Steve Jobs fékk nýjan bíl á 180 daga fresti

138
DEILINGAR
1.3k
SMELLIR

Steve Jobs (1955-2011) skipti um bíl á 6 mánaða fresti, lagði í stæði fyrir hreyfihamlaða og vildi ekki hafa númeraplötu á bílnum sínum. Af hverju? Jú, allt á þetta sér nú skýringu. Lítum nánar á þessar staðhæfingar!

Steve Jobs (1955-2011).

Steve Jobs þarf ekki að kynna með mörgum orðum, en fyrir þá sem koma af fjöllum og eru lítið fyrir ávexti þá stofnaði Jobs, ásamt tveimur öðrum, fyrirtækið Apple árið 1976. Nánar má lesa um það víða á veraldarvefnum, til dæmis á síðunni www.allaboutstevejobs.com.

Á 6 mánaða fresti

Það er staðreynd að Steve Jobs var alltaf á nýjum bíl og til þess að það geti gengið þarf auðvitað að skipta æði ört. Hann var nú ekkert að flakka mikið á milli tegunda en á 180 daga fresti fékk hann nýjan bíl.

Mercedes SL55 AMG er almennilegur kaggi. Ljósmynd/Mercedes

Frá því Mercedes SL55 AMG kom á markað upp úr aldamótum var það tegundin sem Jobs kaus og notaði þar til að leiðarlokum kom. Hann hefur þá náð að eiga um 20 Mercedes SL55 AMG í heildina. Einhvers staðar rakst ég á töluna 19. Alltaf fékk hann sér sinn Mercedes SL55 AMG í sama litnum sem var silfurgrár.

Áður hafði hann átt Porsche 911. Svartan. Nýr svoleiðis á 6 mánaða fresti og þannig hafði það verið í einhver tuttugu ár.

Af hverju?

Auðvitað varðar mann ekkert um það af hverju Jobs vildi alltaf vera á nýjum bíl, en óneitanlega vekur það áhuga. Ýmsar skýringar hafa menn haft á því í gegnum tíðina og eftir andlát Jobs var nokkuð fjallað um bílaeign Jobs og dynti í bílamálum.

Kannski var nýr bíll í huga Jobs eins og hrein og ný föt eru í huga annars: Það þarf að skipta þessu út. En nei, það er nú býsna langsótt að þykja bíll jafnast á við gamalt fjós hálfu ári eftir afhendingu.

Ljósmynd/Mercedes

Sú skýring sem talist gæti líklegri tengist númeraplötum. Já, það er nefnilega það! Ákaflega langsótt en hér komum við að næstu staðreynd sem verður að fylgja með:

Engar númeraplötur

Jobs var ekki með einkanúmer á bílnum sínum. Nei, hann var einfaldlega ekki með bílnúmer. Bara tóman rammann að aftan en bílnúmer var hvorki utan á bílnum né innan í honum.  

Bíll Steve Jobs var oft myndaður og í raun vakti það sem ekki var til staðar, nokkra athygli: Bílnúmerið sem ekki er.

Jon Callas, sérfræðingur í tölvuöryggismálum, ljóstraði upp einu og öðru stuttu eftir fráfall Jobs en þeir Callas höfðu unnið náið saman á fyrstu árum Apple. Callas sagði frá því í löngu viðtali við iTWire að Jobs hefði lagt mikið upp úr því að hugsa öðruvísi en aðrir og gera allt annað en það sem hefðbundið þótti.

Þarna er einn af þeim tuttugu Mercedes SL55 AMG sem Jobs átti. Ekki voru númeraplötur á bílum Steve Jobs síðustu árin sem hann lifði.

Þess vegna hafi fagurkerinn Steve Jobs fundið út úr því hvernig aka mætti um án þess lýtis sem honum hafi bílnúmer þótt vera á fallegum bíl. Hann hafi fundið glufu í lögum til að aka um á númerslausum bíl í Kaliforníu.

Alla vega þá sagði Callas að Jobs hefði fundið út að í lögum um ökutæki í Kaliforníu væri þá glufu að finna að hver sem ætti nýjan bíl hefði að hámarki sex mánuði til að festa númeraplötur á bílinn. Skráningarskírteinið þyrfti að vera tiltækt, en annað í raun ekki.

„Jobs gerði samkomulag við eignaleigufyrirtæki um að hann myndi skipta um bíl áður en samningstími næði fullum sex mánuðum, skipta út silfurgráum Mercedes SL55 AMG fyrir annan nákvæmlega eins. Aldrei nokkurn tíma myndi hann vera á bíl sem væri eldri en sex mánaða gamall. Þannig þyrfti hann aldrei, lagalega séð, að festa númeraplötur á bílinn,“ sagði Callas.

Í greininni sem vitnað er í hér að ofan segir líka að eignaleigufyrirtækinu hafi ekki þótt neitt leiðinlegt að geta útvegað honum nýjan bíl á sex mánaða fresti og selt svo „gamla“ bílinn sem undir þeim formerkjum að þar færi bíll frá sjálfum Steve Jobs.

Hallærislegt? Æj, já, alla vega þetta síðasta.

Fjölmiðlar og stóra bílnúmeramálið

Jobs var sannarlega þekktur fyrir að vilja hafa hlutina fallega. Vörur frá Apple hafa litið ágætlega út – fallega hönnuð umgjörð eða box utan um rafhluti. Þetta með bílnúmerið má tengja fagurfræði.

Steve Jobs með iPad sem hann kynnti í janúar 2010. Mynd/Wikipedia

Þá má nú líka spyrja hvort tómur númerarammi sé mikið fallegri en bílnúmerið sem annars myndi sjást? Það er nú það. En einhver hefur sérviskan verið.

Aðrir hafa haldið því fram að Jobs hafi viljað fá að vera í friði og þess vegna ekki verið með bílnúmer á bílnum. Það er náttúrulega alveg út í hött því númerslaus bíll af þessari gerð er ekki beint kjörinn til að „falla inn í hópinn“ og verða minna áberandi. Já, fólki dettur nú ýmislegt í hug.

Það eru ekki nema rúm tíu ár síðan þetta var sjóðandi heitt mál í fjölmiðlum vestra þar sem það var almennt þekkt sem „Steve Jobs Loophole“. Hafi þetta „stórmerkilega“ mál farið framhjá okkur þá má minna á að við vorum alveg nýhrunin og höfðum um annað að hugsa en löggjöf um bílnúmer á nýjum bílum í Kaliforníu.

iMac kom á markað árið 1998 og þótti smart. Mynd/Wikipedia

Árið 2012 var fresturinn til að festa númer á nýja bíla styttur úr sex mánuðum í þrjá. Það var loks í janúar 2019 sem fyllt var upp í „glufu Steve Jobs“ og síðan þá hefur ekki mátt aka um á númerslausum nýjum bílum í Kaliforníu.

Hvað með merktu stæðin?

Þá er það síðasta atriðið og það hefur með bílastæði hreyfihamlaðra að gera. Ótal myndir eru til af bíl Jobs í sérmerktum bílastæðum fyrir hreyfihamlaða. Einkum fyrir framan höfuðstöðvar Apple en þetta er löngu komið gott af rúmlega áratugargömlum vangaveltum um það af hverju maðurinn, Steve Jobs, var eins og hann var.

Hann er í það minnsta þekktari fyrir að hafa gert eitt og annað merkilegra en að finna glufu í lögum um skráningu ökutækja í Kaliforníu.

Að lokum er við hæfi að birta myndir af nokkrum bílum sem hann mun hafa átt sem ungur maður. Áður en hann skipti yfir í sex mánaða regluna.

Fyrsti bíllinn: Nash Metropolitan með MG vél. Bíllinn var gjöf frá föður hans en ungum piltinum þótti bíllinn frekar lummulegur.
Ári síðar losaði hann sig við gamla Nash og fékk sér þennan í staðinn:  Fiat 850 coupe, Abarth útgáfu.
Sjóðandi heit kartafla? Ford Pinto

Svo er þetta nú vonandi bara lélegt grín. Ef ekki þá er um að ræða alvarlega glufu í kolli bílamannsins því þetta er Ford Pinto sem frægur var að endemum því hann var eins og tifandi tímasprengja. Við ómerkilegustu árekstra (ef ekið var aftan á Pinto) gat hreinlega kviknað í bílnum.

Annað úr tölvuáttinni:

Sinclair C5: saga rafbíls Sir Clive Sinclair

?Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.

Svipaðar greinar