Kia frumsýnir EV9 sportjeppann
Framúrskarandi hönnun og tæknilausnir Kia EV9 veita notendum óviðjafnanlega upplifun
(SEÚL) 29. mars / (FRANKFURT) 28. mars 2023 – Kia Corporation birti í dag allar upplýsingar um Kia EV9, fyrsta rafknúna SUV-bíl fyrirtækisins með þremur sætaröðum, bíl sem skilar ferskri hugsun, hönnun og tækni inn á markaðinn og er drifkraftur fyrir hraða umbreytingu vörumerkisins yfir í að einblína á sjálfbærar samgöngulausnir.
Þetta eru helstu þættirnir varðandui þennan nýja bíl frá Kia:
- Byltingarkenndur rafbíll sem veitir notendum óviðjafnanlega upplifun með auknu rými og þægindum fyrir alla farþega
- Með EV9 er Kia á fullri ferð í átt að sjálfbærni þar sem sjálfbær og lífræn efni stuðla að kolefnishlutleysi
- Í GT-línunni af EV9 er kynntur til sögunnar akstur með aðstæðubundinni sjálfvirkni í flokki 3 með HDP-akstursaðstoð (Highway Driving Pilot)
- Markgildi fyrir drægni við akstur í WLTP-prófunum er yfir 541 km á einni hleðslu; með 15 mínútna ofurhraðri 800 volta hleðslu næst fram 239 km drægni
- Í gegnum Kia Connect Store geta viðskiptavinir fengið þráðlausar uppfærslur á búnaðinum í EV9, hvar og hvenær sem er
- Með þráðlausri V2G-tækni (Vehicle-to-Grid) er hægt að selja rafmagn aftur inn á raforkukerfið
- EV9 hraðar umbreytingu Kia yfir í fyrirtæki sem einblínir á sjálfbærar samgöngulausnir
EV9 er byggður á hinum byltingarkennda E-GMP undirvagni (Electric Global Modular Platform) og veitir kraftmikil afköst og staðfest drægni yfir 541 km samkvæmt WLTP-prófunum. Með ofurhraðri 800 volta hleðslugetu er hægt að fylla á EV9-rafhlöðuna með hleðslu sem nær 239 km drægni á um það bil 15 mínútum.

Á meðal fjölmargra tækninýjunga má nefna HDP-akstursaðstoðarkerfið (Highway Driving Pilot) , en það er fáanlegt í GT-línu Kia EV9 og býður upp á akstur með aðstæðubundinni sjálfvirkni í flokki 3, á völdum markaðssvæðum.
Í bílnum er einnig kynnt til sögunnar Kia Connect Store þar sem viðskiptavinir geta keypt stafrænan búnað og þjónustu eftir þörfum, en þannig býðst þeim sveigjanleiki til að velja sér búnað og fá þráðlausar uppfærslur á búnaði EV9 hvenær sem er.
Með orðum Ho Sung Song, forstjóra: „Kia EV9 gengur lengra en hefðbundin fólksbílahugsun og hann er hápunktur hönnunar- og verkfræðigetunnar hjá Kia.
EV9 er hannaður til að uppfylla þarfir allra fjölskyldumeðlima, en hann leiðir þar að auki hraða umbreytingu Kia yfir í þjónustuaðila í sjálfbærum samgöngulausnum, bæði með háþróaðri rafbílahönnun sinni og fjölmörgum endurunnum og sjálfbærum efnum sem notuð eru við framleiðslu bílsins.“
Kia byrjar að taka við forpöntunum á EV9 fyrir kóreskan markað á öðrum ársfjórðungi ársins 2023.
Kia EV9 og GT-lína EV9 koma í sölu á völdum markaðssvæðum um allan heim á síðari hluta ársins.
Í dag frumsýndi Kia myndband með ítarlegum upplýsingum um EV9. Hægt er að skoða myndbandið á alþjóðlegri vörumerkjasíðu Kia EV9 á https://worldwide.kia.com/int/ev9.

Hönnun: óviðjafnanleg notendaupplifun fyrir nútímafjölskyldur
Með hönnunarstefnuna „Opposites United“ að leiðarljósi nær EV9 að endurhugsa rafbílinn þar sem náttúrulegir og nútímalegir efnisþættir ná einstöku jafnvægi. Í hönnun EV9 er einkar mikilvægur sá hluti hugmyndafræðinnar sem kallast „Bold for Nature“ og felst í að sameina þætti úr náttúrulegu og efnislegu umhverfi.
Yfir ytra byrði Kia EV9 svífur æðrulaus og nútímaleg kyrrð sem hæfir þessum fágaða rafbíl fyrir nýja tíma með sjálfbærum samgöngum.
Bíllinn er með 3.100 mm hjólhaf og hægt er að velja um 21 tommu, 20 tommu eða 19 tommu felgur.
Heildarlengd bílsins er 5.010 mm, á breiddina er hann 1.980 mm og 1.755 mm á hæðina ; útlitið er djarft og nútímalegt en á sama tíma heldur bíllinn sínum sérkennum.
Framhlið EV9 einkennist af skýrum línum og hreinum flötum með traustu, skýru og rólegu yfirbragði.
Hið einkennandi „stafræna tígrisandlit“ gefur bílnum sérstæðan svip sem er undirstrikaður með ljósagrilli með stafrænu mynstri og lóðréttum, framúrstefnulegum aðalljósum.
Stafræna tígrisandlitið er einnig búið tveimur klösum af kassalaga ljósum við hlið beggja aðalljósanna.
Sérstök „stjörnukorta“ LED-dagljósin á EV9 mynda lifandi lýsingarmynstur sem mun einkenna stafrænt tígrisandlit Kia á rafbílum fyrirtækisins í framtíðinni, auk þess að skila sérlega magnaðri lýsingarupplifun.
Til viðbótar við staðalgerð bílsins hefur Kia kynnt sérstaka GT-línu sem aðgreinir sig frá staðalgerðinni á einstakan hátt.
Fram- og afturstuðarar, felgur og þakgrind hafa fengið andlitslyftingu með einstökum svörtum litbrigðum sem tjá styrk og afgerandi útlit miðað við staðalgerðina.
GT-línan státar auk þess af sérhönnuðu ljósagrilli með stafrænu mynstri sem gerir þessa glæsilegu hönnun enn meira lifandi og fágaða.
EV9 er ekki bara glæsilegur í útliti heldur skilar hann mikilli afkastagetu með 0,28 loftviðnámsstuðli. Þetta hefur náðst með nokkrum háþróuðum eiginleikum, þar á meðal þrívíðri undirhlíf (þeirri fyrstu frá Kia), straumlínulöguðum felgum og hugvitssamlegum loftopum sem byggð eru inn í framstuðararann.
Þessir þættir vinna snurðulaust saman að því að stýra loftflæðinu, hámarka afkastagetuna og skila þar með einstakri akstursupplifun.
Í Kia EV9 er boðið upp á fjölbreytt úrval sætalausna sem koma til móts við ólíkar þarfir fólks.
Hægt er að velja útfærslu með sex eða sjö sætum og samtals fjórar útfærslur fyrir aðra sætaröðina sem henta við ólíkar aðstæður, svo sem við akstur, hleðslu og hvíld. Í fyrstu sætaröðinni eru sérstök slökunarsæti sem tryggja þægilega hvíldarstöðu. Í annarri sætaröðinni er boðið upp á fjórar sætalausnir, í fyrsta skipti í rafbíl, þar á meðal þriggja sæta bekk, grunnútfærslu, slökunarútfærslu og tveggja sæta snúningssæti, og þannig má uppfylla mismunandi þarfir viðskiptavina.
Þegar EV9 er búinn slökunarsætum í annarri sætaröð geta farþegar í fyrstu og annarri sætaröð hallað sér saman á meðan bíllinn er í hleðslu.
Þegar snúningssæti eru valin er hægt að snúa sætum í annarri sætaröð um 180 gráður til að auðvelda spjall við farþega í þriðju sætaröð.
Hleðslutengi og glasahaldarar eru fyrir farþega í þriðju sætaröð.

Sjálfbærni: ný viðmið fyrir ábyrgar samgöngur
Eindregin skuldbinding Kia um að verða leiðandi afl í sjálfbærum samgöngum og yfirlýst áætlun Kia um að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2045 snýst ekki aðeins um að bjóða upp á rafbílaaflrásir með engum útblæstri. Það snýst einnig um sjálf byggingarefni bílsins og EV9 gengur enn lengra í notkun á vistvænum efnum sem setja ný viðmið í sjálfbærum samgöngum.
Kia EV9 er brautryðjandi með því að vera fyrsta gerðin sem uppfyllir þriggja þrepa sjálfbærniáætlun vörumerkisins, sem ætlað er að hætta allri notkun leðurs smám saman, innleiða notkun á tíu nauðsynlegum sjálfbærnilausnum í öllum nýjum gerðum Kia og auka stöðugt notkun á lífrænum efnum, s.s. maís, sykurreyr og náttúrulegum olíum.
Markmið Kia er að auka hlutfall endurunnins plasts sem fyrirtækið notar í 20% fyrir árið 2030.
Litasamsetning EV9 sækir innblástur sinn í fjögur náttúruöfl, ljós, loft, jörð og vatn, og myndar þannig tengingu við fegurð náttúrunnar sem rennur saman við hönnunarstefnu EV9.
Í innanrými EV9-bílsins er boðið upp á alls sex ólíkar samsetningar, svo sem ljósgráa nútímalega tóna, fágaða náttúrutóna og sportlega útfærslu fyrir GT-línuna.
Rafræn aflrás: mikið úrval af samgöngulausnum með engum útblæstri
Í EV9 er boðið upp á mikið úrval rafrænna aflrása sem byggja á E-GMP undirvagninum og nýta sér fjórðu kynslóðar rafhlöðutæknina frá Kia. 76,1 kWh rafhlaða fylgir aðeins með Standard-útfærslu og afturhjóladrifi en í bæði Long Range-útfærslu með afturhjóladrifi og aldrifi er að finna 99,8 kWh rafhlöðu.
Long Range-útfærslan með afturhjóladrifi er knúin af 150 kW / 350 Nm rafmótor sem skilar bílnum hröðun upp á 9,4 sekúndur úr kyrrstöðu í 100 km/klst. samkvæmt bráðabirgðagögnum.
EV9 í staðalútfærslu með afturhjóladrifi er einnig knúinn af einum rafmótor, öflugri 160 kWh / 350 Nm útfærslu sem skilar hröðun úr 0 í 100 km/klst. á 8,2 sekúndum.
Aldrifsútfærslan er búin tveimur rafmótorum sem skila samanlagt 283 kW afli og 600 Nm togi. Með þessari öflugu samsetningu nær bíllinn að fara úr 0 í 100 km/klst. á aðeins 6 sekúndum. Enn meiri afkastageta er í boði með sérstökum Boost-eiginleika sem hægt er að kaupa síðar í Kia Connect Store. Sameinað tog EV9 er 700 Nm, sem skilar bílnum úr 0 í 100 km/klst. á 5,3 sekúndum.
Með heildrænni verkfræðinálgun hefur Kia tekist að tryggja að snarpri afkastagetu EV9 fylgi einnig framúrskarandi drægni.
Þannig geta viðskiptavinir EV9 eytt eins miklum tíma og hægt er við akstur og eins stuttum tíma og hægt er á hleðslustöðinni, sem er traustvekjandi fyrir fjölskyldur á löngum ferðalögum.
Markdrægni í Long Range-útfærslunni með afturhjóladrifi og 19 tommu hjólbörðum er t.d. rúmlega 541 km samkvæmt WLTP-prófunum.
Með ofurhröðu 800 volta hleðslukerfi er hægt að fylla á rafhlöðu bílsins með hleðslu sem nær 239 km drægni á um það bil 15 mínútum .
HDP-akstursaðstoð (Highway Driving Pilot) : býður upp á aðstæðubundna sjálfvirkni í flokki 3
Með EV9 er stigið stórt skref í átt að alveg sjálfvirkum akstri. Lykillinn að þessu er HDP-akstursaðstoðin frá Kia sem gerir EV9 kleift að aka með aðstæðubundinni sjálfvirkni í flokki 3.
Fimmtán skynjarar, þar á meðal tveir fjarlægðaskynjarar, leita að og greina hluti með 360 gráðu sjónsviði, en með þessu getur bíllinn greint og brugðist við vegaskilyrðum og öðrum notendum til að komast hjá mögulegum árekstrum.
HDP-akstursaðstoðarkerfið frá Kia skilar snjallri og forvirkri aðstoð í rauntíma við ótal ólíkar aðstæður og nær þannig að uppfylla skilyrði fyrir akstur með aðstæðubundinni sjálfvirkni í flokki 3 á vissum svæðum í heiminum .
Í þeim flokki telst bíllinn fær um akstur með aðstæðubundinni sjálfvirkni þar sem aðstæður leyfa, sem gerir ökumanninum kleift að taka sér hlé frá akstri bílsins.

Kia Connect Store: uppfærðu EV9 hvar og hvenær sem er
Fersk viðhorf Kia gagnvart því hvað fjölskyldubíll á að vera tryggja að viðskiptavinir geta valið búnaðinn í sinn EV9-bíl. Til viðbótar við staðalbúnaðinn í EV9 geta viðskiptavinir nýtt sér mikið úrval aukabúnaðar í Kia Connect Store til að halda EV9 ávallt uppfærðum með uppfærslum á stafrænum eiginleikum og þjónustu bílsins, án þess að þurfa að fara með bílinn til söluaðila.
Hægt er að betrumbæta ljósagrillið með stafrænu mynstri með því að bæta eiginleikanum „Lighting Pattern“ (ljósamynstur) við EV9-bílinn.
Viðskiptavinir geta einnig notað valkvæðan Boost-eiginleika til að auka afkastagetuna í EV9 í aldrifsútfærslu, en eiginleikinn skilar rafmótornum 100 Nm viðbótartogi sem tryggir spennandi og lifandi akstursupplifun.
Staðalbúnaður í EV9 er V2L-virkni (Vehicle-to-Load) í gegnum innbyggða hleðslubúnaðinn (ICCU), en með henni er hægt að nýta orku úr rafhlöðu bílsins.
Fjölskyldur geta notað allt að 3,68 kW af orku fyrir fartölvur, ísskápa eða útilegubúnað.
Í gegnum Kia Connect Store geta viðskiptavinir bætt við V2G-eiginleika (Vehicle-to-Grid) til að selja raforku aftur inn á raforkukerfið síðar meir.
Fjarstýrð snjallbílastæðaaðstoð Kia 2 (RSPA 2) er einnig í boði sem stafrænn eiginleiki, sem og tónlistarstreymi sem farþegar geta notið í gegnum hljóðkerfi, leiðsögukerfi og fjarvirknikerfi bílsins (AVNT).

Öryggi og þægindi: hönnun og útfærslur sem bæta akstursupplifun allra farþega
Einn af ótal viðbótareiginleikunum sem fylgja með ADAS-kerfunum í EV9 er fjarstýrð snjallbílastæðaaðstoð 2 (RSPA 2). Með þessari tækni getur EV9 lagt sjálfur í stæði án afskipta frá ökumanninum, sem setur aðgerðina í gang með Kia-snjalllyklinum, hvort sem hann er í bílnum eða ekki.
RSPA 2 notar úthljóðsnema til að greina hindranir og stýrir EV9 sjálfkrafa í bílastæðið með stjórn á eldsneytisgjöfinni, hemlunum og gírkassanum.
Kerfið hemlar einnig sjálfkrafa ef það greinir hlut sem fyrirstöðu á akstursleið bílsins. Í EV9 er einnig að finna árekstraröryggiskerfi með umferðarskynjara að aftan (RCCA) til að koma í veg fyrir árekstra þegar bakkað er.
Auk þessara eiginleika státar bíllinn af fjölmörgum háþróuðum Kia-akstursaðstoðarkerfum til að auka öryggi farþega, t.d. árekstraröryggiskerfi fyrir blindsvæði (BCA), akreinastýringu (LKA) og hraðatakmörkun (ISLA), en þeim er ætlað að aðstoða ökumenn í aðstæðum sem gætu verið hættulegar.
Snjallhraðastillir með tengingu við leiðsögn tryggir öruggan akstur á þjóðvegum og vegum sem einungis eru ætlaðir bílum og þjóðvegaakstursaðstoð 2 (HDA 2) skiptir um akreinar og notar HOD-handaskynjara til að tryggja að ökumaður sé með á nótunum.
Auk þess státar EV9 af öryggis- og þægindaeiginleikum, bæði fyrir og eftir ökuferðir, s.s. árekstraröryggiskerfi með umferðarskynjara að aftan og árekstraröryggiskerfi að aftan fyrir bílastæði.
Að lokum er kynnt til sögunnar nýjung hjá Kia – stafrænn lykill 2 sem nýtir UWB-tækni (Ultra Wide Band) og gerir notendum kleift að opna og gangsetja bílinn með snjallsímanum sínum, jafnvel þegar lykillinn er ofan í vasa eða tösku.
Kia hefur eingöngu notað háþróuðustu verkfræðilausnir og hönnunarútfærslur til að tryggja viðskiptavinum EV9 og fjölskyldum þeirra hámarksöryggi við allar aðstæður.
EV9 státar af undirvagnsgrind með einstakri vindustífni og fyrstu B-stoðarsamskeytum sögunnar (í einkaleyfisumsóknarferli) með lengdri högghlíf og sílsalistum með skörun.
Þessi bíll skilar framúrskarandi öryggi og vörnum fyrir bæði farþega og rafhlöður, þar á meðal með tíu loftpúðum .
Alþjóðlegt slagorð Kia fyrir EV9: „Hreyfir við þér á nýjan hátt“
Kia ætlar að setja af stað fjölda alþjóðlegra herferða og kjarna þeirra er að finna í yfirlýsingunni „Hreyfir við þér á nýjan hátt“.
Þessi yfirlýsing er til marks um skuldbindingu fyrirtækisins gagnvart nýsköpun og sýn fyrirtækisins um sjálfbærari, skilvirkari og þægilegri framtíð.
Ætlunin er að frumsýna EV9 með formlegum hætti á samgöngusýningunni í Seúl árið 2023.
Auk þess verður bíllinn til sýnis á alþjóðlegu bílasýningunni í New York í byrjun apríl.
Með EV9 setur Kia ný viðmið fyrir rafbíla og umbyltir hugmyndinni um glæsilegar og þægilegar samgöngur.
(fréttatilkynning frá Kia / Öskju)
Umræður um þessa grein