Pönnukökuvél og pendúlöxlar: Fiat 126 fimmtugur

137
DEILINGAR
1.2k
SMELLIR

Það er merkilegur áfangi að verða hálfrar aldar gamall. Nú, árið 2022, eru liðin 50 ár síðan Fiat 126 kom á markað og var þeim litla bíl ætlað stórt hlutverk: Hann tók við af Fiat 500. Eða gerði hann það? Það var ætlunin í upphafi en hjörtu manna vann hann þó ekki á sama hátt og Fiat 500.

Myndir/Stellantis/Fiat

Að taka við af örsmáum risa

Fiat 126 kom á markað haustið 1972 sem arftaki Fiat 500. Sala bílsins gekk nokkuð vel þótt erfitt væri að koma í stað ákaflega vinsæls bíls: Árið 1971 var fimmti hver bíll sem seldist á ítölskum bílamarkaði einmitt af gerðinni Fiat 500.

Myndir/Stellantis/Fiat

Fiat 500 hafði verið framleiddur nær óbreyttur frá árinu 1957 og höfðu 3.5 milljónir slíkra bíla selst frá 1957 til 1972.

Síðla árs 1972 skrifaði Þorgrímur Gestsson í Alþýðublaðið: „ítalir eru nú að setja á markaðinn nýjan smábil, — og það lítinn. Hann ber heitið Fiat 126 og er ekki nema 305 sentimetra langur, en samt er hann að sögn all rúmgóður fyrir tvo fullorðna frami og tvo hálf stálpaða krakka afturi, auk farangurs. Vélin er lika afskaplega lítil, aðeins 23 hestöfl (DIN) og hámarkshraðinn er 105 km/klst,“ skrifaði Þorgrímur en bíllinn var ekki sérdeilis þungur, heldur aðeins 580 kíló, vélin var aftur í og bíllinn afturhjóladrifinn eins og gera mátti ráð fyrir.

Myndir/Stellantis/Fiat

Pönnukökuvél og pendúlöxlar

Í lok ársins 1972 fór Þorgrímur yfir bílana sem væntanlegir voru á nýju ári. Þeirra á meðal var Fiat 126 og skrifaði blaðamaðurinn: „Flest tækniatriði eru fengin frá Fiat 500, svo sem „pönnukökuvél” og pendúlöxlar, en framleiðendur afsaka sig með þvi, að engin önnur leið sé þekkt við framleiðslu svo ódýrra bíla. — Vélin er 594 ccm og 23 hö. Billinn er 305 cm langur og hámarkshraðinn er 110 km/klst.“

Mynd/Stellantis/Fiat

Svo kom bíllinn til landsins og virðist hann hafa fallið Íslendingum vel í geð því hann var sá mest seldi hér á landi árið 1973. En Fiat 126 hér á landi verða betur gerð skil hér á síðunni áður en langt um líður.

Mynd úr Morgunblaðinu frá janúar 1973.
„Á sl. ári bættust við nýjar gerðir og er þar fremstur i flokki Fiat 126. Það er staðreynd, að á sl. ári var Fiat mest seldi billinn hér á landi. Aðal ástæðan fyrir vinsældum hans er, hve bíllinn er litill en rúmgóður, 80% stærðar hans nýtist sem farþega eða farangursrými, sem er afbragðs nýting. Einnig hefur verð á Fiat verið mjög hagstætt,“ segir í auglýsingunni.
Leikarinn Tom Hanks eignaðist þennan (Polski Fiat) árið 2016. Mynd/Twitter

Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Svipaðar greinar