Leapmotor B10: er þetta rafbíllinn sem beðið hefur verið eftir?

Tegund: Leapmotor B10

Árgerð: 2026

Orkugjafi: Rafmagn

Verð, þægilegur akstur, rými, flottar innréttingar
Smá veghljóð
149
DEILINGAR
1.4k
SMELLIR

Það er ekki sjálfgefið lengur að nýr rafbíll á markaði sé háreistur krossover eða sportjeppi.

Leapmotor B10, sem er nýkominn til landsins hjá Ísband í Mosfellsbæ, er nokkuð eftirtektarverður bíll.

Hér er um að ræða afturdrifinn, sportlegan rafknúinn fólksbíl sem leggur meiri áherslu á jafnvægi, aksturseiginleika og raunhæfa notkun heldur en að elta tískustrauma.

Laglegur bíll með öllu því sem við eigum að venjast í nýjum rafbíl.

Laglegur bíll

Við fyrstu kynni kemur í ljós að B10 er nokkuð hefðbundinn í útliti en með mjúkar línur, hreina hönnun og skýra rafbílaímynd. Hann er hvorki tilgerðarlegur né ýktur í útliti, heldur einfaldur og nútímalegur, þar sem loftaflfræði og hlutföll skipta meira máli en sjónræn dramatík. Þetta er bíll sem virkar jafnt í borgarakstri sem og fyrir lengri ferðir.

Gott að setjast inn og stíga út úr bílnum. Þú sest beint inn en ekki niður í bílinn. Hurðir opnast einnig vel.

Innanrýmið heldur áfram í sama anda. Skipulagið er einfalt og notendavænt, með stórum snertiskjá í miðju mælaborðsins sem stýrir helstu kerfum bílsins.

Efnisval og frágangur eru í takt við svipaða bíla á markaðnum og rýmið er meira en nægilegt fyrir fjóra fullorðna farþega. Aftursæti nýtast vel, þau eru djúp og gólfið slétt.

Farangursrýmið er um 430 lítrar og er í góðu meðallagi fyrir fólksbíl í þessum stærðarflokki. 

Mælaborðsskjárinn er ekki ósvipaður og í Tesla bílunum en sjá má umferð í kringum bílnum á heimaskjánum.

Rúmgott innanrými og sérlega gott fótapláss aftur í.

Góð akstursupplifun

Akstursupplifunin er einn af sterkari þáttum bílsins. Afturdrifið skilar léttari framenda og betra jafnvægi í beygjum. Rafmótorinn gefur um 160 kW af afli, sem jafngildir tæplega 218 hestöflum, og togið er 240 Nm.

Þetta nægir vel til að gefa bílnum lipra hröðun, án þess að maður finni eitthvað „spark í rassinn” í upptakinu.

Hröðun úr kyrrstöðu í 100 km/klst er um átta sekúndur, sem er fullkomlega í takt við það sem má teljast eðlilegt í rafknúnum fjölskyldubíl.

Val um 6 flotta liti.

Fjöðrun er stillt með þægindi í huga, en heldur samt góðri stjórn þegar hraðinn eykst.

Á íslenskum vegum skilar þetta sér í áhyggjulausum og öruggum akstri, þar sem bíllinn liggur ágætlega og bregst nokkuð vel við stýrisátaki.

Þetta er ekki sportbíll, heldur vel stilltur rafbíll sem leyfir ökumanni að njóta akstursins án fyrirhafnar.

Vel búinn bíll

Þess má geta að sæti eru þægileg og bæði með hita og kælingu fram í en einnig hita í aftursætum. Hurðir opnast sérlega vel og þú sest inn í bílinn en ekki ofan í hann. Birta og léttleiki yfir innanrýminu skapast við hið stóra glerþak sem boðið er upp á í báðum gerðum bílsins.

Framsætin eru með kælingu og hita og að aftan er sætishiti líka.

Rafhlaðan í Leapmotor B10 er 67,1 kWh að stærð, þar sem um 65 kWh eru nýtanleg. Samkvæmt WLTP-mælingum er skráð drægni allt að 434 kílómetrar.

Þetta eru tölur sem standast vel samanburð við aðra rafbíla í sama verð- og stærðarflokki.

Það er lítið um takka í nýjustu mælaborðum rafbílanna – en þú getur „forritað” stýrishnappana fyrir helstu stýringar.

Á pari við samkeppnina í hleðslugetu

Hleðslugeta er einnig í góðu lagi. Bíllinn styður allt að 11 kW heimahleðslu, sem þýðir að rafhlaðan hleðst á nokkrum klukkutímum.

Á hraðhleðslustöðvum ræður Leapmotor B10 við allt að 168 kW DC-hleðslu, sem gerir kleift að hlaða rafhlöðuna úr um 10 í 80 prósent á rúmlega tuttugu mínútum við kjöraðstæður.

Þetta skiptir miklu máli á lengri ferðum hér á landi, þar sem stutt stopp geta sparað verulegan tíma.

Hraðhleðsla tekur um 20 mín. 10-80% við bestu aðstæður.

Tæknibúnaðurinn er í takt við nútímakröfur og sérstaklega vert að nefna að Apple CarPlay bætist við bílinn með nýjustu stafrænu hugbúnaðaruppfærslu á næstu vikum.

Það gerir tengingu við iPhone mun þægilegri og eykur notagildi bílsins í daglegum akstri, hvort sem um er að ræða leiðsögn, símtöl eða tónlistarstreymi.

Skottið má stækka með því að færa gólfið niður.

Við akstur má greina smá veghljóð en ekkert til að fetta fingur út í.

Rafbíll sem gæti hitt í mark

Í heild sinni er Leapmotor B10 skýr yfirlýsing um að rafbíll þurfi ekki að vera sportjeppi til að henta íslenskum aðstæðum. Hér er afturdrifinn, sportlegur fólksbíll sem býður upp á raunhæfa drægni, hraða hleðslu og aksturseiginleika sem gera daglega notkun bæði þægilega og skemmtilega.

B10 er búinn skriðstilli sem kemur í veg fyrir að bíllinn rási nái hann ekki gripi.

Fyrir þá sem vilja nýjan rafbíl sem býður upp á allt það sem rafknúinn fjölskuyldubíll á að hafa, er B10 áhugaverður kostur sem vert er að prófa í reynsluakstri hjá Ísband í Mosfellsbæ. Og verðið – það lægsta á sambærilegum bíl á markaðnum í dag.

Myndband

Helstu tölur:

Verð: 3.990.000 kr. – 4.790.000 kr.

Hestöfl: 218

Drægni: 434 km. skv. WLTP.

Rafhlöðustærð: 67,1kWh.

Eigin þyngd: 1.845 kg.

Heimahleðslugeta (AC): 11 kW.

Hraðhleðslugeta (DC): 168 kW.

Dráttargeta: 750 kg.

Svipaðar greinar

Svipaðar greinar