Gapandi og jafnvel gólandi fylgdist fólk með svartri C8 Corvettu aka í svakalegu flóði í Flórída. Svo djúpt var vatnið að það náði upp að framrúðu sportarans en svona lagað telst almennt ekki sniðugt. Bara alls ekki.

Að sjálfsögðu voru einhverjir á staðnum nógu snöggir að rífa upp síma og þess vegna er hægt að sjá þetta frá tveimur sjónarhornum, hið minnsta. Fyrra myndbandið tók kona nokkur sem horfði beint framan á Kaf-vettuna sem kom eins og flóðhestur upp úr sullinu.

Svo má sjá hvar sportarinn er kominn upp úr djúpinu og bílstjórinn lætur vélina malla í hægagangi – eflaust til að athuga hvort hún hafi hreinlega haft þetta af.

Veittu einhverjir því athygli að þarna var á ferðinni „utanbæjarmaður“ eins og sagt er, en númeraplöturnar eru merktar Washington.
Seinna myndbandið er óskýrara en þar sést bíllinn frá hlið. Heyrist töluvert í fólkinu í kring sem kannski er yfir sig spennt vegna mögulegra endaloka vélarinnar í fallega bílnum.

Einhvern veginn lifði vélin kafsundið af. Ef til vill hefur það eitthvað með staðsetningu vélarinnar að gera (mid-engine layout) eða þá að einhver meiriháttar lukka hafi komið í veg fyrir að vatn færi inn á vélina. Þetta var eftir sem áður vond hugmynd hjá bílstjóranum og ill meðferð á föngulegum bíl.
Fleira um Corvettur – örlög, framtíð og fortíð:
Ekki rafretta heldur rafVetta: Myndband
Nýjar Corvettur fuðruðu upp í eldsvoða
„Flat out“ á Corvettu: Sjáðu og hlustaðu!
Chevrolet Corvette, bíllinn sem bræddi hjörtu
Hvað finnst þér, lesandi góður? Smelltu hér til að skapa umræður við Facebookfærslu þessarar greinar! Og endilega láttu þér „líka“ við okkur á Facebook til að missa ekki af fréttum úr bílaheiminum.