Hraðasti bíll á jörðinni olli ógnvekjandi hljóðhöggi

138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Hraðasti bíll á jörðinni olli ógnvekjandi hljóðhöggi

Hraðskreiðasti bíll á jörðinni lítur út eins og eitthvað úr vísindaskáldskap. Ákafir bílaáhugamenn þrífast vissulega á tilfinningunni að aka á miklum hraða á auðum þjóðvegi. Hraði er eitthvað sem er hafið upp til skýjanna í samfélaginu. Grand Prix kappakstur á lokuðum vegum og keppnisbrautum sem gerðu kappakstur mögulegan, náði gríðarlegum vinsældum á síðustu öld. Til dæmis fór fyrsta Formúla 1 keppnin fram árið 1950.

En að ná 763 mílum/klst (meira en 1.200 km/klst) er áskorun, jafnvel fyrir adrenalín-leitandi ökumenn, og það er vissulega ekki eitthvað fyrir hjartveika. Að ná slíkum hraða hefur heldur ekkert með Grand Prix kappakstur að gera.

15. október 1997 stjórnaði flugmaður í breska flughernum (Royal Air Force), Andy Green, Thrust SSC í Black Rock eyðimörkinni í Nevada. Þann dag setti Green heimsmet í hraða á landi sem stendur enn, rúmum tveimur áratugum síðar.

Vefsíðan Guinness World Records skráði: Thrust SSC náði undraverðum 763,035 m/klst (1.227,985 km/klst) hraða þann dag og „landhraðamet hraðasta bíls á jörðinni er eitt af viðmiðum tækniþróunar enn þann dag í dag.”

Liðið við Thrust SSC. Mynd/Arpingstone.

Thrust SSC, sem lítur frekar út eins og flugvél en bíll, braut ekki aðeins landhraðamet og varð hraðasti bíll á jörðinni, heldur var hann fyrsti bíllinn í heiminum til að rjúfa hljóðmúrinn líka.

Hljóðhöggið (Sonic boom) var svo öflugt að það olli því að byggingar hristust í nágrenni bæjarins Gerlach u.þ.b. 20 km frá þeim stað sem verið var að skrifa sögu hraðans, að því er segir í frétt Guinness World Records.

Thrust SSC, sem Bretar byggðu er handhafi landhraðametsins. Mynd/Boris Lux, Hamborg – Þýskaland Mycdes.

Thrust SSC er tákn fyrir hátind verkfræðilegs afreks. Á meðan hljóðhraði hafði áður verið rofinn af fjölda flugvéla hafði fyrirbærið ekki þekkst á jafnsléttu. Með topphraða yfir 1.200 km/klst gætu hlutirnir að sjálfsögðu auðveldlega farið illa. Hlutir nálægt ökutæki sem hreyfist á slíkum hraða gætu auðveldlega valdið truflun eða sprengingu.

Hitastigið fyrir aftan bílinn fór upp í, að sögn, meira en 570 gráður á Fahrenheit og hávaðinn nálgaðist 175 dB. Thrust SSC var drifinn áfram af tveimur Rolls-Royce Spey 205 turbojet vélum, sem samkvæmt Interesting Engineering, „gefa 100.000 hestöfl samtals – sem er það afl sem þrjár freigátur í flotanum gefa.”

Thrust SSC á Coventry Motor Museum. Mynd/Ben Sutherland.

Frábæru tæki fylgir einnig mikil ábyrgð. Framleiðendur Thrust SSC þurftu að tryggja að farartækið myndi haldast saman á þeim hrikalega hraða sem það gæti hugsanlega náð og að flugmaðurinn myndi einnig lifa afrekið af (já, flugmaður er meira viðeigandi orð en ökumaður í þessu tilfelli).

Ofurhjólabúnaður, fær um að snúast 8.500 sn/mín, var hluti hönnunarinnar. 8.500 sn/mín er miklu meira en venjulegt bíldekk ræður við; því þurfti að endurhanna hjólabúnaðinn að verulegu leyti.

„Hröðunin út frá miðju á jaðri felgunnar er 35,000G – hraði sem myndi sundra öllum hefðbundnum dekkjum. Þess í stað, til að takast á við gríðarlegt miðsóknaraflið, voru L27 álfelgur steyptar. Hver og ein vegur meira en 160 kg,“ segir Interesting Engineering.

Mynd/Wikipedia.

Heildarhönnun Thrust SSC gaf flugmanninum aðeins takmarkaða stjórn á tækinu. Þess vegna þurfti að sleppa hefðbundnum öryggiskerfum í þágu vélbúnaðar og öryggisskynjara sem halda ökutækinu á jörðinni og í öruggri, beinni aksturslínu.

Fjöldi skynjara skaffaði ýmsar upplýsingar eins og hraða, stefnu og þrýstikraft til að fylgjast með vegna nauðsynlegra viðbragða. Dræpist á öðrum hreyflinum gæti Thrust SSC slökkt á hinum hreyflinum innan milllisekúndna;þökk sé sumum skynjaranna.

Ef farartækið færi að lyftast myndi koma skipun um þriggja tonna viðbótarafl til að þrýsta því niður aftur innan millisekúndna.

Mynd/Wikipedia.

Tveimur áratugum eftir að hafa sett hraðaheimsmet er Thrust SSC ásamt öðru Thrust eintaki sestur í helgan stein á Coventry Transport Museum. Gestir geta vegsamað Thrust SSC sem vitnisburð um heillandi afrek manna og þrá til að ferðast hraðar en áður var talið mögulegt.

Svipaðar greinar