Er þessi Volvo P1800 í felulitum vísbending um endurkomu bílsins og þá með rafmagni?
Bíllinn á myndunum með þessari frétt sást fyrir utan reynsluaksturssvæði Volvo í Svíþjóð og þeir sem sjá um vefsvæðið INSIDEEVs og birtu myndirnar, eru ekki vissir um hvað er á seyði.

Þessi stílhreini Volvo P1800 er líklega mest áberandi tveggja dyra bíll sem nokkru sinni hefur komið frá Svíþjóð, en framleiðslu var hætt 1973. Hvað er bíllinn að gera fyrir utan reynsluaksturssvæði Volvo í Hällered nálægt Gautaborg, íklæddur felulitum og með frekar áhugaverðar breytingar.
Vefurinn fékk myndirnar frá áköfum aðdáanda Volvo sem benti einnig á ýmislegt sem er breytt á þessum tiltekna bíl.

Í fyrsta lagi er bíllinn greinilega með útvíkkuð bretti til að rúma stærri felgur og dekk. Svo vantar alveg allt sem gætu verið púströr – það hefur verið stungið uppá því að þessi P1800 gæti verið einhverskonar breyting frá verksmiðju og búið að breyta í rafbíl, en af hverju ætti Volvo gera eitthvað svoleiðis?
Í langri lýsingu sem vefsvæðið fékk á bílnum kemur fram sú staðreynd að þegar þeir skoðuðu skráninguna kom fram að bíllinn er frá 1964 og var þá rauður á litinn. Annað áhugavert er sú staðreynd að fyrri eigandi bílsins var greinilega Jonas Christian Dahl, sem átti Polestar fyritækið árið 2004 (þegar það var sérstakt fyrirtæki sem smíðaði keppnisbíla Volvo) og er nú maðurinn á bak við Cyan Racing.
Verður þessi P1800 með Polestar 2 drifrás?
Þetta gæti þýtt að þetta sé í raun Polestar verkefni, ekki eitthvað sem Volvo er að gera. Óháð því, er 60 ára afmæli P1800 að koma upp á næsta ári og þetta verkefni gæti verið leið Volvo til að halda upp á afmæli bílsins.
Sú þróun að bílaframleiðendur haldi upp á afmæli sígildra bíla með því að búa til rafmagnsbíl er í raun algengari en margir gætu haldið. Aston Martin er að gera þetta, eins og Jaguar og Volkswagen, svo allt ofangreint virðist nokkuð trúlegt í þessu samhengi.
Við verðum bara og bíða og sjá.
Nýjustu fréttir: 3. ágúst 2020
Samkvæmt því sem komið hefur fram á vef Autocar, þá er þessi tilraunabíll P1800 með bensínvél þvert á þær vangaveltur að um væri að ræða bíl sem aðeins notaði rafmagn.
(byggt á vef INSIDEEVs)



