Þarf að hreinsa kælikerfið í bílnum?

213
DEILINGAR
1.9k
SMELLIR

Þarf að hreinsa kælikerfið í bílnum?

Allir vita að kælikerfi bílvélar er með blöndu af frostlegi og vatni.  Í mörgum tilfellum er þó hægt að fá tibúinn kælivökva sem má hella beint í forðabúr kælikerfisins eða í vatnskassann. En frostlögurinn er ekki aðeins til að verja vélina gagnvart frostskemmdum, heldur er hann einnig notaður sem vörn gegn tæringu í bílvélinni.

En með tímanum glatar frostlögurinn eiginleikum sínum, bæði til frostvarnar og eins sem tæringarvörn. Þá þarf að skipta honum út og skola kælikerfið. Allir bílaframleiðendur gefa út upplýsingar um líftíma kælivökvans sem er uppgefinn í eknum kílómetrum eða árum frá því síðast var skipt um hann. Líftími vökvans fer mikið eftir gerð hans, en sumum gerðum kælivökva má ekki blanda saman. Skoðið ávallt leiðbeiningar framleiðanda bílsins.

Ef þær eru ekki tiltækar þá er hægt að fá grunnupplýsingar um bílinn ef þú skráir þig inn á „Mitt svæði“ hjá Samgöngustofu sem þú finnur hér. Í framhaldi af því er hægt að fara inn á þessa síðu hér, slá inn upplýsingar um bílinn og fá upplýsingar um allar olíur og vökva sem eiga nákvæmlega við þinn bíl. Það er t.d. hægt að smella á „Coolant system“ svo nafn eða mynd kælivökvans sem er mælt með og fá nákvæmar upplýsingar um hann og einhvern meiri fróðleik með.

Eitt augljósasta dæmið um að kælivökvinn sé komin að lokum líftíma er þegar tappinn er tekinn af vatnskassanum, eða úr forðabúri kælikerfisins. Ef tappinn er húðaður með ljósbrúnni froðu, eru það merki um uppsöfnun óhreininda, ryðmyndun og útfellingar í kælivökvanum.

Annað dæmi um að kælivökvinn sé farinn að bregðast er að miðstöðin skilar ekki eins heitu lofti og áður (en það getur líka stafað af öðrum og alvarlegri ástæðum).

Ef tappinn á kælikerfinu í bílnum þínum lítur svona út eins og á myndinni hér að ofan –  þá ÞARF að skola kælikerfið og setja nýja blöndu af vatni og frostlegi á kerfið.

Af hverju er mikilvægt að skola út kælivökva?

Áður en þú ferð að draga of miklar ályktanir af þessu, skulum við hafa í huga af hverju þarf að skola kælikerfið þrátt fyrir að það sé lokað kerfi.

Frostlögur er meira en bara litað vatn sem verndar vélina í frosti. Aðal innihaldsefnið í frostlegi getur verið etýlen glýkól, própýlen glýkól o.fl. en það er efnið sem gerir frostlegi kleift að vera fljótandi jafnvel við mjög lágt hitastig og hækkar suðupunkt vökvans.

Tiltekin blanda af smurefnum og tæringarvörn er einnig innihaldsefni í frostlegi. Venjulega blandast vatn og stál ekki vel þar sem stálið ryðgar fljótt. Tæringarvörnin í frostleginum hægir á þessu ferli en stöðvar það aldrei alveg. Þessi tæringarvörn hefur einnig ákveðinn líftíma í kælikerfinu og eftir þann tíma mun byrja hraðari tæring í vélinni.

Stál er ekki eina ástæðan fyrir tæringu í kælikerfi bílsins. Ál, kopar og eir geta einnig tærst og losað agnir, gúmmíslöngurnar og þéttingarnar geta einnig versnað með tímanum og blandast við kælivökvann.

Skiptu um vökva í kælikerfinu

Tappaðu kælivökva af vatnskassanum með því að opna tæmingarloka eða krana neðst á kassanum. Næst skal tæma kælivökva af vélarblokkinni með því að opna einnig tæmingarlokann á blokkinni, ef hann er til staðar, eða hreinlega losa hosu í kælikerfinu nægilega neðarlega þannig að allt vatn nái að renna af vélinni sjálfri. Eftir tæminguna, lokarðu þessum báðum stöðum.

Því næst er mjög gott að setja hreinsiefni fyrir kælikerfi, sem eru fáanleg í bílavarahlutaverslunum og sumum bensínstöðvum. Fylltu síðan upp með vatni og settu vélina í bílnum í gang og láttu hana ganga lausagang í um það bil 10 til 20 mínútur. Fylgið leiðbeiningum. Fylgstu vel með hitamælinum og gættu þess að hann sýni ekki of háan hita.

Tappaðu síðan öllu vatninu af kælikerfinu aftur, eins og lýst var hér að framan. Í framhaldinu gæti verið gott að leiða vatn úr slöngu beint í vatnskassann og leyfa vatni að streyma beint í gegn um kælikerfið í smá stund. Þetta ætti að ná að hreinsa kerfið betur, og þá sérstaklega staði eins og hitaelementið í miðstöðinni (best að stilla miðstöðina á mesta hita til að tryggja flæði í gegnum elementið).

Þegar kælikerfið er örugglega tómt á ný skaltu loka fyrir frárennslið eins og áður. Fylltu á kælikerfið með þeirri gerð kælivökva sem mælt er með og í réttu hlutfalli vatns og frostlagar ef hann á ekki að fara óblandaður á kerfið. Kynntu þér vel hvaða kælivökvi á að fara í kælikerfi bifreiðarinnar því rangur kælivökvi getur stytt líftíma vélarinnar mjög mikið. Athugaðu vel hvort það eru lokar eða kranar í kælikerfinu til að tæma út loft því ef svo er þá þurfa þeir að vera opnir þangað til vökvi fer að streyma út þegar þú hellir kælivökva á kerfið.

Það er nánast undantekningarlaust hægt að finna upplýsingar um hvernig á að lofttæma kælikerfið á netinu eða YouTube. Sú aðgerð getur verið ansi mismunandi eftir tegund og gerð vélar en oft ónauðsynleg. En það er alltaf best að vera alveg viss.

Að því búnu er bara að setja í gang og athuga kælikerfið vel þegar það hefur náð fullum vinnuhita hvort nokkur leki sé til staðar. Leki hvergi, er bíllinn tilbúinn til aksturs uns líftími kælivökvans er aftur liðinn.

Að lokum ber að nefna það að mælar til að mæla frostþol kælivökva, fást í flestum varahlutaverslunum, verslunum olíufélaganna og jafnvel bensínstöðvum. Smurstöðvar, bensínstöðvar og bílaverkstæði geta oftast mælt frostþolið og sum gera það án endurgjalds.

Svipaðar greinar