum rafknúna Ami borgarbíl sínum, hannaður sérstaklega til notkunar sem lítill sendibíll fyrir borgarumhverfið.
Í þessari útgáfu er bíllinn kallaður Citroen My Ami Cargo og hann mun fara í sölu í Frakklandi núna í júní, en verðið byrjar frá 6.490 evrum (um 965.000 ISK), þar með talin 900 evra niðurgreiðsla frá franska ríkinu.
Að utan lítur Ami Cargo út eins og farþegaútgáfan, að frátöldum merkingum og ósköp venjulegum stálfelgum á grunngerðunum.

Að innan hefur Citroen fjarlægt venjulega farþegasæti Ami og komið fyrir „geymslukassa“ í staðinn, sem er aðskilið frá ökumanni með traustu skilrúmi. Farmrýmið rúmar 260 lítra og getur borið 140 kg farm.
Þegar farmrýmið er skoðað í heild, að viðbættu því sem „kassinn“ tekur, segir Citroen að Cargo taki að hámarki 400 lítra. Það er aðeins meira pláss en þú færð úr farangursrými fjórðu kynslóðar Skoda Fabia.
Á farmsvæðinu eru einnig nokkrir festipunktar og hæðarstillanlegt gólf, sem gerir ökumanni kleift að flytja hluti sem eru allt að 1,2 metrar að lengd. Ofan á kassanum er fest hilla á lömum sem getur borið allt að 40 kg og er líka hægt að nota sem skrifborð.

Citroen hefur einnig bætt við auka öruggum geymslukassa aftast í innanrýminu, sem þeir segir að sé hannaður til að halda verðmætum eins og snjallsímum, sólgleraugum eða veskjum frá því að vera sýnileg.
Kaupendur geta einnig tilgreint nokkra auka aukahluti, svo sem net fyrir hurðir, merktar gólfmottur, auka geymsluhólf og snjallsímafestingu fyrir mælaborðið.


Eins og venjulegur Ami notar Cargo 5,5 kWW rafhlöðu sem sendir afl til 8 hestafla rafmótors. Hámarkshraði stendur í 45 km hraða á klukkustund og Citroen segir að hann muni fara yfir 75 kílómetra á einni hleðslu.
Aðeins er hægt að hlaða rafhlöðuna með venjulegri innstungu. Vegna lítillar stærðar rafhlöðupakkans tekur það þó aðeins um það bil þrjár klukkustundir að ná 100 prósent hleðslu.
(vefir Citroen og Autoexpress – myndir frá Citroen)