Þetta var löng fyrirsögn! Þó hann sé nú ekki hár í loftinu, hann Bottas, er afrekalistinn langur. Þessi finnski Formúlu 1 ökumaður hefur marga fjöruna sopið, margan bikarinn unnið og marga kaffibaunina brennt. Lítum nánar á manninn.

Hann er fæddur og uppalinn í Nastola í suðurhluta Finnlands; voðalega fámennu bæjarfélagi (sem síðar sameinaðist Lahti) sem getur þó státað af því að nokkrir þekktir einstaklingar hafa slitið þar barnsskónum.
Þeir eru, fyrir utan okkar mann: Fyrrum skíðastökkvarinn Veli-Matti Lindström (sem árið 2003 stökk fyrstur allra skíðastökkvara heims lengra en 230 metra – hann stökk 235 metra en stökkið var dæmt ógilt þar sem Lindström klaufaðist til að reka lúkuna í snjóinn…bömmer) og Eduard Polón stofnandi Nokia. Þó ekki Nokia sem við tengjum við fjarskiptatæki heldur gúmmívinnsluna Nokia sem tengja má við hjólbarða og stígvél.
Þetta var nú útúrdúr.
Hefur ekið í 27 ár
Bottas er nú orðinn hundgamall, eða alveg þrjátíu og tveggja. Fæddur í lok ágúst 1989 rétt náði hann að vera til á lokametrum kalda stríðsins og þegar byrjað að brjóta niður Berlínarmúrinn, en hann man örugglega lítið eftir því.

Rétt eins og svo margir af þessum snilldarökumönnum í Formúlu 1, ók Bottas af stað á gókartbíl fimm ára gamall og keppti í fyrsta skipti aðeins sex ára gamall, árið 1995.
Reyndar var þetta þannig að fjögurra ára gamall fór Bottas með föður sínum út á gókartbraut í nágrenninu. Hann lýsir því hvernig hann hafi umsvifalaust heillast af því sem hann sá og heyrði: Hljóðið, hraðinn og bensínlyktin fönguðu athygli stubbsins.
Ég skrifa „stubbur“ því þegar stráksi mátaði gókartbíl þennan dag kom í ljós að hann náði ekki einu sinni niður á pedalana: „Ég þurfti því að koma mér út úr bílnum, án þess að geta prófað og ég var alveg óheyrilega leiður,“ sagði hann í viðtali sem birtist í tímariti Mercedes fyrir nokkrum árum. „Þegar við pabbi komum heim stríddi afi minn mér en sagði svo að ef ég myndi klára múslíið mitt á hverjum morgni í heilt ár þá ætti ég að ná niður á pedalana sumarið eftir. Ég lofaði því og stóð við það,“ sagði Bottas.
Þetta stóðst sem afi hans hafði sagt því niður náði Bottas og af stað ók hann, fimm ára gamall.

Hann er enn að. Hefur auðvitað stoppað endrum og sinnum til að gera það helsta, jú og skipt um bíla, en hann er enn á ferðinni. Og það engri smáræðis ferð!
Ekið úr hreiðrinu
Oftast er nú talað um að börn og ungviði „fljúgi“ úr hreiðrinu en ég get ómögulega séð Bottas fyrir mér öðruvísi en akandi. Þannig að hann ók nokkuð ungur úr hreiðrinu og sagð bless við smábæinn Nastola. Þeir áttu báðir eftir að stækka, bærinn og Bottas en þó ekki mikið.
Bottas lærði bifvélavirkjun í Heinola sem er rétt eins og Nastola, óttalegur smábær.
Reyndar þarf maður ekkert að skammast sín fyrir að þekkja ekki til bæja eins og Nastola því þetta er víst svo lítill bær að sumir Finnar hafa ekki einu sinni heyrt hann nefndan!
Bottas-borgari, sána og ísbað
Bottas kann vel að meta heimaslóðir sínar og á þar lítinn bústað við stöðuvatn og þangað fer hann gjarnan til að slaka á. Burt úr skarkalanum í Mónakó, þar sem hann er búsettur núna, og eins og sannur Finni er hann með sánu (sauna) og þá er gott að geta brugðið sér út í vatnið og svo aftur inn í bullheita sánuna.



Jæja, nema hvað! Bifvélavirkinn Bottas átti það til að fara sjálfur yfir gírkassann í bílnum á milli keppna þegar hann keppti í Formula Renault 2.0.
Rólegur en ákveðinn her- og ökumaður
Árið sem Bottas varð 18 ára gamall, 2007, byrjaði hann að keppa í Formúlu Renault 2.0 árið 2007, árið sem hann varð 18 ára. Það ár varð hann þriðji yfir heildina en árið eftir varð hann í því fyrsta. Hann varð bæði Norður-Evrópumeistari og Evrópumeistari það árið.
Á þessum tíma (2007-2009) þurfti Bottas, rétt eins og aðrir finnskir karlmenn, eldri en 18 ára, að gegna herþjónustu. Það kannast til dæmis þeir Mika Häkkinen og Kimi Räikkönen við.
Menn hafa lítið sem ekkert val því þarna er herskylda og eru karlarnir annað hvort 165, 225 eða 347 daga í Finnska hernum. Veit ég nú ekki margt um þetta en í það minnsta lauk Bottas við sitt áður en hann byrjaði í Formúlu 1 og stóð sig svona líka ljómandi vel að hann var valinn „Top soldier“ í sinni deild þar sem hann varð og er (Íslendingur að fjalla um herinn… ég veit ekkert hvernig þetta virkar) það sem kallað er undirliðþjálfi.

Herþjónustan virðist ekki hafa haft sérlega truflandi áhrif á Finnana hvað keppnir í akstursíþróttum varðar en nú um þessar mundir stendur rússneski ökumaðurinn Nikita Marzepin (Haas) frammi fyrir því að hann þarf að gegna herskyldunni í Rússlandi og undan henni kemst maður ekki. Nema auðvitað beinustu leið í steininn.
Án þess að keppnisferill Finnans verði rakinn hér lið fyrir lið er framhaldið á þessa leið:
Úr Formúlu Renault 2.0 fór Bottas í Formúlu 3 og og þaðan í GP3. Þess má sannarlega geta að í júní 2009 vann Bottas 2009 Tango Masters í Formúlu 3, auk þess að vera á ráspól og eiga hraðasta hringinn í sömu keppni. Þegar hann vann þá keppni aftur árið 2010 varð hann fyrstur allra til að verja titilinn í Formúlu 3 Masters.
Það var svo sjálfur Sir Frank Williams sem veitti þessum unga Finnska ökumanni athygli og bauð honum árið 2010 að spreyta sig á vettvangi Formúlu 1 og þar var hann um nokkra hríð sem reynslu- og varaökumaður. En árið 2013 fékk hann stöðu keppnisökumanns þar.

Sir Frank Williams heitinn, hélt mikið upp á Bottas og sagði eftirfarandi um hann árið 2013 þegar Bottas hóf fyrir alvöru ferilinn í Formúlu 1: „Valtteri er hreint út sagt einn hæfileikaríkasti ungi ökumaður sem ég hef hitt og það er mikils að vænta af honum í framtíðinni.“ Þvílíkur heiður að fá slíkt hrós frá þeim mikla meistara sem Williams var.
Múslíið og Mercedes
Af því hvernig gekk hjá Williams má lesa annars staðar því hér þarf að koma öðru að. Það tengist nefnilega múslíinu sem Bottas át á hverjum morgni í heilt ár.
Fimm dögum eftir að Nico Rosberg, ökumaður hjá Mercedes, vann stóra titilinn árið 2016 tilkynnti hann að þar með væri Formúluferill hans á enda. Hann væri hættur. Og hann hætti.
Á þessum tímapunkti varð staðan hjá Mercedes dálítið spes því hvað áttu þeir þá að gera? Flestir betri ökumenn í Formúlu 1 voru með fast land undir fótum og brotthvarf Rosbergs hafði komið flatt upp á liðið.

Þá hafði Bottas samband við Toto Wolff, liðsstjóra Mercedes. Hann hringdi í manninn og óskaði eftir að fá að taka sæti Rosebergs fyrst það væri laust. Hann vissi hvað hann vildi og rétt eins og hinn fjögurra ára stubbur sem ákvað að aka gókartbíl þótt það kostaði það að borða músli sem honum þótti hreint út sagt ekki gott, þá gerði hann það sem hann þurfti til að komast þangað sem hann ætlaði sér.
Hvernig sem þessu var háttað nákvæmlega þá komst hann í lið Mercedes og hefur verið þar frá 2017 til, tjah, síðustu viku.

Þeir voru nokkrir sem tjáðu sig um þessa breytingu, að Rosberg hyrfi úr sportinu fyrir fullt og allt og að Bottast tæki hans stað. Þeirra á meðal var heillakarlinn Nici heitinn Lauda en hann sagði: Valtteri hefur það sem þarf til að aka á sama leveli og Rosberg.“ Og sagði m.a. hér að „Rosberg-levelið“ væri heimsmeistaralevel.

Annar mætur maður sagði ekki ósvipaða hluti á þessum tímapunkti en það var Finninn Mika Häkkinen sem sagði í sjónvarpsviðtali á finnsku stöðinni MTV3:
„Ég get séð Bottas fyrir mér vinna titilinn. Ég sé í Valtteri það sem þarf til að geta orðið heimsmeistari.“
Rekur kaffibrennslu, kaffihús og hannar hjálma
Heimsmeistari varð Valtteri Bottas ekki það árið og hefur ekki orðið heimsmeistari í Formúlu 1. Nú á hann eftir að sýna hvað í honum býr þegar hann mun á næsta keppnistímabili aka fyrir lið Alfa Romeo. Það verður gaman að fylgjast með hvernig þeim Guanyu Zhou mun ganga en Zhou er fyrsti kínverki ökumaðurinn sem keppir í Formúlu 1.

Eins og fram kom hér í upphafi, er Bottas stálfróður um kaffi og allt það sem því tengist. Hann er einn af eigendum kaffibrennslunnar Kahiwa Cofffee Roasters og er mikill kaffikarl. Eigendur kaffibrennslunnar reka líka kaffihús og er hvort tveggja, brennslan og kaffihúsið, á svæðinu sem Bottas ólst upp og nú heitir Lahti (sem bærinn Nastola sameinaðist).
Annað sem hann hefur yndi af eru íþróttir hvers kyns og árið 2017 kom hann á fót Valtteri Bottas Duathlon, sem er íþróttaviðburður, haldinn í heimabænum Lahti í ágústmánuði síðan síðan´17.

Keppt er í ýmsum greinum og eru þátttakendur á öllum aldri. Peningarnir sem safnast renna til ýmissa góðgerðamála og í ár nam upphæðin um 10.000 evrum.

Síðast en ekki síst verður að nefna áhuga ökumannsins á hönnun. Hvort sá áhugi nær eitthvað út fyrir hönnun á eigin keppnishjálmum veit undirrituð ekki en í það minnsta hefur hann mikinn áhuga og kærasta hans sömuleiðis. Tiffany Cromwell (kærastan) hefur hannað þá nokkra eins og sjá má t.d. hér.
Hafa hjálmarnir hans vakið athygli fyrir áhugaverða hönnun og má til dæmis nefna þann sem prýðir efstu myndina í þessari grein. Þar eru kaffibaunirnar áberandi, enda hjálmurinn hannaður fyrir keppnina í kaffilandinu mikla, Brasilíu, fyrr á þessu ári. Aftan á höfuðbúnaðnum stendur „First I Drink The Coffee Then I Do The Things“.
Gaman að þessu! Sjáum hvað Finninn gerir þegar hann verður búinn að fá sér kaffi með Alfa Romeo liðinu á komandi ári.
Hér er myndband sem Mercedes frumsýndi í gær og er það um ferilinn hans Valtteri Bottas á árunum fimm með liðinu.
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.
Umræður um þessa grein