Á því herrans ári 1969
Árið 1969 var klikkað í bílaheiminum. Reyndar áður en menn áttuðu sig á því. Ef við skoðum eilítið hvað var að gerast ákkúrat árið 1969 sjáum við að margir af eftirsóttustu sporturum heims koma á markað það ár.

Asía leyndi á sér
Bílaframleiðendur voru almennt í stuði beggja vegna Atlantsála seinni hluta sjöunda áratugarins en segja má að toppnum hafi verið náð árið 1969. Asíubúarnir meira að segja létu til sín taka á sportbílamarkaði.
2000GT frá Toyota og Datsun 240Z eru eftirminnilegir.
Hvað var annars að gerast árið 1969. Mannfólkið sendi mannað farartæki til tunglsins, hipparnir dönsuðu og sungu ásamt fleiru og Ameríkanar villtust um skóglendi Víetnam. En skoðum ástæðurnar fyrir því að í bílaheiminum gæti orðið langt þangað til að við fáum eins ár og 1969.
Nöfnin voru sexý
Jafnvel nú, árið 2022 eru gamlir bílar eins og Corvette, Camaro, Charger, Challenger og Mustang að valda því að fullorðnir menn flissa eins og grunnskólakrakkar þegar slíkur bíll er á svæðinu.
Ekki skánar það ef Lambo, Ferrari, Jaguar eða jafnvel gamall og flottur Alfa sést aka hjá.

Auðvitað eru nýjustu sportararnir hlaðnir tæknibúnaði sem menn þorðu ekki einu sinni að ímynda sér að yrði til 50 árum síðar. Það er samt ekki sama dulúðin í gangi og frá sjöunda áratugnum.
Ford Mustang þýddi kraftur
Ég man eftir því þegar bróðir minn keypti sér lítið notaðan Mustang fastback, gulan að lit, líklega árið 1970 hjá Sölunefnd varnarliðseigna.
Það tók tímann sinn að bjóða í slíkan bíl og gott ef ekki þurftu menn jafnvel að þekkja mann og annan til að dæmið gengi upp.
llavega var gott að semja við vini um nokkur boð svo dæmið gengi upp.

Ég man enn þá tilfinninguna sem sex ára polli að setjast upp í glansandi ljós leðursætin og finna „amerísku” kaggalyktina (blanda af leður-, bensín – og Mjallarbóns lykt).
Hljóðið þegar græjan var sett í gang hljómar enn í minningunni sem það kraftmesta sem maður hafði heyrt á þessari stuttu ævi sem þá var lifuð.
Vökva hvað?
Bremsurnar voru svo öflugar að ef maður fór í ísbíltúr var eins gott að menn misreiknuðu sig ekki á fótstiginu – þá gat farið illa með ísinn.
Þetta voru bremsur sem aldrei voru kallaðar annað en “power bremsur” og auðvitað var líka “power stýri”.
Stýrið var svo létt að passa þurfti að hreyfa það ekki of mikið til að fara ekki útaf.

Ef við skoðum aðeins magnið sem framleitt var af bílum árið 1968 erum við að tala um í heildina um 28,3 milljónir bíla sem skiptast nánast jafnt á milli atlantsála en Evrópa er þó með 11,1 milljón á meðan Kaninn er með 10,8 milljónir bíla.
Kíkjum á nokkra Kana frá 1969







Hér eru svo fáeinir Evrópubílar frá 1969







Og að lokum Asíbúarnir frá 1969


Myndir: Valdar af handahófi víðsvegar á vefnum. Fegurðarsjónarmið réðu valinu að mestu leyti.